Iron Maiden héldu tónleika í Egilshöllinni 7. júní sl. Ég held að þeir hafi ekki ollið neinum vonbrigðum, a.m.k. ekki hörðum aðdáendum sínum. Orkan í sveitinn var alveg ótrúleg, menn flugu nánast um sviðið allan tímann og þar var Bruce Dickinson í fararbroddi, eins og hann væri 20 ára gamall, stútfullur af orku, hoppandi og hlaupandi út um allt sviðið. Þvílíkt og annað eins form sem maðurinn er í. Ekki að sjá á honum að hann sé að verða 47 ára gamall! Það er alltaf gaman að sjá þegar svona “eldri” hljómsveitir kunna þetta ennþá, gefa yngri arftökumn sínum langt nef og setja þeim gott fordæmi. Enda eru Iron Maiden örugglega sú hljómsveit sem flestir ættu að taka sér til fyrirmynda. Þrátt fyrir áratugi á hátindi rokkheimsins hafa þeir aldrei verið í neinu rugli, aldrei verið í fíkniefnaneyslu og verið hófsamir á áfengisneyslu. Það er kannski fyrst og fremst ástæðan fyrir því að þeir hafa enst svona lengi og hafa náð að halda úti þessum háa “caliber” á tónleikum sem þeir búa yfir.
Þeir tóku eingöngu lög af fyrstu 4 plötum sínum (Iron Maiden [1980], Killers [1981], The Number of the Beast [1982] og Piece of Mind [1983]), sem var bæði kostur og galli í senn. Efnið af þessum plötum er náttúrulega tímalaus klassík og því voru tónleikarnir uppfullir af klassískum, kraftmiklum Iron Maiden slögurum, flest efni sem maður kannaðist við en inn á milli voru lög sem maður þekkti samt ekki, svo ég tali nú fyrir sjálfan mig. Það voru þó þónokkuð margir sem maður sá þarna sem sungu hástöfum með hverju einasta lagi, alvöru, gallharðir aðdáendur sem þekktu þetta greinilega allt saman eins og handarbakið á sér. En fyrir vikið var líka heilmikið af efni sem þeir spiluðu ekki, sem maður hefði viljað heyra, efni sem manni finnst nánast að megi bara ekki missa sín á Iron Maiden tónleikum. Þar má nefna lög eins og Aces High, Fear of the Dark, 2 Minutes to Midnight, Heaven Can Wait o.fl. En hvað sem því líður þá var þetta samt alveg frábært. Uppáhaldslögin mín sem þeir tóku þarna voru The Trooper og Phantom of the Opera. Ég ætlaði bara ekki að trúa eigin eyrum þegar þeir byrjuðu á Phantom… Þvílík endemis snilld, enda eitt af mínum allra uppáhalds lögum með þeim og sárasjaldan sem þeir taka þetta á tónleikum! :)
Sviðsmyndin skapaði líka alveg frábæra stemmningu í kringum bandið. Á veggnum fyrir aftan þá voru ýmsar myndir teiknaðar af sama manninum og teiknar plötuumslögin þeirra, og voru þær yfirleitt í þema við það sem lagið fjallaði um. Alveg magnaðar myndir! Svo fengum við auðvitað að sjá Eddie, skrímslið þeirra, stíga á svið undir lokin. Classic Iron Maiden! ;)
Hljóðkerfið var samt ekki alveg nógu gott þarna fannst mér. Fyrir það fyrsta þá bjóst maður við miklu meiri krafti og miklu tærara soundi. Svo heyrðist mjög misjafnlega í söngnum. Á köflum heyrði maður nánast ekkert í Bruce þar sem röddin kæfðist hreinlega bara í hljóðfæraleiknum. Gítarsoundið var líka mjög misjafnt. Það heyrðist reyndar alltaf vel í Dave Murray, en það virtist stundum ekki heyrast nógu vel í Adrian Smith og Janick Gers. Svo heyrði maður að það hefði farið svolítið eftir því hvar maður stæði í höllinni hvað heyrðist vel. Ef svo er, þá er þetta eitthvað sem Egilshallarmenn verða að athuga betur og laga fyrir komandi tónleika.
Ef við berum þetta saman við Metallica tónleikana frá því í fyrra, þá fannst mér Metallica tónleikarnir einhvernvegin miklu stærri og meiri í sniðum. Kannski er það bara hvernig maður miklar svona hluti upp fyrir sér í minningunni. Ég veit það ekki en mér fannst sviðið hjá Metallica allavega vera miklu hærra og stærra og mér fannst miklu meira af fólki, enda munaði um 3.000 manns allavega. Það var einmitt mjög sterkur leikur hjá þeim að takmarka fjöldann niður í 15.000 fyrir þessa tónleika. Fyrir vikið var miklu meira svigrúm og hitinn var ekki nærri því eins mikill. Það var greinilegt að þeir lögðu mikla áherslu á að loftkælingin yrði alveg í toppstandi eftir skandalinn í fyrra. Maður fann kælandi gusta leika um salinn með reglulegu millibili og maður gat allavega staðið og horft á án þess að svitna eins og langhlaupari.
En allt í allt var þetta aklveg frábær skemmtun og ég tek ofan fyrir meisturum Maiden. Þetta eru fagmenn út í gegn sem kunna svo sannarlega að halda tónleika!