Tónlist í tímans rás Þetta er heimildaritgerð sem ég og félagi minn gerðum í ísl203 á dögunum og er alveg þónokkuð góð þótt ég segi sjálf frá. Datt í hug að setja hana hér til að gleðja hjörtu annarra.


Inngangur:

Tónlist hefur fylgt mannkyninu um alla tíð. Hefur hún þá gegnt mismunandi hlutverkum í hugum manna, bæði til að þroska andann, til skemmtunar og dægradvalar, eða sem atvinna. Almennt er tónlist skilgreind sem runa af hljóðum og þögnum sem er raðað upp á listrænan máta.
Eins og nafnið bendir til, samanstendur flest tónlist af svonefnum tónum. Yfirleitt er tónn skilgreindur sem “hljóð með fasta tíðni; grunneining í tónlist. Tíðni ræður tónhæð, sveifluvíddin ræður tónstyrk og fjöldi og styrkur yfirtóna mótar tónblæ sem er mismunandi eftir tóngjöfum”.
Hve lengi hefur tónlist verið talin sem listform? Hvaða hljóðfæri voru til fyrir nokkrum öldum síðan? Hverjir voru frumkvöðlar í nýjum tónlistarstefnum? Og hvað telst sem nútímatónlist? Þessum spurningum og mörgum öðrum til verður svarað hér á eftir, á sem skilmerkasta máta.


Miðaldir(500-1450)

Að mestu var notast við röddina sem hljóðfæri á miðöldum. Í upphafi tímabilsins var einröddun ríkjandi, en seinna meir fór fjölröddun að tíðkast. Einu heimildirnar frá þessum tíma um tónlist eru frá klerkum, svo að mest er vitað um trúarlega tónlist á miðöldum.
Ekki ríkti mikil fjölbreytni í listgreinum á miðöldum, þar sem kirkjur stjórnuðu öllu menningarlífinu, og reyndu að útrýma öllu sem kirkjunnar menn töldu ósiðlegt. Ekki má þó gleyma því að þjóðlagatónlist lifði góðu lífi þó henni væri ekki gert hátt undir höfði.
Helstu tónskáld þessa tíma voru Hildegard von Bingen, Leoninus og Perotinus frá Notre Dame, og Guillaume de Machaut.
Helstu hljóðfærin á þeim tíma, fyrir utan mannsröddina, voru kornett, flautur, lútur, mandólín, sítarar, og frumstæð orgel, básúnur og fiðlur.


Endurreisn(1450-1600)

Rómverjar vildu reyna að endurvekja glæsileika fornaldar, og farið var að upphefja allt listrænt. Helsta markmið tónlistarmanna var að ná tökum á túlkun mannlegra tilfinninga í tónlist. Hún fór einnig að vera aðgengilegri almenningi þegar hún byrjaði að heyrast utan kirknanna. Þá var líka búið að finna upp prentvélina, svo að útgáfa verka varð algengari og útbreiddari.
Textinn fór að vera mikilvægari hluti af tónlistinni, og notkun hljóðfæra jókst.
Helstu tónskáld þessa tíma voru Josquin des Pres og Carlo Gesualdo.
Vinsælustu hljóðfærin á Endurreisnartímabilinu voru blásturshljóðfæri með blaði(t.d. hljóðfæri skyld klarinettum og óbóum), blokkflautur, lútur og víólur.

Barokk(1600-1750)

Tegundafjöldi tónverka jókst, og breyttist ört í takt við samfélagið. Tónskáldin reyndu að lýsa tilfinningunum sjálfum í verkum sínum, en ekki sínum eigin tilfinningum. Mikið var um skraut og flúr, og endurspeglast það jafnt í tónlistinni sem og öðrum listgreinum. Einnig var klæðnaður íburðamikill og byggingar tígulega skreyttar. Bassalínur urðu ríkjandi. Óperan varð til og sló í gegn. Þá reyndu menn að semja margar óperur til að anna eftirspurn, en kom það niður á gæðum og frumleika þeirra.
Konsertar fyrir einleikara urðu einnig til. Forleikir að óperum urðu smátt og smátt að sjálfstæðum verkum, er kölluðust sinfóníur.
Helstu tónskáld þessa tíma voru Johann Sebastian Bach, George Friedrich Händel og Antonio Vivaldi.
Vinsælustu hljóðfærin á þeim tíma voru sembalar, orgel og fiðlur.


Klassík(1750-1810)

Synir Johanns Sebastian Bach brúuðu bilið á milli barokks og klassíkur. Verk klassíska tímabilsins einkennast af hreinleika og tærleika. Tónlist fór að fá það hlutverk að gleðja og skemmta fólki. Nýjar áherslur skutu rótum, svosem í takti, styrk og laglínu. Klassíska sinfónían, sónötur og strengjakvartettar mótuðust. Rokokóstíllinn réði ríkjum.
Helstu tónskáld þessa tíma voru Wolfgang Amadeus Mozart, Joseph Haydn og Ludwig van Beethoven.
Aragrúi hljóðfæra var í notkun á þessum tíma, en píanó og fiðlur voru vinsælli sem aldrei fyrr.


Rómantík(1810-1910)

Ólíkt hinni skipulögðu og fullkomnu klassík, einkenndist rómantíkin af frelsi, hreyfingu, ástríðum og endalausri sókn í það sem aldrei gæti orðið, þrá og trega. Rómantíska tónlistin átti margt sameiginlegt með rómantískum bókmenntum, og þær voru nokkuð samofnar listastefnur. Gífurleg fjölbreytni var í gangi.
Helstu tónskáld þessa tíma voru Richard Wagner, Franz Schubert, Frédéric Chopin og Pyotr Ilyich Tchaikovsky.
Rómantíska tímabilið skiptist í tvo hluta; þann fyrri(1815-1850) og þann seinni(1850-1910). Rómantískar óperur urðu til, og píanókonsertar slógu rækilega í gegn.
Miklar breytingar urðu á samfélaginu á þessum tímum byltinga, og sjást merki þess greinilega á tónlistinni.
BMR – Tónlist/Saga „Rómantíska tímabilið”
,,Litróf hljóðfæranna tók stökk - krafan um ný, fallegri, kröftugri, mýkri eða bara öðruvísi hljóð í tónlistinni varð hávær og hljóðfærin breyttust eða aðferðir við að spila á þau”.


Nútíminn(1900-)

Á tuttugustu öldinni fóru straumar og stefnur að breytast. Þá kom rafmagn til sögunnar og þá var hægt að rafmagna hljóðfæri. Einnig breytti upptökutækni miklu. Fólk þurfti ekki lengur að fara á tónleika til að heyra tónlist, það þurfti eingöngu að kveikja á útvarpi, sjónvarpi, eða setja plötu á fóninn. Mörk milli tónlistartegunda urðu mjög þokukennd, og upplýsingaöldin tók völdin.
Rokk, jazz og blústónlist kom til sögunnar og tryllti lýðinn; unga fólkið spratt í dansæði, á meðan þau eldri fussuðu og sveiuðu. Hver gat farið að velja tónlist við sitt hæfi, og menningin fór að litast meira af tónlistinn sjálfri.
Á miðjum fimmta áratug tuttugustu aldarinnar, varð til tónlistarstefnan ,,Rokk og ról”, eða ,,Vagg og velta” eins og hún kallaðist á ástkæra ylhýra. Hún sló samstundis í gegn hjá unga fólkinu og hafði gríðarleg áhrif á þróun heimsmála á þessarri öld tækni og breytinga. Rokkið þróaðist svo út í margar ólíkar tónlistarstefnur, og meðal þeirra helstu má telja pönkið, málminn(metal), indí, grugg, og svo auðvitað popptónlist nútímans. Helstu áhrifamenn rokk- og popptónlistar eru jafn margir og þeir eru ólíkir, svo nánast ómögulegt er að hefja einhverja upptalningu.

Lokaorð

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir, hefur tónlistariðkun verið stunduð meðal mannkynsins frá örófi alda. Tónlistin lifir og hrærist með samfélaginu, breytist sífellt og endurspeglar tíðarandann, en á þó alltaf fastan sess í hjarta okkar. Einnig hefur hún þróast með sífelldum tækniframförum sem leiða til nýrra hljóðfæra sem gefa tónlistinni aftur nýjan blæ. Í dag er tónlistin allstaðar, hvert sem við lítum. Blasir hún við okkur, berskjölduð og fögur, eins og Vatnsnesfjallið á hálfrökkvuðu haustkvöldi.




Heimildaskrá

BMR - Tónlist/Saga. ,,Barokktímabil” http://www.simnet.is/rafnk/music/tonlist.htm#barokk

BMR – Tónlist/Saga. ,,Nútíminn” http://www.simnet.is/rafnk/music/tonlist.htm#nutiminn

Íslenska alfræðiorðabókin P-Ö, 1990:415. Ritstjórn Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir. Örn og Örlygur, Reykjavík.

Tónlist í tímans rás. ,,Barokk” http://www1.nams.is/tonlistarvefur/src/pg_general.php?id=16

Tónlist í tímans rás. ,,Endurreisn” http://www1.nams.is/tonlistarvefur/src/pg_general.php?id=64

Tónlist í tímans rás. ,,Klassík” http://www1.nams.is/tonlistarvefur/src/pg_general.php?id=19

Tónlist í tímans rás. ,,Miðaldir” http://www1.nams.is/tonlistarvefur/src/pg_general.php?id=18

Tónlist í tímans rás. ,,Rómantík” http://www1.nams.is/tonlistarvefur/src/pg_general.php?id=22

Wikipedia – frjálsa alfræðiritið. ,,Medieval Music” http://en.wikipedia.org/wiki/Medieval_music

Wikipedia – frjálsa alfræðiritið. ,,Romantic Music” http://en.wikipedia.org/wiki/Romantic_music

Wikipedia - frjálsa alfræðiritið. ,,Tónlist” http://is.wikipedia.org/wiki/Tónlist