Ein spurning!
- Hefur þú áhuga á myndasögugerð og langar þig að sækja inná þá braut?
Ef þú ert áhugasamur/söm þá eru mínar næstu spurningar þessar:
- Hversu langt viltu komast í myndasögugerðinni?
- Áttu þér takmark?
- Viltu láta það verða að veruleika?
Það sem þú þarft að gera nr.1-2og3 er að kasta sjálfsgagnrýni lengst út á haf og ávalt vera meðvitaður/vituð um hana þegar hún byrjar að sýna á sér kollinn.
Við getum ekki teiknað betur en við gerum akkúrat í dag og þannig er það bara.
Það sem við getum gert er að teikna eins vel og við getum og látið þar við sitja því óhjákvæmilega verða teikningar morgundagsins byggðar á þeim sem við gerum í dag en ekki þeim sem við strokum út í gríð og erg.
“Æfingin skapar meistarann” …í raun þarf ekki að segja annað.
Það sem hafa skal í huga við myndasögugerð er að það sem skiptir rúmlega 100% máli er sagan – og það er skortur á sögu sem veldur okkur flestum vandræðum við að teikna myndasögu – því sagan gefur okkur myndir í kollinn.
Ef ég segi – “Teiknaðu myndasögu fyrir mig” – og labba í burtu – þá eru töluverðar líkur á því að þú þurfir fyrst um sinn að brjóta heilann um hvað sagan á að vera.
Ef ég segi aftur móti – “Gerðu myndasögu um mann sem er að opna niðursuðudós með sleggju og skrúfjárni” – þá sérðu strax fyrir þér mann, sleggju, skrúfjárn og niðursuðudós – og strax er auðveldara að hefjast handa.“
Ef ég segi – “Gerðu myndasögu um rauðhærðan mann með stórt nef í smekkbuxum. Hann er að ljúka við að bóna bíl á bifreiðaverkstæði – er mjög ánægður með að vera búinn að klára verkefni dagsins - ætlar svo að fá sér niðursoðnar pylsur í tómatsósu en hann finnur ekki dósaupptakarann. Hann reynir þá að opna niðursuðudósina með skrúfjárni og sleggju. Hann reynir ýmsar aðferðir við að opna - í lokinn slengir hann sleggjunni í dósina rauður af reiði - hún opnast og allt innihaldið skýst út og fer yfir bílinn sem hann var að bóna – rétt í því gengur eigandi bílsins inn og spyr hvort bílinn sé klár – hann heldur um höfuð sér og er eldrauður í framan.
- Hér er fátt eftir sem krefst þess að þú skáldir í eyðurnar og auðveldara að hefjast handa.
Ef ég svo legg þetta svona fram:
———————————–
Balli Bón og pylsudósin.
Stærð sögu A4
Lýsingar-
Bón og bílaverkstæði Balla Bón.
Balli Bón: Rauðhærður með stórt nef. Í smekkbuxum, netabol og með derhúfu.
Eigandi bíls: Miðaldra gæi í kúrekastígvélum, gallabuxum og leðurjakka með sólgleraugu og sítt hár – er með sígarettu eða tannstöngul.
Bíll: Stór amerískur kaggi með “Drottningin” í flottum stöfum á hliðinni.
————-
(Rammauppsetning sjá Sjonna á www.heimursjonna.com)
Haus á sögu:
Lógó – Balli Bón
Rammi 0 – Svakalegur töffari skilar kagga til Balla Bóns. Töffari er að ganga út og snýr baki í Balla án þess að horfa á hann.
Töffari: Ég kem rétt fyrir lokun! Farðu vel með elskuna mína.
Balli – Hugsanablaðra1: Já, yðar gráafiðringshátign!
Balli – Hugsanablaðra2: Þvílíkur lúser.
Rammalína 1 af 3
Rammi 1 – Balli Bón er að bóna bílinn á verkstæðinu sínu.
Balli – Talblaðra: (Pjúff!) Jæja! Loksins, drottningin er klár.
Rammi 2 - Heldur um magann á sér og horfir á úrið.
Balli – Hugsanablaðra: Djöfull, hann er seinn! Ég er alveg að farast úr hungri.
Rammi 3 – Heldur á niðursuðudós sem á stendur Pylsur í tómatsósu.
Balli - Talblaðra: Jæja, maður verður bara að fá sér smá snarl.
Rammalína 2 af 3
Rammi 4 – Balli heldur á niðursuðudósinni og klórar sér í hausnum.
Balli – Hugsanablaðra: Bíddu nú við! Hvar er dósaopnarinn?
Rammi 5 – Balli heldur á sleggju og skrúfjárni
Balli – Hugsanablaðra: He, he! Hann Balli deyr ekki ráðalaus.
Rammi 6 – Balli situr og er að reyna að opna dósina með verkfærunum en ekkert gengur – það stígur reykur upp af honum vegna reiði.
Balli – Talblaðra: And***dans!! Þetta gengur bara ekkert! Djöf!!
Rammalína 3 af 3
Rammi 7 – Balli er í loftinu með sleggjuna – alveg rjúkandi fúll að sjá – eldrauður í framan – gufur stíga af honum. Sleggjan er alveg við það að lenda á dósinni – Fullt af hreyfilínum sem tákna sveifluna á sleggjunni.
Balli – Talblaðra: Hafðu þetta helv**is dósardruslanþín!!!
Rammi 8 (lítill)– Sýnir bara eitt stórt KRASS – SPLURT - Pylsur og tómatsósa þeytast í átt að lesandanum.
Rammi 9 (stór) – Balli, bílinn og nánasta umhverfi þakið pylsum og tómatsósu. Balli stendur dofinn með munn niður á bringu. Töffarinn sést koma inn um dyrnar.
Balli – Hugsanablaðra: Úpps!
Töffari – Talblaðra: Fyrirgefðu mér strákur en ég brá mér í pylsuvagninn og er því aðeins seinn. Vonandi hefur það ekki truflað þig?
Endir
Þessi saga endar á þann hátt að við erum skilin eftir til að klára söguna í okkar huga.
——
Þið sjáið það að þegar sögugerðin er þetta skipulögð þá er ekkert eftir nema að teikna söguna.
Hver rammi er niðurnegldur og það án þess að teikna nokkur skapaðan hlut.
Skipulag er það sem skiptir máli.
—–
Jæja – ekki verður það lengra að sinni – vona að þetta hjálpi ykkur við myndasögugerðina.
Gaman væri að sjá ykkur reyna við þessa sögu – hvað segið þið um það?
Bestu kveðjur,
Ingi
—————————–
www.skurinn.ingi.net
www.heimursjonna.com
www.ingi.net
www.facebook.com/teikningi