Leonardo DaVinci fæddist skammt frá Flórens 1452. Hann var lausaleiksbarn og ólst upp hjá föðurfólki sínu án nokkurs sambands við móður sína. Þessar aðstæður eru m.a. taldar hafa gert honum kleift að læra til listamanns.
Hann var kominn í nám til meistara um 1466 og fljótt kom snilld hans í ljós. Hann var strax tekinn í hóp listamanna, gerir myndir sem bera vott um hæfileika hans og var falið að vinna ýmis vandasöm verkefni. En hann ætlaði sér meiri frama og fljótt fóru að koma fram ýmsar nýungar í myndum hans sem áttu eftir að gjörbreyta viðhorfum í myndlist og leggja grunn að hinni háklassísku myndgerð Endurreisnar.
Eldri myndir ítalskra málara eru byggðar upp með tilliti til litstyrks og þegar þurfti að gefa ákveðnu formi þrívídd eða skugga, var það gert með því að dekkja sjálfan litinn, þannig varð ekki samræmi í litunum innbyrðis því dökkblár skuggi er t.d. dekkri en dökkrauður skuggi. Leonardo hafði hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að ljós og skuggar voru sérstök fyrirbæri óháð litum, sem samkvæmt náttúrulegum lögmálum ættu að dreifast jafnt yfir myndflöginn allan.
Hann gerði sér líka grein fyrir því að ekki er nóg að draga fram dramatískt inntak mynda með ljósdreifingunni einni, heldur skipti meginmáli hvernig fólki var raðað niður á myndflötinn. Með því að koma aðalpersónunum fyrir nálægt miðju, láta þær mynda pýramída með stellingum sínum, handahreyfingum eða augngotum, hat málarinn tryggt að athygli áhorfandans beindist að þeim um leið. Þannig varð hin trausta myndbygging Endurreisnar til. Manneskjur virðast nú sitja í raunverulegu rými innvafðar raunverulegri birtu.
Í næstu tvo áratugi starfar Leonardo í Milano í þjónustu höfðingja sem var bæði grimmur og spilltur, en veitti honum þó vinnufrið og allt annað sem þurfti til sköpunar og rannsókna.
Um aldamótin 1500 er Leonardo svo aftur kominn til heimaborgar sinnar og hefst þá annað Flórens-tímabilið í list hans sem stendur til 1508. Hann fékk ýmis stór verkefni og var með mörg járn í eldinum. Meðan hertogar og kóngar gengu á eftir honum og báðu hann um myndir og teikningar, þá tók hann það upp hjá sjálfum sér að mála unga eiginkonu kaupmanns í borginni, Monu Lísu (1503 - 1505). Ekki er vitað um ástæðuna en kanski hefur hann séð í andliti hennar snert þeirrar dulúðar sem hann sóttist eftir að tílka í málverkum sínum. Portretmyndir voru ekki nýung á Ítalíu en Leonardo gæddi þær nýrri sálarlegri vídd með svipbrigðum - brosinu fræga - sýndi hendur fyrirsætunnar og kom fyrir dularfullu landslagi í bakgrunni, sem endurspeglar innra líf hennar. Sjálft brosið er þáttur í margræðni þess.
Mestur tími Leonardos virðist hafa farið í alls konar rannsóknarstörf, t.d. á vinnumélum, blómum, líkamsstellingum, fuglum o.m.fl. og bera ótal skissur vott um þá vinnu. Þrátt fyrir góða aðstöðu virðist hann ekki hafa gert mikinn fjölda myndlistaverka, því aðeins hafa varðveist eftir hann 15 - 18 verk. Hann lést árið 1519.
Margir hafa gert sér það til dundurs að breyta á ýmsan máta bakgrunni og fleiru í myndinni af Monu Lísu og eru hér dæmi um það.