Annar hlutinn sem ég set hérna inn. Í þetta skiptið er það stuttur kafli um rithöndina (sem hefði mátt eiga heima í síðasta hluta), yfirlit á unglingsárunum í Flórens og aðeins um drenginn sem Leonardo tók í umsjá sína og var hjá honum í alls 25 ár eða þar til Leonardo dó.
—————–
5.0 Rithöndin
Leonardo skrifaði í spegilskrift eins og mörgum er kunnugt. Það er ekki ljóst hvers vegna, en líklegast þykir þó að ástæðan hafi einfaldlega verið sú að hann var örvhentur og því fundist þæginlegra að skrifa frá hægri til vinstri heldur en vinstri til hægri. Þetta þýddi ekki að hann gæti ekki skrifað á sama hátt og allir aðrir. Það hafa orðið eftir sendibréf og skjöl þar sem hann skrifaði frá vinstri til hægri til þess að auðvelda þeim sem hann ætlaði þau lesturinn.
6.0 Lærimeistarinn
Þegar Leonardo var fimmtán ára að aldri tók faðir hans hann með sér til Flórens og kom honum þar í læri hjá Andrea del Verokkíó sem var einn frægasti og virtasti listamaður Ítalíu á þessum tíma. Verokkíó var óvenju fjölhæfur listamaður og fékkst hann við ýmsa miðla, en einna færastur var hann í höggmyndagerð og bronsafsteypum en var líka hæfileikaríkur í dýrum málmum og skartgripagerð. Segja má að það hafi verið miður fyrir Verokkíó að fá Leonardo í læri til sín, þar sem Leonardo átti eftir að skyggja á lærimeistara sinn, sem hann gerði svo á sviði málaralistarinnar aðeins fáeinum árum eftir að hann kom í
læri.
6.1 Engillinn
Leonardo var óþolinmóður táningur og vildi fá að gera meira en einungis aðstoða lærimeistara sinn í verkum sínum. Hann var metnaðarfullur og vildi fá að vinna að sínum eigin verkum. Það kom að því að Verokkíó var beðinn um að mála málverk af skírn Krists. Þar fékk Leonardo það hlutverk að mála engil í neðra vinstra horni málverksins og bakgrunninn.
Það má sjá greinilegan mun á engli Leonardós og englinum sem situr við hlið hans sem og öllu sem þeir aðrir sem unnu að verkinu máluðu. Vegna þess að þegar Leonardo fékk þetta verk tók hann á afdrifaríku ákvörðun að prófa að mála með annars konar málningu en almennt var í Ítalíu. Á Ítalíu var notast við egglímslit, sem var blandaður úr eggjarauðu og litarefnum ásamt nokkrum öðrum efnum, Leonardo ákvað að notast við olíumálningu sem var þá byrjað að notast við í N-Evrópu en hafði lítið sem ekkert komið fram á Ítalíu á þessum tíma. Áhættan skilaði góðum niðurstöðum þar sem litirnir málaðir með olíumálningunni í engli Leonardos voru mun sterkari og skýrari en með egglímslitnum sem var notaður á hina hluta málverksins.
Persónulegur stíll Leonardos sést greinilega á englinum; það er dularfullt bros á ögn kvenlegu andliti engilsins, liðað hár á höfði hans sem sýnir dálæti Leonardós á bylgjandi línum sem urðu ríkjandi í verkum hans alla hans ævi.
Að sögn Vasarí, hafði Verokkíó hafi orðið svo snortinn af meistaraverki lærlings síns að hann fann fyrir smæð sinni og ákvað þar með að snerta aldrei á málverki framar.
7.0 Vandræði í Flórens
Meðan Leonardo átti heima í Flórens var honum stefnt fyrir kynvillu. Á Gömlu höllinni var festur ákveðinn bréfakassi,tambúró, sem þjónaði þeim tilgangi að hvaða borgarbúi sem er gat skrifað upplýsingar um afbrot annarra borgara og stungið þeim í kassann. Þetta átti að aðstoða við það að halda uppi lögum og reglu í borginni og komast hjá samsærum.
Einn daginn var miða stungið ofan í einn þessarra kassa þar sem stóð að Leonardo ástamt þrem öðrum karlmönnum höfðu gerst sekir um kynvillu. Leonardo var tekinn höndum og látinn dúsa í fangaklefa á meðan botni var náð í málinu.
8.0 Drengurinn
Leondardo tók tíu ára dreng að nafni Gian Giacomo Caprotti da Oreno í sína umsjá árið 1490. Honum er ýmist lýst sem þjóni, skjólstæðingi, ættleiddum syni eða félaga en ekki er ljóst nákvæmlega hvert þessa hann var. Eitt er víst að drengurinn var til eintómra vandræða. Hann stal, laug og svindlaði enda fékk hann viðurnefnið Salai sem merkir litli djöfull. Leonardo lýsti honum sjálfur sem „þjófóttum, ljúgandi, þrjóskum og gráðugum.“ Strax þegar drengurinn gekk inn á heimilið stal hann peningum sem hafði átt að nota til þess að kaupa á hann föt og fótabúnað.
Salai er sagður hafa verið myndarlegur drengur með langa, gyllta slöngulokka. Hann var fyrirmynd æskunnar í mynd Leonardós „Gamall maður og æska.“
Þrátt fyrir hegðun og framkomu drengsins voru hann og Leonardo nánir og er talið að drengurinn hafi höfðað til samkynhneigðinnar í Leonardo. Salai var í umsjá Leonardos í alls tuttugu og fimm ár og þegar Leonardo dó erfði Salai hálfa vínekru eftir hann.