Francis Bacon var fæddur í Dublin á Írlandi þann 28. Oktober 1909. Foreldrar hans voru enskir. Eftir ósætti við föður sinn fór Bacon að heiman árið 1925, þá aðeins sextán ára að aldri. Hann flakkaði um London, Berlín og loks París, þar sem hann rakst á sýningu með verkum Picassos og ákvað að reyna fyrir sér í listaheiminum. Í París hitti hann listunanda að nafni Paul Rosenberg, sem að hvatti hann ákaft áfram í listamannslífinu. Bacon sneri aftur til London og reyndi fyrir sér í húsgagnahönnun með ágætis árangri og fékk skrifaða um sig tveggja síðna grein í tímaritinu Studio Magazine. En hann sneri fljótt baki við húsgagnahönnuninni og sneri sér ómenntaður með öllu að málaralistinni.
Hann varð fyrst þekktur fyrir verk sitt Crucifixion (Krossfesting) 1933, sem hann sýndi það árið á hópsýningu í Mayor galleríinu, en málaði þó ekki mikið eftir þá sýningu. Myndina keypti Sir Michael Sadler og mörkuðu kaupin tímamót í ferli Bacons. Sadler sendi honum síðan röntgenmynd af hauskúpu sinni og málaði Bacon hana inn á seinni útgáfu myndarinnar. Hann skipulagði svo sína fyrstu einkasýningu ári síðar og tók síðan þátt í annari hópsýningu 1937.
Snemma á fjórða áratugnum fór Bacon að mála aftur að miklum krafti, en álpaðist í leiðinni til þess að eyðileggja meiri hlutann af eldri verkum sínum. Árið 1944 tók listmálaraferill stórt stökk til farsældar. Var það triptych verkið Three Studies for Figures at the Base of a Crucifixion (Þrjár stúdíur fyrir fígúrur að grunni krossfestingar) sem að átti stærstan hlut í velgengni hans. Sjálfur segir hann verkið vera byggt á grísku gyðjunum þremur The Furies (mætti þýða sem brjálæðis- eða hefndargyðurnar). Þær voru gyður sem að hefndu brota á náttúrulegu jafnvægi og ómannúðleika og höfðu risið upp úr blóði guðsins Úranusar. Gyðjurnar voru: Alecto (hin óþreytandi), Megarea (hin afbríðisama) og Tisiphone (hefnarinn). Þær hefndu með því að hella eftirsjá yfir fórnarlömbin, en ásjóna þeirra ein var næg til þess að láta fólk missa vitið. Bacon bætir því svo við að þetta hafi verið ein af fáum myndum sem hann hafi getað málað undir áhrifum áfengis og ómannúðlegum timburmönnum (refsing gyðjanna?). Bacon málaði síðar aðra mynd af gyðjunum, en þá virtust þær lengra í burtu og áhrifa óþægilegrar nálægðar þessara óhugnalegu vera voru á brott. Þykir því fyrri útgáfan betri af flestum dómbærum. Fyrri verk hans einkenndust fyrst og fremst af súrrealisma annars vegar og hins vegar kúbisma, en hann þróaði skömmu síðar sinn eigin stíl sem framfleytti honum enn frekar áfram á listaferlinum.
Bacon var mikill dellukarl, ef svo má segja, og virtist sem hann fengi hluti á heilann og gæti síðan seint eða aldrei hætt að skella þeim á strigann. Meðal þessara hluta voru: Málverk Velazquez af Innóscentíusi tíunda páfa, Kjötskrokkar (frá verki Rembrands Slátraður Uxi?) og Málverk Vincent Van Goghs Málarinn á veginum til Tarascon, en það verk brann í Heimstyrjöldinni síðari í Þýskalandi.
Fyrstu Velazques páfamyndina gerir hann árið 1949 og ber hún titilinn Head VI (Höfuð 6). Myndin var partur af sýningu sem hann hélt á Hanover safninu í London þar sem allar myndirnar hétu Head og voru númeraðar frá I og upp í VI. Á myndinni var páfinn öskrandi, en þó halda því margir fram að hann hafi frekar verið að rembast við að reyna að ná andanum, því Bacon þjáðist sjálfur af slæmum astma. Á eftir fylgdu ófáar páfamyndirnar og er hann “öskrandi” á meiri hluta þeirra, en einn og einn páfi sleppur á strigann með lokaðan munninn eða ullandi. Einna þekktust páfamyndanna, og í raun ein af þekktustu myndum Bacons, er myndin Study after Velazquesz’s Portrait of Pope Innocent X (Stúdía eftir portrett Velazquezar af Innósentíusi tíunda páfa), 1953. En ekki má gleima verkinu Figure with Meat (fígúra með kjöti), 1954. Þar er páfinn aftur kominn og á bak við hann eru tveir sundurskornir kjötskrokkar sem gætu litið út eins og englavængir úr mikilli fjarlægð. Á miðjan vinstri kjötskrokkinn hefur Bacon málað eitthvað sem virðist vera ör, en síðar á ferlinum notaði hann mikið þessar örvar í verkin sín, ef til vill til þess að rétta af skekkju í myndbyggingunni. Páfinn skaut svo upp kollinum í verkum Bacons í rúm fjórtán ár í samtals 45 málverkum og var því ein harðasta dellan hans. Sjálfur segir Bacon ástæðuna vera að honum finnist portrettið eftir Velazquez vera besta portrett allra tíma og hann hafi hreinlega fengið það á heilann. Hann keypti bók eftir bók sem innihéldu þetta verk og segir það vera auðuga uppsprettu innblástur síns í listum. Hann sá þó verkið aldrei með eigin augum þrátt fyrir að hafa eytt talsverðum tíma í Róm. Hann forðaðist Palazzo Doria Pamphilij safnið, þar sem myndin var til sýnis, eins og heitan eldinn. Ef til vill hefur hann óttast að vera ekki tilbúinn að sjá það, fundist hann óverðugur eða jafnvel óttast að verða fyrir vonbrigðum.
Öskur páfans, sé hann að öskra á annað borð, er talið vera komið frá skissu úr bók sem að Bacon keypti 1928, en hún sýndi munn spenntan upp með læknatólum og virtist vera um slæma munnsýkingu að ræða. Margar aðrar fígúrur á striga Bacons voru einnig öskrandi og sagði hann sjálfur um öskrið að það sýndi fram á yfirgnæfandi sársauka og þrá í létti eða lausn. Það væri uppfylling örlaganna. Lengi vel var það talið óráðlegt að mála öskrandi manneskju sökum þess að það myndi spilla verkinu og láta áhorfendur fara hjá sér.
Bacon var bjartsýnn, gáfaður, örlátur og umburðalyndur og leiddi það til þess að fólk með hina ýmsu bakgrunna urðu þáttur í lífi hans og höfnuðu margir þessara einstaklinga á striganum í einu eða fleirum verka hans. Meðal þeirra var John Edwards, ungur maður sem lagði leið sína til Bacons á hverjum degi og eldaði fyrir hann og spjallaði við hann. Þeir voru hinir bestu mátar fram til dauðadags Bacons. Bæði Bacon og Edwards voru samkynhneigðir, en sá síðarnefndi neitaði því alfarið fram til dauðadags 2003 að samband þeirra hafi samanstaðið af neinu öðru en hreinni vináttu. Einnig ber að nefna George Dier, en Bacon segist hafa kynnst Dier er sá síðarnefndi var að brjótast inn í íbúðina sína 1964. Samband þeirra var stormasamt og endaði með því að Dier svipti sig lífi 1971. Þrátt fyrir einstaka árekstra bar vinátta þessi mikinn ávöxt sem síðar seldist fyrir litlar 456,091,452 krónur, sem var umtalsvert meiri peningur þá en nú. Ávöxtur þessi var málverk sem að Bacon nefndi: Málverk af Dier að tala, 1966. Reyndar virtist Dier ekkert getað tjáð sig með einu eða neinu móti á þessari mynd, enda bundinn á bak fyrir og með límband fyrir munninum í eitthverju sem virtist vera yfirheyrslu- eða jafnvel pyntingaklefi. Hélt Bacon meðal annars sýningar í London, París, New York, Washington, Dublin, Los Angeles og Moskvu. Hann lést í apríl 1992.
Árið 1998 gaf einkaerfingi Bacons, John edwards, Hugh Lane galleríinu alla vinnustofuna ásamt öllu sem í henni var og hlaut síðar Lord Mayor’s verðlaunin fyrir. Þetta var stærsta framlag sem safnið hefur nokkurn tíman fengið frá stofnun sinni 1908. Galleríið réð til sín fagmenn og var allt innbúið skráð og fært inn í nokkurs konar bókhald áður en það var síðan flutt inn í galleríið þar sem öllu var raðað aftur upp í sama horf. Meira að segja veggirnir og hurðin á vinnustofunni voru flutt, en Bacon blandaði málninguna á þessum hlutum og talar um þá sem sín einu abstraktverk. Edwards lést í fyrra (2003) og þykir líklegt að unnusti hans til 27 ára hafi erft restina af Bacon arfinum.
Myndir eftir Bacon má finna hérna.
Heimildir:
http://www.artchive.com/artchive/B/bacon.html
http://www.hughlane.ie/fb_studio/life_youth.html
http://www.leninimports.com/francis_bacon_bio.html
http://www.francis-bacon.cx/
David silvester, 2000, Looking Back at Francis Bacon[\i], WW Norton and Co Inc.