Lokadjammhnykkur Ókei. Ég var að spá í þessum tónleikum í Kaplakrika á föstudaginn. Svona er fréttatilkynningin:
___________________________________
Eins og fyrr hefur verið sagt frá, þá verða haldnir Stórtónleikar í íþróttahúsi Kaplakrika í Hafnarfirði á föstudaginn næsta, 30. ágúst.

Miðasala er hafin í verslunum Skífunnar í Smáralind, Kringlunni og á Laugaveginum. Miðaverð er kr. 2.000 í forsölu og kr. 2.500 við innganginn. Forsala fór vel og stað og ljóst er að það verður mjög góð aðsókn, enda sjaldan sem þessi hljómsveitia elita næst saman á sömu tónleikunum.

Tónleikarnir munu hefjast um kl. 20:00 en húsið opnar kl. 19:00. DJ Sóley mun spila tónlist áður en tónleikar hefjast og á milli atriða. Kynnar tónleikana verða Ding Dong (Pétur og Doddi litli) best þekktir úr morgunþætti FM957.

Eftirtaldar hljómsveitir koma fram á Stórtónleikunum:
1. Sálin
2. Land og Synir
3. XXX Rottweiler
4. Í Svörtum Fötum
5. DaySleeper

Ekki þarf að kynna áðurnefndar hljómsveitir en ljóst er að hér er um að ræða vinsælustu hljómsveitir landsins þetta sumarið. DaySleeper er nýjasta hljómsveitin á þessum lista og eiga þeir eitt af topplögum sumarsins. Land og Synir munu kynna efni af plötu sem er að koma út í tengslum við útrás þeirra á erlendan markað. Sálin hefur verið starfandi í 15 ár og hafa gefið út hvert topplagið á fætur öðru, nú síðast titillag myndarinnar ‘Maður eins og ég’, þú fullkomnar mig, sem stefnir á toppinn hér á landi. XXX Rottweiler þarf ekki að kynna, nafnið segir sitt. Í svörtum fötum hefur spilað vítt og breitt um landið í sumar við mikinn fögnuð og munu þeir ekki gefa neitt eftir á þessum tónleikum.

Í raun eru þessir Stórtónleikar lokahnykkur á tónlistarsumarið 2002 og ljóst að allar áðurnefndar hljómsveitir gefa allt til að skemmta gestum, hver á sinn hátt.

Stórtónleikar þessir eru ætlaðir öllum sem ánægju hafa að tónlist þessara tónlistamanna og ljóst að allir fá eitthvað við sitt hæfi. Aldurstakmark er 16 ár.
________________________________________

Ég var semsagt að pæla, verða bara 16 ára unglingar þarna eða hvað? Ég hef nefnilega aldrei séð Í svörtum fötum, Daysleeper eða Land og Syni og held að það sé fínt að slá nokkrar flugur í einu höggi og sjá svo hundana sem eru bestir. Haldiði að maður verði aldursforseti??

Vitiði um einhvern sem ætlar að fara?