Þetta verður fyrsta grein mín á Huga. Ég hef lengi verið þögull lesandi á þessum síðum, en eftir þann farsa sem ég varð vitni að í gærkvöld get ég hreinlega ekki lengur orða bundist.
Farsinn sem um ræðir er oftast þekktur sem Músíktilraunir.
Ég skal útskýra málið. Þarna var ég mættur bæði til að sjá spennandi og skemmtilega keppni, svo og að styðja góðvini mína í hljómsveitinni Pan. Hvorki hljómsveitin né ég áttum von á að PAN myndi sigra kvöldið, þar sem eitt stykki Árni Matthíasson var fyrir löngu búinn að gera það ljóst að tónlistarmenn sem voga sér að syngja á ensku myndu aldrei ná langt í þessari keppni. Væntingar hljómsveitarinnar voru því ekkert of háar fyrir úrslitakvöldið, en eins og kom á daginn þá gátum við engan veginn verið viðbúnir þeim viðbjóði sem tók á móti Pan.
Fyrst ber að nefna það að kvöldið var í beinni útsendingu á Rás2, eins og Óli Palli kynnir tók sérstaklega fram í byrjun útsendingar. Hann taldi síðan upp þær 10 hljómsveitir sem að spiluðu til úrslita, en nefndi reyndar aðeins 9. HANN GLEYMDI AÐ NEFNA PAN. Við brostum nú náttúrulega bara að þessu, hugsuðum með okkur sem svo að þetta hlytu að vera bara mannleg mistök, og þar við sat!
Pan voru síðustu keppendurnir sem spiluðu, 10. hljómsveit kvöldsins, og þegar Ókind (#9) voru búnir að ljúka sér af fóru mínir menn á sviðið og fóru að gera sig klára. Það var þá sem ég (og margir fleiri, þar með talið nokkrar af hinum hljómsveitunum, sem fannst þetta allt jafn fáránlegt og mér) tók eftir því að starfsfólk Tónabæjar var þegar farið að labba um salinn og safna saman atkvæðaseðlum! OG PAN VORU RÉTT BYRJAÐIR Á FYRSTA LAGI! Þetta var náttúrulega engan veginn í lagi! Nokkrir okkar tóku það að sér að tala við stelpurnar sem voru að safna atkvæðaseðlum, aðrir reyndu að nálgast Óla Palla án árangurs. Sjálfum datt mér helst í hug að fara og tala við dómnefndina, en kunni ekki við það, þar sem ég var fullviss um að þeir hefðu nóg fyrir stafni! En svo reyndist ekki! Ég leit til dómnefndarinnar og sá mér til mikillar furðu að þeir voru ekki einu sinni að hlusta! Dómnefndin sat bara á snakki, menn sneru baki í sviðið og voru þegar farnir að tala saman og fara yfir málin! Mér lá skapi næst að fara og taka í eyrun á þeim og skipa þeim að horfa á og sýna hljómsveitinni allavega þá virðingu að ÞYKJAST VERA AÐ HLUSTA! Það er nú alveg lágmarkið, þótt augljóst þyki að Árni Matt og co. hafi þegar verið búnir að afskrifa “ástarvælukjóana ensku” í Pan. Þvílík ókurteisi og vanvirðing!!!
Það er liðinn hálfur sólarhringur síðan þetta gerðist og ég er enn jafn reiður og í gærkvöld! Mér finnst bæði Dómnefndin og starfsfólk Tónabæjar skulda hljómsveinni PAN stóra afsökunarbeiðni, ef ekki eitthvað meira, fyrir þessa vítaverðu framkomu.
Talandi um hljómsveitina Pan. Getið þið ímyndað ykkur hvernig það var að vera í þeirra sporum þetta kvöldið? Þeir voru eins og fuglar skotnir niður á flugi. Ég þekki þessa stráka vel, og þeir voru niðurbrotnir í lok keppninnar. Það er eitt að vinna ekki, þeir áttu ekkert von á því og voru ekkert spældir yfir því að Búdrýgindi skyldu vinna eða neitt slíkt. Það er alls ekki málið. EN ÞEIR VILDU AÐ MINNSTA KOSTI FÁ AÐ VERA MEÐ!!!
*Óli Palli gleymir að nefna Pan í upptalningunni í byrjun kvölds!
*Fólk er búið að skila inn atkvæðaseðlum áður en Pan eru byrjaðir að spila!
*Dómnefndin er ekki einu sinni að hlusta!
Það er hverjum manni ljóst á þessu sem fram kom hér á undan að Pan var aldrei með í þessari keppni. Þeir voru ekki með í kosningunni, fólk heima fyrir fékk ekki að vita að þeir væru að spila á umræddu kvöldi, og dómnefndin var ekki að hlusta. SKRÍPALEIKUR!
Það er skemmst frá því að segja að Árna Matt og félögum tókst ætlunarverk sitt, að útiloka algjörlega enskumælendur kvöldsins frá verðlaunum. Samt veittu þeir færeyskri hljómsveit 3. verðlaun!?!?!? Ná þessir fordómar þeirra bara yfir enskuna eða? Þetta er alveg makalaust …
Ég vill taka það sérstaklega fram að meðlimir Pan eru ekki með í ráðum hér. Það var algjörlega mín ákvörðun að skrifa þessa grein hér, og ég mun fara með málið lengra (haldiði að ég komi grein að í Mogganum, þar sem Árni Matt ríður rækjum?). Reyndar báðu meðlimir Pan mig sérstaklega um að skrifa þessa grein EKKI, þar sem þeir vildu heldur taka á málinu á sinn hátt; þ.e. að hugsa mönnum þegjandi þörfina og snúa síðan aftur tvíefldir eftir þessa “keppni”! En ég gat bara ekki setið á mér …
Það var nú svo sem margt annað skrýtið við þessa keppni. Til að mynda var dómnefndin varla nema 5-10 mínútur inni í “íhugun” eftir keppnina, síðan var hún komin á stjá frammi að hlusta á Forgarð Helvítis og XXX Rotweilerhunda … og þá var þegar búið að prenta út nöfn vinningshafanna og setja þau í lokuð umslög og allt saman!!! Það er ekki séns að þeir hafi getað verið svona snöggir að því … voru þeir kannski búnir að innsigla umslögin áður en keppnin fór fram? Það myndi ekki koma mér á óvart …
Hvað verðlaunin sem slík varðar þá kom fátt mér á óvart. Sumt var ég sáttur við, sumt ekki, eins og gengur og gerist (af hverju vinnur drengur sem er ekki kominn í mútur verðlaun sem besti söngvarinn? Og af hverju vinnur drengur sem spilaði á þeramín verðlaun sem besti hljómborðsleikarinn? Það er eins og gaur með mandólín hefði unnið verðlaun sem besti gítarleikarinn; fáránlegt!) … en ég vill þó taka það fram að sjálfum fannst mér Pan og Gizmó yfirburðasveitir á kvöldinu, en þessar tvær hljómsveitir ásamt Nafnleysu voru þær einu sem hlutu ekki ein einustu verðlaun á kvöldinu! Hvers konar rugl er þetta?
Gizmó reyndu sitt besta, þeir sungu lögin sín á íslensku á lokakvöldinu! En það breytti engu um það að Árni Matt var búinn að heyra þá syngja á ensku á tilraunakvöldinu, og því biðu þeirra sömu örlög og Pan: Hálshöggnir fyrir landráð! Að menn skuli voga sér að syngja á ensku???
Ég legg hér með til (og mun gera víðar) að Dómnefndin sem og aðstandendur og starfsfólk keppninnar sýni nú smá manndóm og birti afsökunarbeiðni til handa PAN, en það er nú það minnsta sem þeir geta gert!
Ykkur hinum vill ég benda á að kíkja endilega á tónleika með Pan og Gizmó í framtíðinni. Þarna eru mikil efni á ferð, og eins mikil synd og skömm og það er að þær skyldu ekki fá að vera með í keppninni í gær þá væri það ennþá stærri synd og ennþá meiri skömm ef öll sú vinna sem þeir (og aðrar grúppur) hafa lagt í að undirbúa sig fyrir músíktilraunir ætti að fara í vaskinn þar sem áhuginn fyrir þessum hljómsveitum væri lítill!
Þær eru vel þess virði að kíkja á, ég ábyrgist það, svo við sjáumst bara á næstu Pan/Gizmó-tónleikum! Hvað Músíktilraunir varðar er mér skapi næst að henda mér út í að koma á fót annars konar “tilraunum” … það gengur ekki að þetta sé nánast EINA LEIÐIN fyrir ungar hljómsveitir á Íslandi að koma sér á framfæri! Það gengur ekki að fíflið hann Árni Matt fái að ráða öllu um hverjir komist áfram í tónlistinni hér á landi og hver ekki …
Stjáni.