Samfélagið Frumkvæði (www.frumkvaedi.is), Hitt Húsið, Rauði Krossinn, Lýðheilsustöð og Samband íslenskra framhaldsskólanema hafa tekið höndum saman til að sporna við ástandinu í íslensku samfélagi.

Staðreyndin er sú að fjöldi íslenskra ungmenna mun verða atvinnulaus í sumar og aðrir aðeins með takmarkaða vinnu, hlutastarf og annað slíkt.

Því ætlum við að opna ungmennamiðstöð í gamla Austurbæjarbíó sem starfrækt verður í sumar (lengur ef vel gengur). (nánar um hana hér að neðan)

Húsið verður formlega opnað á morgun, þriðjudaginn 9. júní. Lagt verður af stað í smá skrúðgöngu sem tónlistarhópurinn Braskararnir fara fyrir. Labbað verður upp Laugaveginn að Austurbæjarbíó. Þar verður tekið á móti gestum með grilluðum pylsum og gosi. Starfsemi hússins verður kynnt og hljómsveitirnar Reykjavík! og Agent Fresco trylla lýðinn. Bow

Mikið hefur verið haft fyrir því að koma þessu verkefni í gegn á þessum krepputímum og því vonum við að sem flestir láti sjá sig og sýni verkefninu stuðning og áhuga.


———————-

Austurbæjarbíó - Hús Unga Fólksins opnar formlega þriðjudagskvöldið 9. Júní. Húsið verður miðstöð fyrir ungt fólk sem vill virkja krafta sína í frjóu og hvetjandi umhverfi.

Markmið miðstöðvarinnar er að bjóða upp á aðstoð og aðstöðu við framkvæmd nýsköpunarhugmynda ungs fólks, bjóða upp á fjölbreytilega dagskrá í húsinu og virkja krafta ungs fólks við andlitslyftingu Austurbæjarbíós ásamt því að bjóða upp á hressingu. Haft verður að leiðarljósi að skapa vettvang þar sem öllum er frjálst að koma á sínum eigin forsendum og taka þátt í verkefnum með öðru fólki í góðu umhverfi.

Austurbæjarbíó er miðstöð Samfélagsins Frumkvæði ( frumkvaedi.is ) sem aðstoðar ungt fólk við framkvæmd verkefna sinna, hvort sem þau eru á byrjunarstigi eða lengra komin, tengd viðskiptum, listgreinum eða hverju sem er.

Hægt er að sækja um styrki til að vinna ýmis verkefni, nánari upplýsingar gefur starfshópur Austurbæjarbíós.

Austurbæjarbíó - Hús Unga Fólksins býður, eins og nafnið gefur til kynna, upp á fjölbreytilega dagskrá sem boðin er þátttakendum þeim að kostnaðarlausu og er öllu ungu fólki opin.

Ertu með góða hugmynd sem þarf að framkvæma sem fyrst?

Langar þig að hitta annað fólk með svipaðar hugmyndir?

Viltu gera þér dagamun, fá þér hressingu, sýna þig og sjá aðra ?

Viltu gerast sjálfboðaliði við uppbyggingu og andlitslyftingu Austurbæjarbíós?

Viltu taka þátt í áhugaverðum námskeiðum og verkefnum?

Þá er Austurbæjarbíó vettvangur þinn! Engar sérstakar kröfur eða skilmálar eru settar verkefnunum sem fram fara í húsinu, þó eru undantekin verkefni sem stangast á við almenn lög eða reglur hússins. Reynt verður þó eftir fremsta megni að koma til móts alla sem vilja koma sínu á framfæri.

Haldin verða námskeið og samstarfshópar um hvaðeina sem áhuga vekur hverju sinni. Lögð er áhersla á að virkir þátttakendur í sumarstarfi Austurbæjarbíós ráði ferðinni um dagskrá hússins og haldi utan um hvert verkefni.

Verkefnið er samstarfsverkefni Samfélagsins Frumkvæði ( frumkvaedi.is ), Hins Hússins, Rauða Krossins, Lýðheilsustöðvar og Sambands Íslenskra Framhaldsskólanema.

Opnunarhátíðin fer fram með pomp og prakt þriðjudaginn 9. Júní og mun skrúðganga fara af stað kl. 18 frá klukkunni á Lækjartorgi. Leiðin liggur upp í Austurbæjarbíó þar sem tekið verður á móti gestum með grillpartýi, kynningu á starfi hússins og ýmsum tónlistaratriðum. Við hvetjum alla til að mæta og fagna opnun hússins.

Húsið verður opið á milli 10 og 18 alla virka daga í sumar.

Dagskráin er auglýst jafn óðum á heimasíðunni www.frumkvæði.is og svo á facebook, hópurinn er Austurbæjarbíó!

Láttu sjá þig á þriðjudaginn!

Austurbæjarbíó- Hús Unga Fólksins.