Batman: Year One
Frank Miller, David Mazzucchelli og Richmond Lewis
1988

„It rose into space, it’s wings spread wide. Then fell, it’s wings now a fluttering cape, wrapped tight about the body of a man“.

Ef að þið hugsið um Val Kilmer eða George Clooney í hvert skiptið sem þið heyrið minnst á Batman og hryllinginn sem er myndirnar Batman Forever og Batman and Robin þá er það skylda fyrir ykkur að lesa þessa sögu. Hún er gerð af Frank Miller sem allir ættu að þekkja en fyrir þá sem ekki vita hver það er þá er það maðurinn á bak við Sin City, The Dark Knight Returns, 300 og endalaust fleiri snilldar sögur.

Sagan fjallar um tvo menn sem koma til Gotham borgar þar sem hún er að drukkna í glæpum og spillingu. Þessir menn eru Bruce Wayne og James Gordon. Báðir eru þeir staðráðnir í að binda enda á þessa spillingu og glæpi en þó með gjörólíkum hætti. Bruce Wayne er nýkominn úr stífri þjálfun og fer að taka til hendinni við að berjast gegn glæpalýð. Gerir hann mörg mistök í fyrstu og virðast hlutirnir ekki að vera að ganga hjá honum þar til það rennur upp fyrir honum hvernig hann getur látið glæpamennina óttast hann, með því að breyta sér í leðurblöku. James Gordon byrjar hjá lögreglunni í Gotham og er mjög undrandi á því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Mennirnir sem eiga að berjast gegn glæpum eru í slagtogi með glæpamönnunum og fara þeir meira að segja að reyna að losna við Gordon þegar þeir sjá að honum líkar ekki við aðferðir þeirra.

Í fyrstu reynir Gordon allt sem hann getur til að stöðva Batman þar til það rennur upp fyrir þeim báðum að þeir eru að reyna að ná sama takmarkinu og leiða þeir þá saman hesta sína.

Ég verð að segja að þessi saga er algjör snilld. Ég mæli eindregið með henni fyrir alla Batman aðdáendur og einnig þá sem fíla hann ekki því ég get næstum lofað ykkur því að þið munið gera það eftir að hafa lesið hana.