Snorri Arinbjarnarson 1901 - 1958 ritgerð sem ég skrifaði um myndlistarmanninn Snorra Arinbjarnarson.
ég kóperaði þetta nú bara beint upp úr word skjalinu mínu, vona að uppsetningin komi vel út hérna, ef ekki þá biðst ég forláts.
Vil taka það fram að þetta er skrifað af mér, og áskil mér rétt til að skaða kynfæri þess sem stelur þessum skrifum all svaðalega. takk fyrir og njótið.

Snorri Norðfjörð Arinbjarnarson var fæddur í Reykjavík þann fyrsta desember 1901, sonur Arinbjarnar Sveinbjarnarsonar frá Ökrum á Mýrum, hann var bókbindari og bókaútgefandi og var vel efnaður á þeim tíma og naut Snorri góðs af því í listum sínum.
Hann var glaður unglingur, opinn fyrir áhrifum umhverfis og áhugaefna, þökk sé vel efnuðum föður hans stóðu honum margar opnar dyr og gat hann valið leiðir sínar eftir skyldunám sjálfur. Snorri fann sig í teikningunni og sem ungur maður teiknaði hann mikið af kafbótum, flugvélum og fallbyssum, en ekki líður á löngu þar til að hann fær leiða á stríðum og stríðsefnum og fer hann að einbeita sér að drauga og kynjamyndum og kvenpersónum.
Hann skissaði mikið og punktaði hjá sér hugsanir og gagnrýni á eigin verk, hann var meðvitaður um það að hann átti mikið eftir að læra og fannst honum línuteikningar sínar ekki nógu öflugar, hann hafði ekki nægt vald yfir blýantinum. Hann tók til við að mála vatnslitamyndir og svipaði fyrstu verkum hans mikið til verka Þórarins B. Þorlákssonar, eru það fyrstu merki um utanaðkomandi áhrif frá öðrum listamanni í verkum Snorra.
Snorri leitaði oft fram á nes, austur að Elliðavatni eða suður í kletta öskjuhlíðar til þess að bæði skissa og mála og kallaði hann það að „krabba“ þegar hann fór slíkar ferðir.
Um 1920 fer myndefnið hjá Snorra að skýrast, það verður hreint og litunum hóflegar beitt heldur en áður fyrr, hann vandi sig á kyrrlátan forgrunn á móti köldum bakgrunn sjávar og fjalla, einnig leggur hann mikla áherslu á flata- og litgildi þessara verka. Myndirnar bera eð sér kennd víðernis og kyrrðar, líklega þeirra tilfinninga sem voru í brjósti Snorra þegar hann fór þessar ferðir sínar.
Um tvítugt fer hann að fá leið á Elliðavatni og nærliggjandi umhverfi sínu og ferðast til Borgarfjarðar þar sem hann dvaldist hjá föðurfólki sínu bæði að Stafholti og Haugum, en ekki dugar það Snorra því að árið eftir (1921) fer hann í langa hjólreiðaferð um suðurland allt undir Eyjafjöll og skissar mikið á ferðum sínum yfir þann tíma.
Næstu tvö sumur dvelst hann hjá bróður sínum Kristjáni sem var nýlega tekinn til starfa sem læknir á Blönduósi, það er á þessum tíma sem að Snorri fer að beina list sinni í þá átt sem átti eftir að vera gegnumgangandi og ráðandi í verkum hans þaðan eftir, hann heillast af verkum Max Klinger, Anders Zorn og Goya og fer að leita sér myndefnis í hversdagsleika sjávarþorpsins er áhugi hans á landslagi fer dvínandi, hann vill sýna líf og tilfinningar annarra en hans eigin.
Myndir hans frá Blönduósi einkennast af eyðileika og hlýju sem hann upplifði svo sterkt yfir dvöl sína þar, í þessum verkum má sjá kaupstaðarhús, vegghlaðna torfbæi og skakka símastaura sem standa óreglulega við götur þorpsins sem markast aðeins af óreglulegum hjólförum á þessum tíma. Svipar fyrir einstökum hestvögnum eða ásýnd embættis eða kaupmanns gefur myndunum fastan punkt og þyngra gildi ásamt því sem það gefur okkur betri sýn inn í lífið í þorpinu.
Hann skissaði mikið niðri við höfnina og má á sumum myndum hans sjá konur vaska fisk eða báta við bryggjuna. Hann hafði ekki enn náð góðu valdi yfir blýantinum og punktar enn hjá sér hjálparsetningar og hugsanir, í skissubók hans frá Blönduósi skrifar hann,
„skugga og ljóseffekt verður að stúdera betur áður en málað er, helst á staðnum“.
Árið 1924 er Snorri staddur í lystigarði í Hróarskeldu á Sjálandi. Á skissum hans sjást þröngir göngustígar sem liggja undir trjágöngum, skífubrún þök og grænir skógar, hann skrifar liti inn á hvern flöt á skissum sínum og er að efna sér í danskt sumarmálverk.
Þetta viðfangsefni hentaði honum ekki og daginn eftir er hann staddur á Kalvebod bryggju og unir sér þar sem verið er að skipa kolum upp á bryggju, stórir og einfaldir drættir, dramatísk nálgun á háa púandi reykháfa skipanna og stórir járnbitar kolakranans eru gnæfandi, þarna er ekkert flaustur á blýantinum heldur einbeittar og ákveðnar strokur. Þessar myndir eru fyrirheit um það sem koma skal.
Stuttu seinna fer hann að teikna í gifsafsteypudeild danska ríkislistasafnsins undir handleiðslu Viggo Brandts, teikningin verður veik hjá honum og hann hefur enga stjórn á blýanti sínum, hann er aftur orðin reynslulaus unglingur í höndum kennara síns, á vitlausri hillu í list sinni.
Eftir þetta snýr hann heim aftur, líklegast villtur í stefnu sinni og tekur því við að hörfa aftur í íslenskt landslag. Á þessum tíma verður hann fyrir áhrifum af form-expressionisma Jóns Stefánssonar og dettur hvað eftir annað inn í nálægara myndefni sem kemst aldrei lengra en í teikniblokkina, hann á erfitt með að koma sér út úr þeim gamla vana og þægindum landslagsmálverkanna.
Hann ferðast um Snæfellsnes og er enn með hálfum hug að „krabba“, það er ekki fyrr en hann kemur inn á Stykkishólm að hann nær að rífa sig upp úr landslaginu, hann verður heillaður af bæjarmyndinni og það færist hraði og sannfæring í blýantinn hjá honum.
Upp úr þessu tekur hann ákvörðun um að fara aftur á Blönduós og kynnist þar Þorvaldi Skúlasyni og varð með þeim góð vinátta og samstarf „Skynjun Snorra á sérkennilegu myndauðgi þorpsins og þroskað viðhorf Þorvalds til ýmissa myndrænna vandamála varð þeim til gagnkvæmrar uppbyggingar.“ (Björn Th. Björnsson Íslenzk Myndlist:19).
Árangur kynna Snorra og Þorvalds sést vel í verkum Snorra næsta sumar þegar hann ferðast upp í Borgarfjörð og dvelur þar um stund, hann lærir að greina aðalatriði frá aukaatriðum og magnar þau með litum og formum, hann verður meðvitaðri um myndskipan og þess valds sem hann hefur yfir verkum sínum. Verkum hans fer að svipa til verka Jóns Stefánssonar og enn og aftur finnst Snorra hann vera á vitlausri braut.
Haustið 1928 halda Snorri og Þorvaldur Skúla í ríkislistaskólann í Osló að ráðum Jóns Stefánssonar. Snorri stundar námið af miklum áhuga þennan vetur undir kennslu Revolds og höfðaði hann vel til Snorra enda leitaði Revold fram eftir árum til fiskibæja með rauðþakin hús og þröngar hafnir, má segja að upp að vissu marki hafi þeir deilt sömu sýn á heiminn og listir sínar. Snorri lærði mikið þennan vetur í Osló en varð það þó ekki til neinna breytinga í stefnu hans, líklega vegna keimleika á verkum hans og Revolds og snýr Snorri aftur á Blönduós sumarið eftir.
1929 reynir hann að komast út aftur og skrifar Revold bréf þar sem hann biður um meðmæli til styrkveitingar hér á Íslandi, Revold skrifar til baka
I det aar han var været elev ved vort akademi har jeg med stigende respekt set hans talent udfolde sig. Særlig synes jeg hans koloristiske begavelse er usædvanlig. Hvis han ogsaa kunde faa nogen videre uddanelse i formel sikkerhed – deri er saa meget der direkte kan læres – saa er jeg forvisset om at han vil bli en udmerket maler. For hvad der hos en virkelig kunstner maa være medfödt er utilsomt i bedste orden.“
Þrátt fyrir þessi ummæli frá Revold er Snorra neitað um styrk og hann tekur á það ráð að setja upp opinbera sýningu í húsi KFUM við amtmannsstíg í Reykjavík, sýningin opnaði þann 1. Desember 1929, á 28. Afmælisdegi hans. Á sýningunni voru aðallega verk frá þrem síðustu misserum Snorra, voru þar 22 olíumálverk, 20 vatnslitamyndir ásamt einhverra teikninga, aðallega voru þetta þorpsmyndir að norðan, má nefna „Kot á Blönduósi“, „Bryggja á Skagaströnd“ og „Gata á Blönduósi“, lítið var um landslagsmyndir en „Spákonufell“ og „Blanda“ fengu þó inn á sýninguna, en mátti lesa úr sýningunni að þar hafi Snorri horfið frá landslagsmálverkinu til þess að takast á við að túlka daglegan eril hversdagsleikann.
Hann sá lífið nú með rómuðum blæ, litirnir urðu hlýrri, hversdagslegar gjörðir urðu hátíðlegri og þýðingarmeiri og tilfinningar túlkaðar í mynd.
Eftir þessa sýningu sinnir hann listinni lítið og sýnir nokkurn veginn allar sömu myndirnar á Landakotssýningunni sumarið 1930. Verður það þó til þess að menntamálaráð kaupir eina af stærstu myndum hans „Blöndu og Langadalsfjall“ á 450 krónur sem Snorri nýtir til þess að ferðast aftur til Osló þar sem hann stundar nám í félagi og sambýli við Þorvald Skúla. Þessi vetur (1930-31) einfaldaði marga þætti í verkum Snorra, hann fór að einbeita sér að mínímalískari litanotkun, myndir eingöngu brún- eða grátóna, stakir áherslupunktar oft táknaðir með einum andstæðum lit frá heildarmynd verksins, en enn var teikningin og valdið yfir blýantinum ekki nógu gott.
En til hvers er þá að vakna og fara á
fætur,
og fást við kol eða verzlun, sem illa
gengur,
og hlaupa sig þreyttan í daganna
fánýta flani,
þegar flestir gætu þó sofið svo miklu
lengur.

(Steinn Steinarr, Rauður loginn brann, 1935)

Þegar að Snorri snéri heim eftir seinasta vetur sinn í Osló var kreppan skollin á og það var engu líkara en að hann drykki í sig andblæ og tilfinningu tímans, hann varð einstakur snillingur í að tjá gráslikju langra atvinnulausra daga og hryggðina sem lá yfir öllu landinu.
Hann tók til við að mála auðar götur skuggahverfisins, þunglamaleg steinhús og dimm húsasund þar sem einstöku sinnum mátti sjá glitta í mildar ljósglæður í gegnum skítuga glugga, djúpur litur í flík vegfaranda sem stendur í skugga, tilfinningin sem hann sýndi í þessum verkum var andblær tímans og var hann raunverulegri heldur en veruleiki hversdagsins og umhverfis, hann málaði andrúmsloftið eins og almúginn upplifði það frekar en bókstaflegar götumyndir.
Má segja að verk Snorra hafi á þessum tíma skipst í tvo póla, það eru fyrrnefndar götumyndir hans og hafnarmyndir sem sýna þunglamalega verkamenn að vinnu á höfninni, báta að sigla inn úr þokumistri og gamli kolakraninn gnæfir yfir ásýnd bryggjunnar í baksýn líkt og í gömlu hafnarmyndum hans frá Blönduósi. Þessar myndir einkennast af hlýrri, litsterkari blæ og skörpum einbeittum dráttum og línum, athafnir, dagsbirta og jafn vel sól sést á þessum myndum. Það er sterkur strengur á milli þessara verka hans og götumyndanna, þær gefa merki um erfiði og þreytu enda var höfnin eina von og lifibrauð margra á þessum tíma, mætti segja að þær séu jafnvel hetjulegar.
Eftir fráfall föður Snorra 1932 flyst hann inn til móður sinnar við Harðarstíg og fellur hann aftur inn í gamalt mynstur og fer fleiri ferðir upp í sveit að „krabba“ en hann hafði gert undanfarið.
1935 fer hann til systur sinnar í Kaupmannahöfn og dvelst þar um stund, en kemur svo heim til Íslands og fer til mág síns á Ísafirði sem var þar apótekari.
Vorið 1935 fram í janúar 1936 fær Snorri það verkefni að gera röð stórra dúkrista fyrir forsíðu sunnudagsblaðs Alþýðublaðsins, fyrstu myndirnar voru götu og húsamyndir úr Reykjavík en þegar að hausta tók færir hann myndsviðið á Ísafjörð og voru flestar myndirnar fram á vetur þaðan.Hann heillaðist af þorpinu og afrakstur veru hans þar varð til opnun sýningar stuttu eftir áramótin ´36. Mestur hluti verkanna var frá Ísafirði, ásamt hafnarmynda frá Reykjavík og vatnslitamynda frá Höfn, er sýningarinnar minnst sem listræns stórviðburðar og markaði hann sér sess sem einn fremsti túlkandi kreppunnar á Íslandi.
Um og upp úr 1940 verður breyting á verkum íslenskra myndlistarmanna, áhrif erlendrar óhlutbundinnar samtímalistar ryðja sér leið meðal íslendinga og telja margir að það megi rekja til þess að með upphafi heimstyrjaldarinnar síðari slotaði kreppunni, atvinnuleysi breyttist í mikla eftirspurn eftir vinnuafli og þjóðfélagsandinn varð annar. Hugmyndir og hverskonar efnaleg gildi voru endurmetin, hinn raunsæi expressionismi var að margra mati lokið.
Snorri tók þátt í sýningu Listamannaþingsins haustið ´42, vakti þar mynd hans Stigamenn (frumkast frá ca 1926) einstaka athygli.

Björn Th. Björnsson segir um verkið:
máluð í sterkum djúpbláum litum og byggð á stórsniðinni hringstuðlun í hreyfingu tveggja manna sem ganga upp stiga. Þar eru ekki lengur nein lýsingaratriði, áhorfandinn spyr ekki hvert mennirnir séu að fara eða hverra erinda. Tilgangurinn felst í sjálfseigindum hennar dramatískum litum, hinni þungu hrynjandi í formi og hreyfingum þessara tveggja manna. Við erum leidd inn á tilfinningasvið þar sem sjónræn lifun öðlast gildi án skírskotunar. Naumast er hægt að einkenna málverk Snorra á næstu árum, nema nota lýsingarorðið rómantískt.
Upphaflegri merkingu orðsins sem merkir heitt og dreymið, stundum jafnvel hetjuleg svipmót.
Þegar að ég lít á þetta málverk dettur mér fyrst í hug ritverk eftir Enid Blyton, sem krakki las ég mikið af ævintýra og fimm-bókunum hennar, og ég man að ég spurði aldrei spurninga, ég velti því ekki fyrir mér hvað var að fara að gerast eða hvers vegna, hver athöfn sögupersónanna var sjálfri sér næg. Ég upplifi Stigamenn áhugaverða, en get ekki ímyndað mér hvert mennirnir eru að fara eða hvaðan þeir eru að koma, heldur bíð ég eftir úrlausn sem ég veit að kemur aldrei, athöfnin er sjálfri sér næg.
Eftir sýninguna ´42 hneigist Snorri meira og meira að hringskipun í myndum sínum, þær verða stærri, litfarið heitara og efnismeira, myndin verður flötur frekar en ímyndað rúm líkt og í götumyndum hans á kreppuárunum þar sem að myndin var heill heimur sem áhorfandinn gat sett sig inn í.
Á sýningu Snorra í Listamannaskálanum haustið 1945 var hlý rómantísk veröld ríkjandi, verkin voru efnismikil og þétt, þau urðu huglægari og dreymnari, verk hans, Telpur með brúðu (1944) og Sumar (1945) eru góð dæmi um hvernig hann gefur okkur innsýn í hugarveröld viðfangsefnisins, báðar eru þær hringbyggðar, heitar í litum og innhverfar, verkin verða að tákni sumars og lífshamingju.Í marsmánuði 1952 efndi félag íslenskra myndlistarmanna til yfirlitssýningu á verkum Snorra í tilefni að fimmtugsafmæli hans, sýning þessi varð íslenskum listamönnum opinberun og hóf Snorra upp sem listamann þar sem að blóminn í verki hans var dreginn saman á einn stað.
Snorri andaðist í Reykjavík þann 31. Maí 1958, 56 ára að aldri.

Heimildaskrá
Björn Th. Björnsson. (ekkert ártal). Íslenzk Myndlist. Helgafell
Timarit.is
Leitarorð:
Snorri Arinbjarnar
Alþýðutímaritið 1935
Steinn Steinarr
Kristján Arinbjarnar
Björn Th. Björnsson
Rauður loginn brann
Kreppa á Íslandi 1930-40
Kennsluglærur frá Arnfríði Arnardóttu