The Life and Times of Scrooge McDuck! Einn gráan aprílmorgunn árið 2006 lagði ég leið mína í Nexus til að næla mér í eintak af einhverri klassískri myndasögu. Ég gekk út með bókina “The Life and Times of Scrooge McDuck” eftir meistarann Don Rosa, eftir að hafa borgað nákvæmlega 1.699 fyrir hana, minna en sanngjarnt verð fyrir svona meistaraverk. Ég bjóst við miklu þar sem að Don Rosa er einn besti teiknari Andrésblaða fyrr eða síðar. Ég fékk meira en ég bjóst við!

Smáatriðin sem einkenna sögur Don Rosa eru hreint ótrúleg! Hann nær að draga augu lesandans frá atburðarrásinni að ótrúlegustu hlutum (myndin með greininni er dæmi um þetta). Einnig er hver einasta teikning virkilega vönduð, annað en sumar teikningar klunnalegra “Andrésarteiknara” sem láta það ekki skipta neinu máli að goggarnir á öndunum séu mislangir á hverri einustu mynd og fleira.

Don Rosa hefur meira að segja skrifað “Commentary” við hvern einasta kafla. Það er ljóst að hann fer algjörlega eftir staðreyndum frá meistara Carl Barks. Í endann á hverjum einasta kafla skrifar hann hvaða Barks staðreyndir hann tók fyrir í þessari sögu (og úr hvaða sögum þessar staðreyndir voru), hverju hann breytti aðeins og hvaða teikningar hann “endurteiknaði”. Hann skrifar líka um “Brjáluð smáatriði til að skoða” (“Insane detales to look for”) þar sem hann ljóstrar því m.a. upp hvar földu tileinkanirnar eru (D.U.C.K, “Deticated To Uncle Charl from Keno” minnir mig), og segir frá mörgum litlum smáatriðum eins og hann er þekktur fyrir að gera!

The Life and Times of Scrooge McDuck fjallar um æfi Jóakims Aðalandar (Scrooge McDuck). Þar er m.a. fjallað um hvernig hann fékk fyrstu krónuna sína (Happaskildinginn), hvernig hann varð ríkur eftir að hann fann Gæsareggsmolann og margt fleira. Bókin fékk “Eisner verðlaun (?)” fyrir bestu raðsögurnar árið 1995.


Kaflarnir
(Þeir sem vilja ekki vita neitt um söguþráð bókarinnar ættu að fara varlega í að lesa þetta, ég fer í gegnum helstu atriðin í hverri sögu)

1. The Last of the Clan McDuck

Fyrsti kaflinn í þessari bók gerist árið 1877 þegar Jóakim (verður hér eftir kallaður það) er 10 ára gamall og á heima í Skotlandi. Hann fær skóburstunarsett í afmælisgjöf frá pabba sínum, og vinnur sér þannig inn fyrsta skildinginn sinn eftir að hafa burstað fætur skurðgrafar. Skildingurinn reynist vera Bandarískur skildingur og er því verðlaus í Skotlandi. Það er þá sem að Jóakim segir þessa eftirminnilegu setningu: “This should be a lesson! Life is filled with though jobs, and there’ll always be sharpies to cheat me! Well, I’ll be tougher than the toughies, and sharper than the sharpies – And I’ll make my money square!”
Kaflinn er virkilega góður og vel teiknaður, en ekki mitt uppáhald. Hinsvegar er þessi setning líklega besta kvótið í seríunni að mínu mati, uppáhalds kvótið mitt. Frábær kafli!

2. The Master of Mississippi

Gerist 3 árum seinna, árið 1880. Jóakim fer til Ameríku að hitta frænda sinn, Angus McDuck. Þeir, ásamt uppfinningamanni einum (líklega föður Georgs Gírlausa), reyna svo að finna sokkin bát sem innihélt u.þ.b. 100.000 gullpeninga.
Þessi kafli er virkilega áhugaverður af því að hann inniheldur fyrstu kynni Jóakims af Bjarnabófunum, Blackheart Beagle (Afi Bjarnabófi) og sonum hans (feður nútíma-Bjarnabófanna). Don Rosa lætur aldrei sjást í andlit þeirra, annaðhvort eru þau falin í skugga eða þeir eru með grímur. Ein af mínum uppáhaldsköflum í þessari bók!

3. The Buckaroo of the Badlands

Kaflinn gerist árið 1882 í Villta Vestrinu. Það er ekki mikið hægt að segja um söguþráðinn í þessum kafla, Jóakim gerist kúreki undir nafninu Buck McDuck og kaflinn fjallar aðallega um það.
Þessi kafli er ekki sá skemmtilegasti, en er þó mjög mikilvægur þáttur í lífi Jóakims. Þarna tekur Rosa fyrir staðreynd Carl Barks sem kom fram í Only a Poor Old Man, þar sem Jóakim segist hafa unnið sér inn pening í nautgripastríðinu í Villta Vestrinu. Í þessum kafla hittir Jóakim Teddy Roosevelt, forseta Bandaríkjanna, og fær hryssuna sína, Hortense (sem hann skýrði eftir litlu systur sinni vegna skapgerðarinnar). Ekki skemmtilegasti kaflinn, en engu að síður mikilvægur.

4. Raider of the Copper Hill

Leiðinlegasti kafli sögunnar að mínu mati, samt er hann frábær. Jóakim er leystur af störfum sem kúreki, og fer að grafa eftir sjaldgæfum málmum. Hann hittir gamlan mann sem kennir honum fullt af undirstöðuatriðum í bransanum (pabbi Jóa Rokkafellis, sem er einskonar Gull Ívar Grjótharði í Syrpunum).
Eins og ég sagði er þetta leiðinlegasti kaflinn að mínu mati, en inniheldur þó nokkur virkilega flott panel og skemmtileg atvik. Ein flottasta teikning sögunnar er í þessum kafla, teikningin þar sem allir eru að berjast fyrir Anaconda koparnámunni (var lengi að skoða öll skemmtilegu smáatriðin á þessari teikningu)…

5. The New Laird of Castle McDuck

Jóakim neyðist til að snúa aftur til heimalandsins til að endurheimta kastalann úr höndum Whiskerville ættarinnar. Jóakim þarf svo að há einvígi við einn þeirra, þar sem þeir telja hann hafa móðgað ættina.
Uppáhaldið mitt, ég elska þennan kafla. Í fyrsta lagi er það af því að í þessum kafla sameinast fjölskylda Jóakims aftur (í síðasta sinn) og það er hægt að sjá þau öll þarna. Í öðru lagi er hlutinn þar sem Jóakim hittir alla forfeður sína aftur virkilega skemmtilegur, gaman að sjá suma forfeður hans sem maður hefur bara séð á ættartrénu sem Don Rosa teiknaði. Í þriðja lagi er þessi saga líklega ástæðan fyrir því að ég heillaðist af Don Rosa, hún er ótrúlega fyndin og vel gerð. Þetta var ekki fyrsta sagan sem ég las eftir hann, en þegar ég las hana og spurði hvaða teiknari þetta var áttaði ég mig fyrst á því hvað hann var góður. Eftir það fór ég að lesa miklu fleiri sögur eftir hann. Ég elzka þessa sögu!

6. The Terror of the Transvaal

Árið 1887 ákveður Jóakim loksins að það sem hann er að sækjast eftir er gull. Hann fer til Afríku og hittir þar aðra önd sem er á aldri við hann, Flintheart Glomgold að nafni (Gull Ívar Grjótharði á Íslensku). Flintheart svíkur svo Jóakim eftir að hafa lofað að veita honum leiðsögn, stelur öllu dótinu hans og skilur hann eftir einhversstaðar í Afríku. Þannig kynnist Jóakim Flintheart, og maður fær að sjá ástæðuna fyrir því að þeir eru svona miklir óvinir.
Kaflinn er hreint út sagt frábær og einn af mínum uppáhaldsköflum í bókinni. Það er rosalega skemmtilegt að sjá Flintheart svona ungann eins og Jóakim, og fylgjast með viðureign þeirra á yngri árum. Snilld, eins og allt sem viðkemur Don Rosa!

7. Dreamtime Duck of the Never-Never

Jóakim er staddur í eyðimörk í Ástralíu og hittir þar gamlan dularfullan mann. Í þakklætisskyni fyrir að bjarga sér frá ræningja einum, tekur gamli maðurinn hann með sér í gröf eina sem inniheldur drauma BindagBindag’s (sem er einhverskonar spekingur). Gamli maðurinn les draumana fyrir Jóakim, sem trúir auðvitað ekki að neitt af þessi gæti hugsanlega gerst. En draumarnir reynast sannari en hann hélt.
Virkilega góð saga. Hún er svolítið dularfull, og ég elska dularfullar sögur. Sagan er í rauninni ekki til neins, það gerist ekkert stórmerkilegt í henni svo að Don Rosa “hefði” alveg getað sleppt henni! Þá hefði hann hinsvegar verið að sleppa einni skemmtilegustu, tilgangslausustu og dularfyllstu sögu bókarinnar, svo það var gott að hann gerði það ekki!

8. King of the Klondike

King of the Klondike er mjög líklega ein mikilvægasta saga bókarinnar! Í henni kemur Jóakim loks til Klondike og fær þetta eftirminnilega lán hjá Soapy Slick (100% vextir)! Hann hittir einnig Glittering Goldie (flestir vita líklega hver hún er) og finnur að lokum Gæsareggsmolann sem gerði hann ríkan!
Það sem ég hreinlega elska við þessa sögu er kaflinn þar sem Jóakim er hlekkjaður í spilavíti Soapies (get eiginlega ekki útskýrt það nánar án þess að spilla fyrir). Það er í rauninni fyrsta atriðið sem sýnir hvað Jóakim er í rauninni harður og ákveðinn í að finna fjarsjóðinn sem hann er að sækjast eftir og halda uppi mannorði fjölskyldunnar… Þessi saga er í uppáhaldi hjá mér bara vegna þess. Fyrir utan það er þetta ótrúlega góð saga, tekur margar Barks staðreyndir fyrir og er mjög mikilvæg fyrir þessa bók!

9. The Billionaire of Dismal Dawns

Jóakim snýr aftur til Skotlands eftir að hafa lokið viðskiptum sínum við Soapy. Honum er ekki tekið alltof vel í heimabæ sínum, og því ákveður hann að taka þátt í “Hálandaleikjunum” til að endurheimta mannorð sitt í Skotlandi. Að lokum tekur hann þá mikilvægu ákvörðun að flytja til Andabæjar.
Ekki beint í uppáhaldi hjá mér, en fínn kafli engu að síður. Ég elska endasenu (?) kaflans, lá í hláturskasti mjög lengi eftir að hafa lesið hana (Goldieburg senan). Það er lítið annað hægt að segja um þennan kafla án þess að spilla fyrir. Frábær kafli, en ekki sá besti!

10. The Invader of Fort Duckburg

Sagan gerist sama ár og “The Billionaire of Dismal Dawns”, 1902. Jóakim er kominn til Andabæjar (Duckburg) með systrum sínum. Hann hafði keypt hæðina sem að geymirinn hans mun standa á í framtíðinni, Killmotor hill, en þar stendur virki Grænjaxlanna fyrir!
Ég hló mig alveg máttlausan þegar ég var að lesa þessa sögu (gat ekki jafnað mig á brandaranum á síðustu myndinni (panelinu)). Þetta er fyrsti kaflinn þar sem við hittum alla fjölskyldu Ömmu Andar (Þá nefnd Ma Duck eða Mamma Önd), þar á meðal pabba Andrésar Andar! Samband hans og systur Jóakims er mjög skemmtilegt þar sem að þau hafa bæði mjög stórt skap! Ein fyndnasta sagan í bókinni!

11. The Empire Builder from Calisota

Þessi saga er líklega lengsta sagan í bókinni, enda gerist hún á rúmlega 20 árum, nánar tiltekið 1909 – 1930!
Jóakim er nú orðinn virkilega ríkur og búinn að láta byggja peningageyminn fræga. Hann ferðast sífellt um jörðina í gróðaskyni en kemur einstaka sinnum heim til að skoða ástandið á peningageyminum (óborganlega fyndið atriði þegar hann sér starfsliðið sitt í fyrsta sinn)! Hann fer til Afríku með systrum sínum, Matthildi og Horteinsíu, og gerir þar sín fyrstu (og einu) óheiðarlegu viðskipti sem áttu eftir að ásækja hann í fjöldamörg ár! Matthildur og Horteinsía yfirgefa Jóakim þegar þær sjá hvernig viðskipti hann er farinn að gera, en Jóakim sér að sér og eltir þær heim. Á leiðinni notar hann hin ýmsu tækifæri til að græða pening…
Næstuppáhaldið mitt, þetta er líklega sagan sem ég hef lesið oftast eftir Don Rosa. Teikningarnar í þessari sögu eru STÓRFENGLEGAR, Bumbi er ótrúlega raunverulegur og Titanic myndin er með þeim flottari í bókinni! Í þessari sögu fáum við að kynnast svo mörgum í fyrsta sinn, t.d. Ungfrú Pikkólínu, Andrési og Dellu Önd (mamma Ripp Rapp og Rupps, líklega eina sagan sem hún kemur fram í)! Don Rosa á ekki í neinum vandræðum með að koma mörgum árum fyrir á u.þ.b. 5 blaðsíðum, eitthvað sem að margir núverandi Andrésar Andar teiknarar gætu ekki gert (kannski, en allavega ekki komið þessu svona vel til skila)! Þegar Jóakim kemur aftur er hann “grumpier than ever”, svona eins og við þekkjum hann í dag. Frábær saga sem markar miklar breytingar á Jóakim Aðalönd!

12. The Richest Duck in the World

Jóakim er nú orðinn gamall maður (gömul önd) og Andrés orðinn fullorðinn og kominn með frændur sína í fóstur! Sagan á að gerast eftir að Andrés og frændur hans eyddu jólunum á “Bear Mountain” í sögu eftir Carl Barks, “Christmas on Bear Mountain”! Frændurnir hitta nú Jóakim í fyrsta sinn (Andrés hafði reyndar hitt hann einu sinni áður) þegar hann býður þeim í heimsókn á setrið. Jóakim er búinn að setjast í helgan stein, búinn að láta loka peningageyminum og býr einn á risastóru setri! Hann lítur ekki við öðrum, því að aðrir líta ekki við honum! Enginn hefur heyrt frá honum í mörg ár. Þegar frændur hans koma ákveður hann að sýna þeim geyminn sinn, en Bjarnabófarnir elta þá (third generation)!
Don Rosa hefði alveg getað endað ævisögu Jóakims Aðalandar á sögunni “The Empire Builder from Calisota”. Þar var Jóakim loks sýndur eins og hann er í dag, nirfill, hann sá meirihlutann af fjölskyldu sinni í síðasta sinn, og hann hlýtur titilinn “Ríkasta önd í heimi”! Fullkominn endir! En hví að stoppa þar? Neeei, “The Richest Duck in the World” er líklega besti endirinn sem sagan hefði getað fengið! Hún kynnir þá Ripp Rapp og Rupp til sögunnar, ásamt Andrési, og sýnir hvernig þeir kynntust Jóakim! Hún er líka fyrsta sagan í tímaröðinni þar sem Jóakim er hann sjálfur, eltingarleikur við Bjarnabófana með frændur sína í eftirdragi! Ég get nú eiginlega ekki sagt að þetta sé ein besta sagan, en fullkomin saga til að enda þetta allt saman!!!



Ég vil einnig benda á bókina “The Life and Times of Scrooge McDuck Companium”, sem er einskonar bók númer 2. Hún inniheldur allar aukasögurnar, svo sem; “The Hearts of Yukon” og “The Prisoner of White Agony Creek” (veit ekki hvernig á að skrifa það)!

Að mínu mati er þessi saga meistaraverk, Don Rosa er með allt á hreinu hvað varðar Jóakim Aðalönd! Endilega, leggðu það á þig að labba niður á Bókasafn og taka þessa bók eða jafnvel bara kaupa hana í Nexus! Takk fyrir mig…