Ég var að koma heim af rétt mögnuðum píanótónleikum Víkings Heiðars Ólafssonar í Salnum og langaði að segja aðeins frá þeim.
Byrjum á flytjandanum sjálfum.
Víkingur Heiðar er fæddur árið 1984, sem þýðir að hann er aðeins á sínu 21. aldursári. Hann hóf píanónám aðeins 5 ára gamall og er núna í tónlistarháskólanum Juilliard í New York.
En aftur að tónleikunum.
Á efnisskránni voru eftirtalin lög:
Krómatísk fantasía og fúga, eftir Bach
Kreisleiana op. 16 - Fantasíur, eftir Schumann
15 ungverskir bændadansar, eftir Bartók
Fantasía “Wanderer”, eftir Schubert
Eftir mikið lófatak frá áheyrendum spilaði hann svo Mazurka op. 50 #3, eftir Chopin og í lokin spilaði hann fallegt lag sem hann samdi sjálfur til ömmu sinnar.
Leikur Víkings er í senn kraftmikill og einlægur og áheyrendur sátu sem dáleiddir. Það beinlínis geislar af honum þegar hann spilar og hann er einstaklega hæfileikaríkur tónlistarmaður sem ég efast ekki um að nái gríðarlega langt í framtíðinni.
Takk fyrir mig :)