Við vorum að fá í hús fullt af áhugaverðum titlum frá Sub Pop, Deathwish Inc., Ministry of Sound, Hydra Head o.fl. Annars erum við að tala um nýju plötu The Shins, The Black Angels og fullt af öðru eðal gumsi sem má japla vel á.
5ive - Versus
Drone-þungarokksveitin 5ive hefur verið iðnir við kolann frá 2001 og gefið út þónokkrar breið- og þröngskífur. Versus er nýjasta þröngskífa þeirra félaga og inniheldur hún fjögur lög en þó er hún rétt um hálftími að lengd. Versus inniheldur m.a. tvær endurhljóðblandanir frá hinum merka tónlistarmanni Justin Broderick sem á árum áður gerði út hina merku Godflesh en er nú leiðtogi Jesu sem gerir seigfljótandi industrial-músík með skírskotanir í My Bloody Valentine, Ride og Motörhead.
The Black Angels - Passover CD & LP
Það má segja sem svo að sækadelíu-rokksveitin The Black Angels hafi stimplað sig inn á kortið með fyrstu breiðskífu sinni í fyrra. The Black Angels koma frá hinni merku tónlistarborg Austin í Texas sem hefur alið af sér sveitir á borð við …Trail of Dead, Spoon og að ógleymdum ZZ Top. Passover ætti að falla vel í kramið hjá unnendum Velvet Underground, Jesus and Mary Chain, 13th Floor Elevators og Brian Jonestown Massacre.
The Black Angels - First Vietname War 7"
Boris With Merzbow - Sun Baked Snow Cave
Boris kom sá og sigraði með sjöundu breiðskífu sinni, Pink, í fyrra. Sú skífa halaði inn sætum á innlendum og erlendum árslistum. Boris er japanskt þríeyki og hefur verið starfrækt frá árinu 1994 og skipa sveitina Takeshi, Wata og Atsuo. Tónlist þeirra er þung, seigfljótandi og hnausþykk blanda urrandi gítara og ástríðufullum söng. Lög þeirra eru á köflum sveimandi en engu að síður alltaf stutt í tryllingin. Ímyndið ykkur Sigur Rós á sterum, drekkandi gambra og að þeir geri ekkert annað en að hlusta á sækadelísk bönd á borð við Blue Cheer, Iron Butterfly og svo harðari bönd á borð við Motörhead, Guitar Wolf og Melvins. Hér eru Boris á ferð með hávaðameistaranum Merzbow (e.þ.s. Masami Akita).
Botch - Unifiy Themees Redux
Botch eru löngu goðsagnakennd sveit. Sveitin var stofnuð í Seattle árið 1993 og skapaði sér sess með framsæknum og hörðum rokksveitum á borð við Converge, Isis og Drive Like Jehu. Þegar sveitin lagði upp laupana um aldarmótin skildi hún eftir arfleið og áhrif. Meðlimir Botch spila í dag í sveitum á borð við Minus The Bear og These Arms Are Snakes sem eru öðruvísi en alls ekki síðri.
Botch - 061502 CD+DVD
Botch - American Nervoso
Comets On Fire - Avatar LP
Það er ekki orðum ofaukið að Comets On Fire beri höfuð og herðar yfir afturhvarfsrokksveitir samtímans. Þessi Kaliforníu-ættaða sveit hefur gefið út fjórar breiðskífur og hafa síðustu tvær verið gefnar út af hinu merka útgáfufélagi Sub Pop í Seattle. Sveitina leiða gítarleikararnir Ethan Miller og Ben Chasny. Sá fyrrnefndi syngur einnig og rekur Ben Chasny einnig hina frábæru þjóðlagasveit Six Organs Of Addmittance. Á Avatar hafa Comets On Fire aldrei verið hnitmiðaðri þó svo að alltaf sé stutt í trylltan spunann. Comets On Fire sækja í brunn eldri meistara á borð við Grateful Dead, Blue Cheer, Stooges og Jimi Hendrix og gera það vel.
Converge - No Heroes LP
No Heroes er nýjasta breiðskífa Íslandsvinanna í Converge. Eins alvöru rokksveitum sæmir þá eru Converge ávallt í stöðugri þróun og sókn. No Heroes er gróf, groddaraleg og vönduð.
Converge - Petitioning Forever LP
Converge - You Fail Me LP
Converge - Unloved & Weeded Out
Converge/Hellchild - Deeper The Wound
The Free Design - Redesigned 12"
Þessi vanrækta en snilldarlega 60´s sækadelíupoppsveit öðlast nýtt líf með aðstoð Danger Mouse, Madlib, Stereolab, Belle and Sebastian, Super Furry Animals o.fl. valinkunnra listamanna.
The Free Design - Redesigned 2 12"
Menomena - I Am The Fun Blame Monster
Fyrsta breiðskífa Menomena. Þeirra nýjasta, Friend and Foe, hefur verið að gera það mjög gott.
Neko Case - Furnace Room
Neko Case hefur gert það gott á sólóferli sínum sem og með hljómsveit sinni The New Pornographers. Hún hefur gjarnan verið kölluð svar jaðarkántrísins við k.d. lang, Dolly Parton og Loretta Lynn. Á Furnace Room nýtur hún dyggrar aðstoðar Ron Sexsmith og Kelly Hogan úr Rock*A*Teens.
Pelican - The Fire In Our Throats Will Beckon The Thaw 2xLP
Nýjasta breiðskífa hinnar raddlausu doom-metal sveitar Pelican frá Chicago. Frábær skífa í anda sveita á borð við Neurosis, Isis, Mogwai og Explosions In The Sky. Tvöfaldur vínill!!!
The Shins - Wincing The Night Away
Nýjasta breiðskífa The Shins loksins fáanleg eftir nokkra bið.
The Sword - Age Of Winters
Age Of Winters er fyrsta breiðskífa Texas-sveitarinnar The Sword. Sveitin spilar þungt rokk sem runnið er undan rifjum merkra sveita á borð við Black Sabbath og Pentagram. Hljómsveitin vakti snemma athygli á sér fyrir góða tilburði á tónleikum fór snemma í kjölfarið að spila með þekktum nöfnum í rokkgeiranum. Á fyrsta starfsári sínu afrekaði sveitin að hita upp fyrir ekki ómerkari sveitir en Mastodon, High On Fire, Wolfmother og And You Will Know Us By The Trail of Dead en söngvari síðast nefndu sveitar, Conrad Keeley, hannaði umslag plötunnar.
Ný danstónlist frá Ministry of Sound og Hed Kandi:
Ýmsir - Clubbers Guide 2007 2CD
Ýmsir - Dance Energy 2CD
Ýmsir - Nu Cool 2CD
Ýmsir - Twisted Disco 2CD
Bestu kveðjur,
Benni