Bráðum mun Pearl Jam byrja að skoða hvar og hvernig þeir munu taka upp næstu breiðskífu sína. Enn er ekki komið á hreint að sögn gítarleikara sveitarinnar, Stone Gossard, hver muni taka plötuna upp eða hvar þeir muni gera það. Þeir segjast hinsvegar í góðum gír og hlakka til hljóðversvinnunnar. Síðasta breiðskífa sveitarinnar, “Binaural” fór beint í annað sæti Billboard listans og hefur selst í um 700.000 eintökum.
Nokkrir heppnir aðdáendur sveitarinnar fengu að bragða á nýja efninu á góðgerðartónleikum sem sveitin lék á í október en þeir félagar segjast hlakka til að hljóðrita efnið. Þetta verður sjöunda breiðskífa Pearl Jam og líklega sú síðasta sem þeir gera fyrir Epic Records því með henni munu þeir með henni uppfylla samning sinn við útgefandann. Á meðan lítið er að gerast hjá Pearl Jam mun Stone Gossard hinsvegar halda áfram að fínpússa þriðju breiðskífu hliðarverkefnis síns, hljómsveitarinnar Brad.