Þessi skítsæmilega plata byrjar á allgóðu lagi eftir Paul Stanley, I Stole Your Love heitir það. Paul segist hafa verið undir áhrifum Deep Purple-lagsins Burn þegar hann samdi það. Þetta er kröftugt rokklag og eitt af betri lögum plötunnar. Christine Sixteen heitir næsta lag, flott lag frá Gene Simmons. Paul hafði upphaflega verið að semja lag sem hét Christine Sixteen og Gene þótti þetta sniðugt nafn á lagi svo hann stal þessari hugmynd og bjó sjálfur til lag sem hafnaði (þrátt fyrir andstöðu Ace Frehley) á Love Gun-plötunni.
Næsta lag er líka eftir Gene Simmons og er að mínu mati frekar lélegt, Got Love For Sale heitir það. Það er ekkert við þetta lag sem heillar mig. Mér finnst það rosalega venjulegt og viðburðasnautt. En lagið Shock Me, eftir Ace Frehley er hinsvegar mun betra, þarna erum við að tala um alvöru rokklag, og það flottasta við það er grípandi viðlagið. Alltaf kemur Ace Frehley líka með einhver einföld og sniðug sóló sem smellpassa inn í lögin og í þetta skipti er það langt og flott. Næsta lag, Tomorrow And Tonight er hressilegt stuð-rokklag, flott lag eftir hinn ágæta tónlistarmann Paul Stanley.
Titillagið er að mínu mati besta lag plötunnar, Love Gun. Ekki það að þetta sé nein rosaleg tónsmíð, það er bara einhver drungalegur blær yfir laginu sem heillar mig upp úr skónum. Lagið er bæði samið og sungið af Paul Stanley, og söngurinn er svakalega kraftmikill og bakraddirnar frá hinum hljómsveitarmeðlimum pottþéttar. Paul Stanley spilar líka bassann í þessu lagi sem er að mínu mati sniðugur og gefur laginu flott yfirbragð, sérstaklega í versinu. Að mínu mati er þetta eitt af bestu KISS-lögunum. Hooligan er samið af Peter Criss og Stan Penridge en sungið af Peter Criss. Ósköp ómerkilegt lag, enda er Peter Criss sá sem hefur minnst samið í hljómsveitinni.
Almost Human heitir áttunda lag plötunnar og er það eftir Gene Simmons. Frekar lélegt lag, ósköp tilbreytingarlaust og leiðinlegt. En eitt sem einkennir lagið er að Gene Simmons spilar líka á gítar í því, eins og hann gerir reyndar líka í laginu Plaster Caster. Það er líka samið af honum og er ágætislag. Then She Kissed Me er gott popplag frá sjötta áratugnum sem KISS kóveruðu. Það er samið upphaflega af Jeff Barry, Ellie Greenwich og Phil Spector og er góður endir á plötunni.
Ef litið er á heildina er þetta sæmilega góð plata, nokkur góð lög og nokkur slæm. Platan er prodúseruð af engum öðrum en Eddie Kramer, en hann hefur unnið með mönnum eins og Jimi Hendrix og Led Zeppelin. Ég gef plötunni 7 í einkunn.
Kv. Jói