Sælinú, ég ákvað að setja inn lokaritgerðina mína sem ég gerði núna í vor í 10. bekk. Ég brýt hana upp og set hana inn í nokkrum hlutum, þetta er fyrsti hlutinn og inniheldur hann umfjöllun um fjölskyldu hans, uppeldisstaði, áhuga hans á náttúrunni og uppfinningar hans. (ca 3 síður)
Ég leyfi mér að segja að hún ætti að vera sæmileg þar sem ég fékk 10 fyrir hana :)
——————
Leonardo da Vinci er einn af merkustu mönnum heimssögunnar. Hann málaði frægasta málverk í heimi, Mónu Lísu, og skrifaði fjöldann allan af hugleiðingum og vísindalegum athugunum löngu áður en þær urðu ljósar umheiminum. Hann var maður langt á undan sinni samtíð sem öðlaðist aldrei þá viðurkenningu sem hann átti skilið í lifanda lífi. Hver var æviferill hans og stærstu verk? Hvað gerði ímynd Leonardos að því sem hún er núna?
1.0 Fjölskylda
Lausaleiksbarnið Leonardo da Vinci fæddist í bænum Vinci í Ítalíu árið 1452. Ekki er mikið vitað um móður hans annað en að hún hét Katrín. Venjulega kalla ævisöguritarar hana bóndadóttur en í sögnum Vinci ættarinnar er sagt að hún hafi verið þjónustustúlka á bar. Pabbi hans hét Piero eða Pétur da Vinci og var hann þinglýsingadómari en því starfi höfðu karlmenn í hans fjölskyldu gengt í fjóra ættliði, síðan u.þ.b. 1250. Karlmennirnir í da Vinci ættinni voru spar- og fyrirhyggjusamir. Það kom þeim í stétt landeigenda, sem þýddi að þeir máttu kalla sig Signor sem faðir Leonardos gerði.
Faðir Leonardos náði 77 ára aldri, var fjórgiftur og eignaðist tólf börn. Það fyrsta, Leonardo, þegar hann var 25 ára og það síðasta þegar hann var 75 ára gamall.
2.0 Uppeldisstaðir
Á þessum tíma var Ítalía mun frjálslyndara land en síðar meir og þótti það engin skömm að eignast óskilgetin börn og nutu þau oft sömu meðferðar og hjúskapabörn. Voru lausaleiksbörn vel algeng bæði í neðri og efri stéttum. Sjálfur Borgía-páfinn Alexander VI eignaðist fjögur óskilgetin börn og fór ekkert í leyni með það.
Faðir Leonardos gekkst við syni sínum og var hann ásamt fleiri meðlimum Vinci ættarinnar viðstaddur skírn hans. Þó giftust foreldrar Leonardos ekki og var hann ekki tekinn inn í fjölskyldu föður síns. Leonardo og móðir hans voru send til nágrannabæjarins Anchiano, en ástæðan fyrir því er óþekkt. Þar bjó Leonardo í rúm fjögur ár og á þeim tíma tók faðir hans fyrstu konu sína, 16 ára stúlku, sem var að hærri stigum en móðir Leonardos. En brúðurin reyndist óbyrja og varð það til þess að faðir Leonardos tók soninn inn á heimili sitt áður en Leonardo varð fimm ára.
3.0 Náttúran
Leonardo fékk mjög snemma áhuga á alls kyns náttúrufræðum. Þekking hans á byggingu plantna sést greinilega á málverkum hans, þar sem öll tré og plöntur hafa eðlilega uppbyggingu og er hægt að greina hvaða plöntutegund hann hefur á hverri mynd. Plöntumyndir hans voru meira að segja svo skýrar að enn er hægt að nýta þær við kennslu með góðum árangri.
Leonardo var heillaður af flugi fugla og eðli flugsins og var það eitthvað sem átti eftir að vera honum ofarlega í huga alla ævi. Hann teiknaði gríðarmörg uppköst af flugförum fyrir menn og gerði margar athuganir í sambandi við það að koma mönnum upp til skýja.
Giorgio Vasari, segir frá því í riti sínu, „Ævisögur málara, myndhöggvara og húsameistara,“ að Leonardo hafði stundum tekið upp á því að kaupa fugla á markaðstorgum, en um leið og hann fékk þá í hendurnar þá sleppti hann þeim lausum. Þetta sýnir hversu mikla ást Leonardó hafði á náttúrunni og dýrum. Sum gögn sem hafa orðið eftir hann benda meira að segja til þess að ást hans á dýrum hafi orðið til þess að Leonardo gerðist grænmetisæta.
4.0 Uppfinningarnar
„Pleasure and Pain represent as twins, since there never is one without the other; and as if they were united back to back, since they are contrary to each other.“
(Leonardo da Vinci, http://www.gutenberg.org/dirs/etext04/8ldvc09.txt sótt 26.04.10 )
Heimildum ber ekki saman um það hversu margar arkir eru varðveittar eftir Leonardo, segja tvær að sjö þúsund arkir séu varðveittar en ein segir fimm þúsund. En eitt er víst, að á þessum örkum má finna uppköst að ýmis konar uppfinningum. Meðal þessara uppfinninga eru kafarabúningur, vélmenni, skriðdreki, ótal flugför,vopn o.fl. Því er verr að nær engar þessara uppfinninga litu dagsins ljós og hefur enn ekki komið í ljós hvort þær virkuðu.
Þó hafa einhverjir gert tilraunir til þess að smíða uppfinningar hans eftir þessum aldagömlu örkum. Meðal þeirra var kafarabúningurinn, vélmennið og skriðdrekinn. Allar þessar uppfinningar reyndust virka og má velta því fyrir sér hvernig nútíminn væri ef þær hefðu komið fram á sjónarsvið almennings á fimmtándu öld.
Leonardo skrifaði aftur og aftur um það hve stór glæpur það væri að eyða lífi, en þó virtist það ekki hindra hann í að teikna upp endalausar stríðs- og drápsvélar sem átti að nýta í stríði. Þessi mótsögn er ráðgáta, en þó má telja sér trú um það að þetta gerði hann einungis til þess að geta selt hugmyndir sínar öðrum og aflað sér fjár þar sem nóg var af aðalsmönnum sem sóttust eftir nýjum vopnum og stríðstólum.