WE3

Grant Morrison, Frank Quitely

Vertigo Comics

„Say hello to man’s new best friends“

WE3 er tiltölulega ný myndasaga eftir meistara Grant Morrison. Hér gefur hann hinum sögum sínum sem flestir myndasöguaðdáendur ættu að kannast við ekkert eftir. Í þetta skiptið eru aðalpersónurnar hjá honum þrjú dýr, hundur, köttur og kanína. Þetta eru þó engin venjuleg dýr því þau eru liður í tilraunaverkefni hjá Bandaríska hernum og er tilgangur þeirra að leysa af hermenn á vígvellinum. Það er búið að festa á þau öll svakalega brynju og vopna þau með allri nýjustu tækni sem herinn hefur upp á að bjóða. Einnig hafa þau hver sitt sérsvið, hundurinn er eins og skriðdreki eins og ein persónan í bókinni lýsir honum, sérsvið kattarins er svokölluð „stealth“ tækni eða að láta ekki sjá sig og drepa hljóðlega og hlutverk kanínunnar er að leggja ýmis konar sprengjur. En það er þó ekki nóg með það því einnig hafa dýrunum með hjálp nýjustu tækni verið kennt að tala á frumstæðan máta. Þegar dýrin hafa svo þjónað tilgangi sínum ákveður herinn að losa sig við þau eins og hvert annað rusl en herinn vanmetur þó gáfur þeirra því þau fatta hvað er í gangi og eru ekki á sama máli. Þau brjótast því út úr herstöðinni og út í náttúruna í leit að heimili sínu. En Bandaríski herinn gefst ekki svo auðveldlega upp og reynir að ná þeim aftur með öllum tiltækum ráðum og má þar nefna fjarstýrðar rottur og annað mun stærra og öflugra dýr sem er útbúið sama tækni og þau.

WE3 er mjög góð teiknimyndasaga og er stíll hennar mjög einstakur en jafnframt mjög flottur. Ég hef aldrei séð annað eins og er það snilld hvernig átökin í sögunni eru sýnd. Erfitt er þó að lýsa því í orðum og læt ég bara ykkur um að uppgötva það sjálf þegar þið lesið söguna. Sagan skoðar líka samband manna og dýra og þá hvernig við förum með dýr og hvernig þau líta á okkur.

Grant Morrison er mjög stór í myndasöguheiminum og hefur hann m.a. annars gert snilldar sögur á borð við The Invisibles, Doom Patrol, The Filth, Batman: Arkham Asylum, Sea Guy og svona má lengi telja. Þeir sem eitthvað hafa lesið af hans sögum vita því hverju má búast við af þessari og ég leyfi mér að fullyrða að með þessari sögu stingi hann enn annarri skrautfjöðrinni í hattinn sinn. Sagan kostar tæplega 1300 kall og ætti að fást í Nexus og því er ekkert annað að gera að drífa sig að lesa hana ef þið hafið á annað borð áhuga á góðum teiknimyndasögum.