Sunnudaginn 20. febrúar kl. 20:00 munu Kammerkór Hafnarfjarðar og Stórsveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar ásamt Kristjönu Stefánsdóttur söngkonu, flytja Sacred Concert eftir Duke Ellington í Víðistaðakirkju, Hafnarfirði.
Almennt miðaverð er 1500 kr. en 700 kr. fyrir nemendur og eldri borgara. Miðar verða seldir við innganginn, en þá má einnig kaupa hjá félögum í kórnum og stórsveitinni eða panta í netfanginu midar@kammerkor.is. Styrktarfélagar kórsins fá að sjálfsögðu frímiða á tónleikana.
Um höfundinn
Edward Kennedy „Duke” Ellington var einn merkasti jazztónlistarmaður síðustu aldar. Hann fæddist í Washington 29. apríl árið 1899 og hóf ungur að spila á píanó. Árið 1923 fluttist hann til New York ásamt hljómsveit sinni The Washingtonians og spilaði þar á ýmsum klúbbum næstu árin. Duke og hljómsveit hans hlutu fyrst verulega frægð þegar þeir voru ráðnir sem hljómsveit hússins á hinum sögufræga Cotton Club í Harlem. Eftir nokkur ár sagði Duke skilið við klúbbinn en þá var hljómsveitin orðin svo fræg að þeir þurftu ekki lengur á föstu kvöldunum að halda. Fram til loka sjöunda áratugarins ferðaðist Duke vítt og breitt með hljómsveit sína, kom fram í mörgum kvikmyndum og lék inn á ótal plötur. Eftir að Duke komst á áttræðisaldur hægðist aðeins um hjá honum en þó sat hann aldrei auðum höndum, heldur hélt áfram að spila, stjórna og semja jazz. Duke Ellington lést í New York 24. maí 1974.
Á hinni löngu og afkastamiklu ævi sinni skrifaði Duke ógrynnin öll af tónlist, einkum jazzstandördum en einnig alvarlegri tónlist, samanber heilögu konsertana og svítu hans Black, brown and beige. Meðal frægra laga Dukes má nefna It don't mean a thing, Satin doll, Mood indigo og The mooche.
Um verkið
Á árunum 1965-1973 samdi Duke Ellington þrjá „heilaga konserta” fyrir stórsveit, kór og einsöngvara. Hinn fyrsti var saminn að beiðni forráðamanna Grace dómkirkjunnar í San Fransisco og var frumfluttur þar á eins árs vígsluafmæli kirkjunnar 16. september 1965. Auk stórsveitar Dukes tóku söngvararnir Jon Hendricks, Esther Marrow og Jimmy McPhail og steppdansarinn Bunny Briggs þátt í frumflutningnum. Verkið fékk góðar undirtektir, bæði meðal leikmanna og kirkjunnar þjóna, var tekið upp á plötu og hlaut Grammy-verðlaun sem besta jazztónsmíð ársins.
Þessar góðu viðtökur hvöttu Duke til að skrifa annan konsert með trúarlegum texta. Sá var frumfluttur af stórsveit Dukes, söngvurunum Alice Babs og Tony Watkins og hundrað manna kór í kirkju Skt. Jóhannesar í New York 19. janúar 1968. öðrum konsertnum var einnig mjög vel tekið og Duke flutti það víða, m.a. í Stokkhólmi, París og Barcelónu. Upptaka af verkinu fékk „allar stjörnunar á himni guðs” í tónlistartímaritinu Down Beat þegar hún kom út árið 1969.
Duke fullyrti að þessir síðari konsert væri mikilvægasta tónsmíð sem hann frá honum hefði komið og þegar fór að halla undan fæti hjá honum eyddi hann allri orku sinni í að skrifa þriðja konsertinn. Sá var frumfluttur í Westminster Abbey í London 24. október 1973 af stórsveitinni, Alice Babs og saxófónleikaranum Harry Carney. Þriðji konsertinn er hljóðlátari en hinir tveir og í honum fá söngvarinn, saxófónleikarinn og píanistinn meira rými.
Um þessa útgáfu
Þegar Duke ferðaðist um heiminn með stórsveit sína og flutti efni úr konsertunum þremur var dagskráin ekki sérlega föst í formi; yfirleitt voru nokkrir kaflar úr hverjum konsert fluttir og oft ekki ákveðið fyrr en á tónleikum hvaða kaflar yrðu fyrir valinu. Þetta er sennilega ástæðan fyrir því að nóturnar að konsertunum eru hvergi til í heild sinni. Önnur afleiðing þessa er sú að kórkaflarnir voru yfirleitt sungnir einradda, enda var ekki mikill tími til æfinga á konsertferðalögum þar sem nýr kór söng á hverjum stað.
Árið 1993 var John Høybye beðinn um að leiða námskeið um heilögu konserta Dukes. Þar sem engar nótur voru til af tónlistinni, heldur einungis upptökur, ákvað hann að útsetja valda kafla úr konsertunum þremur. Hann fékk hinn þekkta danska stórsveitarstjórnanda Peder Pedersen í lið með sér og saman völdu þeir tíu kafla úr konsertunum þremur, þó flesta úr öðrum konsertnum, og gáfu þá út undir nafninu Sacred Concert. Í útgáfu þeirra félaga er hljómsveitarsetningu Dukes fylgt eins og hægt er en kórnum gert mun hærra undir höfði en í upphaflegu konsertunum.
Kaflarnir eru:
Praise God - introduction
Heaven
Freedom-suite
a. To be contended
b. Freedom
c. Word you heard
d. Freedom is a word
e. Sweet, fat and that
f. Freedom - Svoboda
g. To be contended
The Shepherd
The Majesty of God
Come Sunday
David danced before the Lord
Almighty God
T.G.T.T.
Praise God - finale
Missið ekki af einstökum viðburði í tónlistarlífi sunnudaginn 20. febrúar kl. 20:00.
———————————————–
Þessi texti er birtur með leyfi höfundar og má nálgast textann með myndum á:
Hér er svo síða Kammerkórs Hafnarfjarðar: