Yoshitaka Amano Amano fæddist árið 1952 í litlum bæ, sem hét Shizouka, í Japan. Hann segist hafa teiknað allt sitt líf (eins og flestir teiknarar hingað til) og fékk hann sífellt hrós frá systur sinni fyrir teikningarnar sínar. Einungis fimmtán ára gamall fékk hann stöðu sem myndsöguteiknari í þjálfun hjá stúdíói sem kallaðist Tatsunoko productions. Disney teiknimyndir höfðu mikil áhrif á stíl hans og einnig stúderaði hann sífellt mismunandi stíla úr hinum ýmsum menningum. Þegar hann var ekki að vinna við að teikna Gatchaman og Hutch The Honeybee hjá stúdíóinu þá lærði hann módelteikningu í skólum nálægt honum og sökkti sér í ýmsar listabækur til að fá innblástur í verk sín.

Þegar hann varð 30 var hann orðinn leiður á vinnunni hjá Tatsunoko og fór, jafnvel þótt að þetta hafi verið frekar örugg vinna fyrir hann. Hann fór að selja vinnu sína út sjálfur og það gerði honum kleift að rannsaka ýmsa stíla og viðfangsefni. Honum varð fljótt ljóst að útgefendur voru ekkert rosalega spenntir fyrir því að prófa mismunandi stíla og Amano var hræddur um að staðna og gerir það að mörgu leyti enn.

Hann fékk að lokum vinnu á blaði sem gaf út tímarit tengd vísindaskáldskap. Þetta var talsvert stöðugri staða en hann hafði verið með í “freelance” teiknum sínum og þetta gaf honum möguleika á að rannsaka stílinn sinn og fá smá athygli í leiðinni. Eftir þetta vann hann við ýmsa miðla eins og skáldsögur, teiknimyndabækur og teiknimyndir, tölvuleiki, kvikmyndir og jafnframt búningahönnun fyrir leikhús. Hann er án efa þekktastur fyrir verk sín í Final Fantasy seríunni en það er serían sem gerði hann þekktan í Bandaríkjunum.

Hann hefur teiknað fyrir þó nokkra þekkta rithöfunda í myndasögugeiranum, sem dæmi má nefna Neil Gaiman, sem skrifaði Sandman söguna. Eftir að Gaiman kláraði söguna þá sagðist hann myndi aldrei taka upp þráðinn aftur með Sandman en eftir að hann sá plakat eftir Amano sem var gert til að auglýsa Sandman seríuna þá ákvað hann að skrifa eina sögu í viðbót svo lengi sem Amano myndi samþykkja að myndskreyta hana. Útkoman var The Sandman, Dreamhunters.

Seinustu verkin hans voru gerð fyrir “Elektra & Wolverine: The Redeemer” söguna sem er gefin út af Marvel. Amano er núna búinn að ná ákveðinni fótfestu í USA og má eflaust búast við meira frá honum í náinni framtíð.
[------------------------------------]