Ég skrapp á frábæra tónleika á dögunum með melónkólíukántrýsveitinni The Funerals sem haldnir voru í Hlaðvarpanum. Eftir svolítið langa bið fóru snillingarnir upp á svið og byrjuðu á slagaranum Puppy Eyes sem er alveg sérstaklega fallegt lag. Tónlistin þeirra minnir eilítið á Tindersticks og Leonard Cohen, dimm, drungaleg en The Funerals eru að vísu með Ragga Kjartans í farabroddi þannig að maður veit ekki alveg hvort þeir séu að meina þetta.
Hljómsveitina The Funerals skipa frekar áhugaverðir karakterar og lög hljómsveitarinnar fjalla um sjálfsfróun, of ríka kærustu, tilfinninguna að fá mynd af sér í blöðunum og þar fram eftir götunum og stóðu Toggi, Doddi, Raggi, Viddi og Óli sig með stakri prýði enda allir mjög hæfileikaríkir spilarar. Á eftir Puppy Eyes kom titillag fyrstu plötu hljómsveitarinnar Pathetic Me en okkur var kennt viðlagið: “Pathetic Me, right hand set me free..” Hljómsveitarmeðlimir höfðu víst allir lent í því að fá það heima með sjálfum sér þegar gellurnar finnast ekki, allir nema Toggi náttúrulega.
Toggi sló svo í gegn þegar hann stóð upp frá trommunum og leiddi salinn í drykkjusöng….hann er með magnaða rödd og eftir þrjú uppklappslög var strákunum loks hleypt niður af sviðinu. Þetta voru því miður síðustu tónleikar bandsins í nokkurn tíma vegna þess að Óli er á leiðinni aftur til Kaupmannahafnar þar sem hann leggur stund á arkitektúr en ekki örvænta, platan Pathetic Me kemur út hjá Thule á næstu vikum. Hvað væri íslenskt menningarlíf án Ragnars Kjartansonar og félaga?