- Gerð Myndasögu - Vinnuferlið - Hæ, kæru myndasögufrík …nú og þið hin líka ;)

Það að semja og teikna myndasögu er ekki einfalt mál.
Mynda-saga er akkúrat þetta tvennt, myndir og saga - myndir sem segja sögu - myndskreytt saga.
Að geta teiknað segir ekki nema hálfa söguna …því sagan er hinn helmingurinn af verkinu. Hvort sem það er texti eða sjónrænt spil sem segir söguna þá er sagan óhjámkvæmilega stór partur af myndaSÖGUgerð!

Hvert ykkar kannast eflaust við það að byrja á gerð myndasögu en vanta allan þráð, plott ….bara allt það sem gerir myndirnar ykkar að sögu!!

Ég veit ekki hversu oft ég byrjaði á gerð myndasagna með byrjun á sögu í kollinum en óþolinmæði til að setjast niður og skrifa söguna áður en ég byrjaði að teikna!!

Við ykkur sem glímið við sama vandamál segi ég:
Takið ykkur tíma til að spá í sögunni, byrjun, miðja, endir. (þið lærðuð þetta allt í skóla :)
Hver er aðalpersónan og hvernig er hún að eðlisfari?
Hvernig segi ég þessa sögu á sem bestan hátt?
Hvernig geta þær sögur sem ég les hjálpað mér við gerð myndasögunnar?

Þegar textinn er tilbúin er málið að færa sig yfir í skissugerð sögunnar.
Hver blaðsíða er þá rissuð upp. Hér gefst manni tækifæri á að rissa hverja blaðsíðu fljótt upp og sjá um leið hvort blaðsíðan “gangi upp”!
Ætti þessi rammi að vera stærri?
Á ég að teikna einn stóran eða nokkra smærri?
Hvernig næ ég að byggja upp spennu með því að láta myndirnar “tala”?
OG MUNA!! Þú rissar upp söguna með allt í huga, textablöðrur – hljóð-texta (BAMM!) ..allt sem þú ætlar að teikna nema hvað þú RISSAR þetta!
Ekki leggja of mikla vinnu í rissið! Bara henda þessu upp svo þú vitir hvernig hver blaðsíða á að vera – beinagrind sem þú byggir á við næsta stig myndasögugerðarinnar.

Þá er að blýantsteikna söguna!
Þar sem þú hefur rissið þér til aðstoðar þá færðu frelsi frá sögunni, uppbyggingu og öllu því sem viðkemur sögugerðinni.
Þú getur einbeitt þér að því að teikna flottar myndir því þú veist nákvæmlega hvernig þú vilt hafa þær!
Ekkert vesen, bara teikna fína mynd!

Að þessu loknu tekur blekið við!
Eins og þið sjáið (á myndinni sem ég sendi með - Rammi úr HeimSjonna sem birtist í næsta tölublaði af Bleiku&Bláu, Jólablað) þá gefur svarta línan teikningunni alveg nýtt líf.
Það tekur sæmilega langan tíma að ná tökum á pennanum. Mér finnst ég, rétt núna, eftir 4ár vera að ná tökum á línunni og meðferð penna.
Ég teikna allar mínar myndir með Artline Calligraphy Pen 1.0 og Artline 0.1 – reyndi við pensil og blekbyttu en gafst upp á því þar sem ég fæ svipaða áferð með Calligraphy penna.
Ég skanna svo söguna inn og lita í tölvu. Textablöðrurnar og texta vinn ég einnig í tölvunni.

Jæja, þetta átti nú ekki að verða svona lang, bla bla bla!! :)

Vona að þetta hjálpi kannski einhverjum hérna og verði til þess að sögurnar streymi inn!! ;)

Bestu kveðjur,
Ingi
www.facebook.com/teikningi