Ég sendi inn hræðilega grein um þessa plötu fyrir löngu, og nú langar mig að senda betri grein inn á þennan kubb, af því þetta er nú einu sinni frábær plata. Semsagt, árið 1988 gáfu Guns n’ Roses út aðra breiðskífu sína. Upphaflega átti hún að heita “Lies! The Sex, The Drugs, The Violence, The Shocking Truth” en Geffen útgáfufyrirtækinu fannst það of langt, svo hún var bara látin heita GN’R Lies.

Reckless Life
Nice Boys
Move To The City
Mama Kin

Patience
Used To Love Her
You’re Crazy
One In A Million

Fyrstu fjögur lögin eru af fyrstu plötu hljómsveitarinnar, EP plötunni Live Like A Suicide sem var gefin út árið 1986 af Uzi Suicide, en það var lítið útgáfufyrirtæki sem GN’R áttu sjálfir. Hún var tekin upp í stúdíói en fagnaðarlátum var bætt inn frá öðrum áttum. Reckless Life er hressilegt rokklag, með skemmtilegum riffum og kröftugum söng og Nice Boys er ekki síðra, en það er upprunalega með hljómsveitinni Rose Tattoo. Move To The City fjallar um það þegar Axl Rose var að flytja til Los Angeles-borgar og er rólegra en hin lögin og að mínu mati besta lagið af þessum fjórum. Mama Kin var upphaflega samið af Aerosmith, hressilegt lag en að mínu mati gerðu Aerosmith það betur.

Svo eru það hin fjögur lögin. Duff McKagan sagði að hljómsveitarmeðlimir hafi verið blindfullir við upptökur þeirra, en þrátt fyrir það eru upptökurnar frábærar. Patience er án efa frægasta lag plötunnar og að mínu mati besta. Fallegt lag sem byrjar á blístri eins og One In A Million. Used To Love Her er hressilegt grínlag, með einföldum hljómagangi og skemmtilegum gítarsólóum. You’re Crazy var á Appetite For Destruction-plötunni spilað með rafmagnsgíturum, en á þessari plötu með kassagíturum. Ótrúlega flott lag finnst mér og vel sungið hjá Axl Rose. Lokalagið er One In A Million, en textinn í því var mjög umdeildur. Í honum koma fram orð eins og “nigger” og “fagets” og margir héldu að Axl væri haldinn kynþáttafordómum, en Axl Rose hefur þó alltaf haldið því fram að lagið fjalli einungis um skoðanir ungs bæjarstráks, en það kemur líka fram í textanum. Persónulega finnst mér þetta þó frábært lag.

Að mínu mati er þetta næstbesta plata Guns n’ Roses, á eftir Appetite For Destruction. Mér finnst næstum öll lög plötunnar frábær, en Nice Boys, Reckless Life og Mama Kin lakari, en samt virkilega góð. Ég gef plötunni 9,5 í einkunn.

Kv. Jói