Í gærkvöldi fór ég á tónleika í Íslensku Óperunni á Godspeed You Black Emperor! (http://brainwashed.com/godspeed/) Ég sá tónleikana auglýsta fyrir svona einum og hálfum mánuði og vissi ekkert um hljómsveitina, þó ákvað ég að skella mér á þá. Ég keypti mér miða í hljómalind fyrir ca mánuði og það eina sem ég vissi um sveitina var að hún væri frá Kanada og svipaði til SigurRósar. (eða réttara sagt SigurRós svipar til Godspeed)
Ég hafði heyrt að þessi hljómsveit væri algjör snilld og einhver besta tónleikasveit heims og í gærkvöldi get ég sagt að ég hafi sannfærst um það.
Ég fór af stað á tónleikana og bjóst við miklu. Ég mætti á svæðið rétt fyrir 20:30 og var þá stutt röð út úr Óperunni. eftir fimm mínútur teygði röðin sig alla leið upp á Laugarveginn. Fólkinu var hleypt inn 20:45 en það var ekki fyrr en 21:15 sem Stafrænn Hákon steig á svið og hitaði upp í hálftíma. Þá var tekin korters pása. Loksins, loksins stigu svo Godspeed á sviðið. Það var augljóst að menn (og konur) voru í góðum fíling því flestir voru með bjórdósir og svo fékk líka viskíflaska að fljóta með á svið.
Það voru níu meðlimir sem spiluð í gærkvöldi. 2 konur og 7 gaurar. Það voru 3 gítarar, 2 bassar, selló, fiðla, trommur, klukkuspil og kannski eitthvað meira en þetta var það sem ég sá.
Svo hófst spilunin. Fyrstu fimm mínúturnar voru 3500kr virði, eða það sem miðinn kostaði, og ekki voru næstu 2 tímarnir verri. Krafturinn var ótrúlegur. Lögin byrjuðu rólega og smám saman bættust við fleiri hljóðfæri og lagið hækkaði þangað til þakið ætlaði að rifna af húsinu. Svona var spilað eins og áður sagði í ca tvær klukkustundir. Það er hreinlega ekki hægt að lýsa með orðum hve magnaðir þessir tónleikar voru og hvílík upplifun það var að sjá hljómsveitina spila. Ég á hvorki lýsingarorð né málfræði yfir því hvernig upplifun þetta var. Það er kannski til marks um það þegar venjulegum tónleikum þeirra lauk þá voru þeir klappaðir upp og tóku auka lag, en ég hef aldrei á ævinni klappað jafnmikið eða heyrt jafnmikið klappað á tónleikum eða nokkur staðar bara. Ekki nóg með að hlusta á tónlistina heldur sá maður hana spilaða og er það allt önnur upplifun en einfaldlega að hlusta á diskana. Að sjá líka meðlimina á sviðinu, kraftinn og hæfileikann í spilamennsku þeirra var alveg einstakt. Ég sá líka í fyrsta sinn spilað á trommur með fiðluboga!
Ef þér þykir þetta spennandi umfjöllun lesandi góður þá legg ég til að þú flýtir þér í Hljómalind á Laugarveginum og kaupir þér miða á aukatónleikana sem eru í kvöld. Allar upplýsingar er að finna á www.hljomalind.is og trúðu mér þú munt ekki sjá eftir peningunum þínum ef þú ferð. Tónleikarnir voru teknir upp af Rás 2 og verða líklega spilaðir einhvern tímann ef Godspeed leyfir en ef þú hefur tækifæri á að komast í kvöld þá legg ég til að þú farir.
Það væri glæpur að missa af þessum tónleikum.