Erró
Um listamanninn
Guðmundur Guðmundsson, öðru nafni Erró (f. 1932), er tvímælalaust þekktasti samtímalistamaður Íslendinga. Hann hefur verið þátttakandi í framsæknu listalífi Parísarborgar allt frá árinu 1958, bæði innan súrrealistahreyfingarinnar og einnig sem einn af forvígismönnum popplistarinnar eða evrópska frásagnarmálverksins.
Erró byggir verk sín á tilvísunum í myndir annarra sem hann klippir saman og flytur yfir á léreftið. Hann segir frá með myndmáli ofurraunsæis og teiknimynda og frásögn hans er ýmist einföld og kyrrstæð eða flókin og yfirgengileg.
Hann klippir og sundurgreinir, límir og endurbyggir flóknar sögur þar sem viðfangsefnin eru ýmist pólitík, erótík, listasagan, ævisögur, skáldsagnapersónur, teiknimyndahetjur og vísindaskáldskapur eða eigin listaverk.

Errósafn
Árið 1989 gaf Erró (f. 1932) Reykjavíkurborg stórt safn verka sinna, um 2000 talsins. Meðal þessara verka er að finna málverk, vatnslitamyndir, grafíkverk, skúlptúra, klippimyndir og önnur listaverk, sem spanna allan feril listamannsins, allt frá barnæsku. Auk listaverkanna gaf Erró borginni umfangsmikið safn einkabréfa, póstkorta, ljósmynda, skyggnumynda, kvikmynda, bóka, veggspjalda, sýningarskráa og blaðaúrklippa sem snerta listferil hans. Þessar ríkulegu heimildir hafa mikið gildi fyrir allar rannsóknir er snerta listamanninn Erró og samtíma hans.

Safnið hefur vaxið jafnt og þétt síðustu árin, eftir því sem Erró hefur haldið áfram að bæta við gjöfina og keypt hafa verið verk inn í safnið sem telur um 3000 listaverk. Nú er föst sýning á verkum eftir Erró í Hafnarhúsinu.

Bækur um Erró
Á Listasafni Reykjavíkur, í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum eru til sölu bækur sem spanna feril listamannsins.

Sýningar
Sýningar á Errósafninu eiga sér fastan sess í Hafnarhúsinu en með þeim er leitast við að gefa sem besta mynd af fjölbreyttum áherslum í verkum listamannsins.