Hæ hæ,
Að tillögu Alliat birti ég hér lýsingu á rpg karakternum mínum, rogue-inum Laran Rey sem ég er að spila í heimatilbúnu kerfi sem gerist úti í geimnum í framtíðinni.
Það væri alveg ofsalega spennandi að sjá nokkra spreyta sig á þessu!
Hér er svo lýsingin:
RPG karakter: Laran Rey
Líkamleg einkenni/lýsing
Laran er kvenkyns, 28 ára. Hún er Koter, sem samsvarar álfum. Hefur því afturkempt hár og þessi uppmjóu álfaeyru. Hún er 185cm og mjög grannvaxin en er samt stælt en ekki horrengla. Hún hefur svart, sítt hár og blá augu og er lagleg. Svört rós er tattóveruð á vinstra herðablað.
Uppáhaldsfötin eru svört leðurföt. Buxur, jakki eða frakki, og bolur sem getur verið af hvaða lit sem er. Gjarnan í leðurstígvélum en ekki alltaf. Hún er líka oft með svört sólgleraugu en þar sem ég vil sjá á henni allt andlitið eru þau ekki skylda =) Ef þið ákveðið að hafa þau með eru þau ekki í notkun.
Laran er rogue og hefur bækistöð í stóru geimskipi. Hún er þó meira og minna á á ferð um vetrarbrautina.
Sem rogue hefur hún sérhæft sig í tölvum og er hakkari af guðsnáð. Þrátt fyrir að vera rogue er hún hæf í bardagalistum og hefur því miður orðið að nota þessa hæfileika sína til að enda líf nokkurra illmenna. Hún gengur alltaf með vibrohníf á sér (blaðið titrar leiftursnöggt) og er hann yfirleitt á hægra fótlegg. Ef hún er í stígvélum er hnífurinn falinn.
Tölvan sem Laran notar aðallega (þó ekki þar sem aðrir en félagar hennar sjá til) er einkar þróuð og tæknin ekki orðin útbreidd. Hún er falin inni í vinstra handlegg hennar. Þegar hún vill nota hana kemur upp holo borð þar sem Laran sér upplýsingarnar en hún hefur yfirleitt samband við hana hugrænt. Hún notar þó stundum holo lyklaborð. Holo myndi að ég held þýðast sem almynd á íslensku.
Persónuleg atriði:
Laran er alvörugefin stúlka og brosir ekki oft. Þegar hún gerir það er brosið breitt og það lýsist upp á henni andlitið. Hún er mjög mórölsk, þ.e hefur mjög sterka siðferðiskennd. Hún vinnur fyrir nokkurs konar leyniþjónustu sem starfar í allri vetrarbrautinni og er í hóp sem samanstendur af 10-12 manns sem nánast öll eru harðsvíruð og svífast einskis til að ná takmarki sínu. Hún hefur tekið það að sér að vera samviska hópsins og er alltaf að reyna halda aftur að félögum sínum sem eru ansi oft nokkuð blóðþyrstir. Þetta er mjög slítandi og hún hefur sjálf upplifað hræðilega hluti, tekið þátt í að útrýma heilli siðmenningu og séð meira en nokkur ætti að gera. Hún heldur af alefli í það mannlega í sjálfri sér, siðferðið, samviskuna og trú á það góða. Ekki auðvelt!
Mjög ung varð hún fyrir skelfilegri lífreynslu, henni var rænt og hún pyntuð í nokkra daga áður en henni var bjargað af bræðrum sínum. Þetta markaði hana fyrir lífstíð og hún yfirgaf fjölskyldu sína stuttu eftir, þoldi ekki blekkinguna; hún var dóttir glæpaforingja en vissi það ekki fyrr en henni var rænt 14 ára gamalli. Þetta varð til þess að hún einsetti sér að vita alltaf sem flest um það sem gengur á í kringum hana. Hún fór út í tölvur og sérhæfði sig í gagnaleit og tölvuinnbrotum í þeim tilgangi að ná í upplýsingarnar sem þessar tölvur geymdu. Vann fyrst fyrir herinn, svo þessa “leyniþjonustu” sem gengur undir heitinu Misc. Núna er hún frekar freelance ásamt hópnum sínum en þau eru að vinna að sérverkefnum fyrir Misc.
Hún hefur átt í einu alvarlegu ástarsambandi en það endaði hræðilega; hennar eigin stofnun tók hann af lífi. Gerði útslagið með það að hún yfirgaf Misc og vann fyrir andspyrnuna um tíma.
Nýlega kynntist hún flugmanni og er ástin byrjuð að blómstra. Hún er þó mjög varfærin, enda hleypir hún sjaldan fólki að sér. Hún hefur of oft verið svikin til að treysta auðveldlega. En hún sér þarna möguleika á að elska aftur.
Held að þetta sé allt en ef þið hafið einhverjar spurningar, ekki hika við að hafa samband!
Gangi ykkur vel, ég er rosalega spennt að sjá hvað kemur út úr þessu!
Kveðja,
Sigrún