Sanctuary Sanctuary
Dreifingaraðili: Viz Comics
Höfundur: Sho Fumimura
Teiknari: Ryoichi Ikegami

Þetta er sería sem ég byrjaði á að slysni. Ég hafði keypt mér 2 bækur úr seríunni “Strain” sem fjallaði um leigumorðingja sem tók einungis 5$ fyrir hvert morð. Einungis voru til 2 bækur þannig að mig þyrsti í eitthvað sem ég gæti sökkt tönnum mínum í staðinn. Pétur mældi þá með Sanctuary.

Sanctuary fjallar um tvo unga menn, Hojo og Asami, menn sem lifðu af hryllinginn í Kambódíu fyrir einhverjum áratugum. Þeir ólust upp saman og gengu í sama skóla. Á táningsaldrinum ákveða þeir að sverja þess eið að breyta Japan innan frá. Þeir ákveða að það er einungis hægt með því að ráðast frá báðum hliðum, þeim löglega og ólöglega. Hojo gerist Yakuza(mafían í Japan) á meðan Asami fer í pólítík. Báðir vinna sig upp metorðastigann innan síns geira. Bækurnar byrja á því að Hojo er orðinn ungur Yakuza foringi en Asami er aðstoðarmaður þingsins. Þeir leggja af stað með áform sín sem eiga eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir Japan.

Fyrir mér er Sanctuary ekki enn ein sagan. Hún er haldin ákveðnum lífskrafti sem ég kynntist svo seinna meir í meistarastykkjum eins og Nausicaa of the Valley of the Wind og Frank Herbert's Dune. Við sjáum þá tvo berjast fyrir því sem þeir trúa á og maður vill svo innilega að þeim takist áætlunarverk sitt þrátt fyrir allt mótlæti. Allir karakterarnir sem koma fyrir sjónir í þessari sögu eru vel skrifaðir og svalir. Allir hafa sitt litla plan sem þeir vilja framkvæma, hvort sem það sé hefnd, ástir eða eitthvað annað en eins og einföld græðgi. Sagan er samblanda af myndum eins og Goodfellas og góðum pólítískum þrillerum.

Ég hætti ekki fyrr en ég kláraði söguna og er hún í 9 bindum sem hver er í kringum 300 bls. Teikningarnar eru afar stílhreinar og fagmannlega teiknaðar. Hver teikning er listaverk út af fyrir sig sem má ramma og geyma. Þessi saga er það mögnuð að ég hef getað sannfært nokkra non-comic vini mína til að lesa hana og hafa þeir allir orðið agndofa yfir sögunni. Verst er að það eru svo margir búnir að lesa mína sögu aftur og aftur að nokkrar af þeim eru að detta í sundur og þori ég varla að snerta við þeim sjálfum án þess að eyðileggja þær gjörsamlega.

Ef þið ætlið að kaupa ykkur einungis nokkrar seríur þá er þetta ein sem ég tel vera skildu kaup. Að mínu mati er ekki til betri mafíu-political saga. Gerð hefur verið ein kvikmynd byggð á sögunni en ég efast um ágæti hennar jafnvel þótt að ég hafi ekki horft á hana(oftast mistekst það illilega að kvikmynda bækur).

***** 5 stjörnur í minni bók og algjört must-buy.
[------------------------------------]