Hér áður fyrr fór fólk í tónlistarbúðir og keypti sér plötur sem það hafði heyrt að væri e.t.v. eitt gott lag á og tók með því þá áhættu að öll hin lögin væru góð. Í dag fer fólk hinsvegar inn á uppáhalds niðurhalssíðuna sína og sækir sér, með löglegum eða ólöglegum hætti, lagið eða lögin sem það langar að eiga.
Undanfarin ár hefur mikil tölvuvæðing átt sér stað í tónlistarheiminum eins og margir hafa orðið varir við. Ekki einungis hefur tónlist komist í ólöglega dreifingu á internetinu heldur eru flestar nútíma tónlistarstefnur gerðar mestmegnis á stafrænu formi. Auk þess hafa hip hop, rapp, R&B og teknó hljómsveitir aukist á markaðnum og eru meira við völd en áður. Þó þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að sjá og heyra að öll tónlist var tekin upp á band í stórum og dýrum hljóðverum.
Mörgum kann að mislíka þessi tölvuvæðing og ólöglega dreifing en þó má ekki dæma hana of hart því það opnast svo margir skemmtilegir og framandi möguleikar í kjölfarið. Nýjar íslenskar hljómsveitir eru sífellt að skjóta upp kollinum enda þurfa hljóðver ekki að vera stórum og þungum tækjum gædd eins og áður fyrr. Það sem þarf ef þig langar til að taka upp eða semja tónlist er einungis hæfilega hraðvirk heimilistölva, lítið hljómborð og e.t.v. einn ágætur míkrafónn ef þú vilt taka eitthvað upp t.d. söng, og þá er hægt að fá á góðu verði í næstu tónlistarbúð.
Vitanlega er ekki allt gott við þessa þróun mála. Margir tapa stórfé, enda fer nánast allt sem gefið er út beint á netið (þetta á einnig við um kvikmyndir). Aftur á móti fá tónlistarmenn mun meiri spilun hvort sem það er löglegt eður ei!
Ekki má gleyma öllum tónlistarmyndböndunum sem gefin eru út ár hvert, hvort sem þau eru heimagerð eða tekin upp af fagfólki. Vefsíður eins og www.youtube.com og www.myspace.com eru stórir þátttakendur og jafnvel vettvangur nútíma tónlistarlífs.