Sérstakir íslenskir gestir á HEAVY TRASH tónleikunum á Nasa 26. maí n.k. verða meðlimir hljómsveitarinnar Fræ sem munu stíga á stokk og flytja lög af fyrstu plötu sveitarinnar, “Eyðilegðu þig smá”, sem er væntanleg í verslanir um næstu mánaðamót. Fræ munu hafja leik klukkan 22.00 og í kjölfarið koma The Tremolo Beer Gut og Powersolo. Aðalnúmer kvöldsins, hljómsveitin Heavy Trash með þá Jon Spencer og Matt Verta Ray innanborðs mun svo hefja leik upp úr miðnætti og rokka fólki inní nóttina með ógleymanlegum hætti.
Hljómsveitina Fræ skipa Palli úr hljómsveitinni Maus, Heimir og Siggi úr Skyttunum og Silla, sem einnig er þekkt sem Mr. Silla. Sveitin hóf upptökur á nýju efni s.l. sumar og stefnan var fljótlega sett á útgáfu á geislaplötu á þessu ári. Platan var kláruð undir lok síðasta árs og er öll unnin af hljómsveitarmeðlimum sjálfum. Upptökurnar voru gerðar hvar sem þau fengu inni hverju sinni og meðal viðkomustaða á upptökuferlinu voru Klink og Bank sáluga og höfuðstaður Norðurlands, Akureyri. Lagið þeirra “Freðinn fáviti“ hefur notið mikilla vinsælda upp á síðkastið og náði m.a. toppsæti á vinsældarlista X-ins977. Nýtt lag, “Dramatísk rómantík”, er væntanlegt í spilun fljótlega.
Á plötunni koma fjölmargir góðir gestir til aðstoðar, þ.á.m. Ragnar Kjartansson úr hljómsveitnni Trabant, listamaður með meiru, Anna Katrín söngkona, barnakór og
strengjakvintett. Á tónleikunum á Nasa bætast í hópinn Danni trommari, úr hljómsveitunum Maus og Sometime, og Friðfinnur sem spilar á bassa en þeir munu koma til með að fylgja plötunni eftir með sveitinni. Eins og fyrr sagði er fyrsta plata Fræ væntanleg í búðir nú um mánaðarmótin næstu og er henni dreift af 12 tónum.
Tónleikar Heavy Trash, Powersolo, The Tremolo Beer Gut og Fræ verða á Nasa í Reykjavík föstudaginn 26. maí og miðasala er hafin í verslunum Skífunnar og á miði.is. Miðaverð er aðeins 1.950 krónur.
Kær Kveðja