Tori Amos Þetta verður ekki neitt hrikalega ítarleg og nákvæm grein þar sem ég hef ekki það mikið af upplýsingum um Tori Amos, enda hef ég þá skoðun (þó ég sé kannski ein um hana) að það sé tónlistin sem skipti máli en ekki smáatriðin um líf og störf tónlistarmannanna. Frekar er þessi grein til að vekja athygli á þeim snilldartónlistarmanni sem Tori Amos er!

Tónlist Tori Amos fellur eiginlega ekki undir neitt af áhugamálunum undir tónlist, svo sem rokk, metal, raftónlist eða annað svo ég setti hana bara undir tónlist.

Fyrsti “alvöru” diskurinn sem Tori gaf út var Little Earthquakes, árið 1992. Hún hafði gefið út allavega einn disk áður, Y Kant Tori Read en hann á víst að vera allt öðruvísi og í litlu samhengi við restina af tónlistinni hennar.
Little Earthquakes er fyrsti diskurinn sem ég eignaðist með Tori Amos og verður að segja að sá diskur er í einu orði sagt SNILLD. Þar syngur Tori og spilar á píanó og í sumum lögunum eru önnur hljóðfæri líka, svo sem rafmagnsgítarar og trommur og í einu laginu er bara söngur.
Næsti diskur er Under the Pink sem kom út 1994, svo Boys for Pele sem kom 1996, From the Choirgirl hotel sem kom 1998. To Venus and Back kom 1999, það er tvöfaldur diskur, annar diskurinn er upptaka af tónleikum, seinni diskurinn með nýjum lögum. Í fyrra kom út Strange Little Girls en það er diskur þar sem Tori coverar mörg fræg lög, t.d. With a little help from my friends og I don’t like Mondays. Svo er hún núna að vinna að nýjum disk sem heitir eftir mínum bestu heimildum Scarlett’s Walk.

Það má sjá vissa þróun í gegnum þessa diska. T.d. átti ég Little Earthquakes og hlustaði á hann oft og mörgum sinnum, svo fyrir 4 árum úti í Þýskalandi rakst ég á safndisk með lögum með kvenkyns söngvurum og þ.a.m. eitt lag með Tori Amos. Ég setti það á fóninn og fékk sjokk!! Það var lagið Raspberry Swirl af disknum From the Choirgirl Hotel. Það lag er GJÖRÓLÍKT öllum lögunum sem ég hafði heyrt hingað til með Tori Amos. Fyrsti diskurinn er frekar rólegur og hugljúfur en svo kemur Raspberry Swirl sem byrjar á orðunum ,,aha, aha, let’s go” og er eitthvers konar rokkskotið popp… ég fékk það mikið sjokk að enn er mér illa við þetta lag… en það breytir því ekki að ég keypti mér diskinn þegar ég var komin heim og komst að því (sem betur fer!!) að þetta er langlélegasta lagið á disknum! Allavega að mínu mati. Samt eru öll lögin miklu dekkri og þyngri en lögin á LE, miklu rokkaðri. Engu að síður varð ég ástfangin af þessum disk og er þetta líklega sá diskur sem ég hef hlustað mest á í gegnum tíðina. Og þá er mikið sagt!! J

Seinna fékk ég mér diskana inn á milli, Under the Pink og Boys for Pele. Núna sé ég Tori þróast með hverjum disknum.


Þetta var svona stutt saga af tónlistinni… en það er frekar erfitt að lýsa henni í orðum. Mér hefur ekki tekist að flokka hana undir neinn flokk, (rokk, popp, klassík) heldur flakkar hún þarna á milli og lengra. Það eina sem þau flest eiga sameiginlegt er að þau eru alveg ótrúlega falleg og alger snilld!

Eitt af því sem er mest spes við Tori Amos eru textarnir hennar. Þeir eru kannski ekkert svo skrítnir í LE en þegar komið er út í FTCH (from the choirgirl hotel) þá eru þeir farnir að verða virkilega steiktir!! Hér er t.d. byrjunin á laginu Spark sem er fyrsta lagið á þeim disk:
,,She’s addicted to nicotine patches
she’s afraid of a light in the dark
6 58 are you sure where my spark is
here here here”

Jú, auðvitað er hægt að túlka fullt út úr textunum hennar en oft er ekkert beint samhengi. En það finnst mér bara kúl=)

Með frægustu lögunum hennar er lagið Winter sem er á LE. Það hefur verið mjög vinsælt í söngkeppnum alls konar, var t.d. í Skrekk fyrir nokkrum árum. Einnig tóku tvær stelpur í MH sig til og sungu Spark í Söngkeppni framhaldsskólanna í fyrra ef mig minnir rétt.

Mér finnst hálfslappt að eiginlega enginn á Íslandi sem ég hef talað við hefur heyrt um þessa stórgóðu söngkonu og tónskáld. Því jú, hún semur öll lögin sjálf!! Og það er ÞAÐ sem ég er eftir. Mér er nokk sama hver syngur lögin, það er sá sem semur þau sem á creditið skilið, finnst mér. Nánast aldrei þegar ég geng inn í hljómplötuverslun sé ég disk með Tori Amos… stundum eiga þeir einn eitthversstaðar bakvið en það heyrir til undantekninga. Reyndar er þetta að breytast, en það er samt fáránlegt hversu lítið þekkt hún er.

Ég ætla ekki að koma með neinar persónulegar upplýsingar um Tori, bæði út af því að ég hef engar, mér finnst það ekki skipta máli og líka ef eitthvern langar að vita það er örugglega ekkert mál fyrir hann að fletta því upp á netinu. Ég held samt að hún sé bresk.

Með þökk fyrir lesturinn og vonandi verður þetta til þess að þessi stórkostlega tónlistarkona fái meiri credit í framtíðinni=)
Daddy, don't ever die on a friday! It can seriously damage your health!