Plötur ársins 2004 *Birtist einnig hér*

Það er margt einfaldara en að gera 10 ítema lista yfir jafn yfirgripsmikið fyrirbæri og plötuútgáfu heils árs. Þær eru talsvert fleiri en 10 plöturnar sem ég hefði feginn viljað troða á þennan lista, en því miður er bara pláss fyrir 10 stykki á topp 10 lista. Eftirfarandi plötur eru að mínu auðmjúka mati þær bestu ársins 2004:

10. The Foreign Exchange - Connected

Þægilegri gerast hiphop plötur ekki. Connected er skilgreiningin á smooooth, laid-back hiphoppi. Minnir að vissu leyti á Common, án þess að ég vogi mér að líkja rímnasnilli hans við Little Brother meðliminn Phonte, þó góður sé. Hollenski taktsmiðurinn Nicolay skapar hér frábært, milt R&B fyrir Phonte að sparka sínum mis-streetwise rímum yfir, sem allar eiga það þó sameiginlegt að vera, eða a.m.k. hljóma, einlægar, og það er það sem mestu máli skiptir. Connected er plata sem smellpassar hvar sem er, í bílinn, í partýið, við lestur, úti á björtum sumardegi eða hreinlega í einbeitta hlustun. Einstaklega vel heppnuð plata á öllum sviðum.

9. Tom Waits - Real Gone

Það eru til tvær tegundir af Tom Waits. Annars vegar Tom Waits frá Closing Time til One From The Heart, þ.e. 1973-1981 Waits. Melódískur og ljúfur Píanó-Waits. Hins vegar Tom Waits frá Swordfishtrombones til Frankie's Wild Years, þ.e. 1983-1987 Waits. Hrár og harður Gítar-Waits. Síðan árið 1987 hefur hann flakkað á milli þessarra persónuleika. Á Bone Machine frá 1992 var sitt lítið af hvoru, á Mule Variations frá 1999 var ljúfi píanistinn kominn aftur í aðalhlutverkið en árið 2002 komu út tvær plötur, Alice og Blood Money, þar sem mátti greinilega heyra að hann var aftur að nálgast hinn hráa áttunda áratugar Waits. Á Real Gone fullkomnar hann svo hinn hráa og, að margra mati, betri Waits. Real Gone er fyrsta píanólausa plata Waits og aðalundirspilið kemur því frá Marc Ribot, sem ég kýs að kalla einn mesta gítarsnilling tónlistarsögunnar, sem spilar með honum í fyrsta sinn síðan 1987, lýtalaust að vanda. Les Claypool og Brian Mantia úr Primus gera auðvitað bara gott betra, enda ekki við öðru að búast. Real Gone er ekki jafn rosaleg plata og Rain Dogs eða Swordfishtrombones, langt því frá, en góð er hún, og hugsanlega sú besta síðan 1992, þegar Bone Machine kom, sá og sigraði.

8. Franz Ferdinand - Franz Ferdinand

Allt ætlaði um koll að keyra í vor í kjölfar útgáfu fyrstu breiðskífu Skotanna í Franz Ferdinand. Skiljanlega. Allir gátu fundið eitthvað í Franz. Þeir voru öndergránd…en samt ekki. Þeir voru alhliða klúbbavænir…en samt ekki. Þeir voru rétt nógu öndergránd fyrir öndergránd snobbarana, rétt nógu meinstrím fyrir þá sem fannst hallærislegt að vera öndergránd snobbari og nógu andskoti hressir og skemmtilegir fyrir þá sem var skítsama og nenntu ekki að pæla í því. Þeir voru orðnir sannkallað allrahandaband, sem var tæpast eitthvað sem þeir áttu sérstaklega von á. En þessar skjótu vinsældir voru alls engin tilviljun. Það var nefnilega margt mjög gott í gangi hjá Skotunum knáu. Þeim tókst að endurvekja skoskt popp með því að hverfa aftur til nýbylgjunnar, þ.e. tileinka sér og setja í nýtt samhengi dilluna sem flóði út fyrir alla barma New York borgar, okkur hlustendum í hag!

7. Björk - Medulla

Hvar væru Íslendingar án Bjarkar? Akkúrat núna? Líklega á svipuðum stað og við erum. Allir þunnir heima nema þessi rétt tæpu 50% sem eru á leiðinni heim frá Kanarí. Þeir eru þunnir í flugvél yfir Atlantshafi. En að öllu gamni slepptu…Íslendingar væru squat án Bjarkar og með sinni nýjustu plötu sýnir hún enn og aftur hvers vegna. Björk er einstök. Medulla er mjög yfirþyrmandi og áleitin plata, jaðrar við að vera óþægileg, en rétt sleppur. Þess í stað er hún bara falleg og sefandi, laus við allt indöstríal sánd fyrri platna Bjarkar. Það er varla að ég nenni að hafa mörg orð um þessa plötu. Þess er ekki lengur þörf. Það ætti að vera nægur gæðastimpill að vita af þáttöku Robert Wyatt í tveimur lögum.

6. The Fiery Furnaces - Blueberry Boat

Hvað er hægt að segja um Blueberry Boat sem hefur ekki þegar verið sagt? Eflaust alveg ótrúlega margt. Þessi plata verður líklega lengi í umræðunni, enda djöfull mögnuð. Helsta afrek Fiery Furnaces á Blueberry Boat, og jafnframt það sem mér finnst einna merkilegast við hana, er hversu svakalega kaotísk hún er á köflum án þess að verða nokkurn tíma erfið eða óþægileg áhlustunar. Rennur ljúflega í gegn en er alltaf óravíddir frá því að verða eitthvað sem gæti kallast einhæft moð. Maður gleymir því aldrei maður sé að hlusta á tónlist en samt gleypir hún mann ekki. Þetta er enginn hægðarleikur en Friedberger systkinin gera það frábærlega.

5. Madvillain - Madvillainy

Hér höfum við einhverja heitustu hiphop plötu síðustu ára. Madlib tekst hið óhugsandi, þ.e. vera hátt í tvöfalt þéttari en nokkuð á plötu Jaylib, Champion Sound, auk þess sem þetta er mílur á mílur ofan, í rétta átt, frá nokkru sem hann gerði með Lootpack. Allt sem MF Doom hefur upp á að bjóða á Madvillainy er á kalíber sem hvergi hefur sést áður á hans ferli, sem þó spannar góð 15 ár. Ef lög eins og All Caps fá einhvern ekki til að hreyfa a.m.k. hausinn á sér þá væri mér ánægja að úrskurða þann hinn sama látinn.

4. Ghost - Hypnotic Underwold

Hvar er Hypnotic Underworld? Eru hlustir heimsbyggðarinnar stíflaðar? Pitchfork hundsa þá. Íslenskir gagnrýnendur vita tæplega af þeim. Að því er synd og skömm vegna þess að Hypnotic Underworld er framúrskarandi góð plata. Ég hálfskammast mín fyrir að tylla henni ekki ofar en í vesælt fjórða sætið. Japönsku rokkararnir í Ghost hafa verið að í að verða 14 ár og virðast loks hafa náð að finna hinn eina rétta hljóm. Ghost eru proggarar dagsins í dag. Á Hypnotic Underworld taka þeir progg a'la King Crimson og örlí Pink Floyd og róa með það á enn sækadelískari mið sem væru þrúgandi fyrir allra hörðustu Canterbury bönd. Inni á milli má svo finna ekta Bowíska melódramatík og hamslausa búgísprengju í stíl Ian Andersons og félaga í Jethro Tull, svo fátt eitt sé nefnt. Hypnotic Underworld ætti að vera skyldueign, en þar sem fjármunir lesenda eru víst af misskornum skammti dugar skylduhlustun í bili. Þó að ég efist stórkostlega um að nokkur geti látið þessa plötu fram hjá sér fara eftir hljóðdæmi.

3. The Streets - A Grand Don't Come For Free

Mike Skinner skilur sjálfan sig eftir í rykskýi. Mike Skinner ársins 2002 húkir letilegur á ráspól og starir agndofa undir skósóla Mike Skinners ársins 2004. Fylgist með honum fjarlægjast á ógnarhraða og veit að hann mun aldrei komast með tærnar þar sem hann hefur hælana. En hann er samt stoltur af sjálfum sér. Og það af ærinni ástæðu. Það er með ólíkindum hvað Skinner hefur þróast mikið sem tónlistarmaður og hvaða hæðum hann hefur náð á ekki lengri tíma. Original Pirate Material var merkileg plata, líklega þónokkuð merkilegri en A Grand Don't Come For Free, en fyrir fáar sakir aðrar en þær að hún átti fyrsta orðið. Hún var upphafið sem ól af sér það fyrirbrigði sem Mike Skinner er orðinn í dag. A Grand Don't Come For Free er fremri Original Pirate Material að öllu öðru leyti. Ég vona bara að Mike Skinner ársins 2004 verði ekki fyrstur í mark.

2. Scissor Sisters - Scissor Sisters

Skemmtilegasta plata ársins og verður vonandi minnst fyrir annað og meira en eiturhresst Pink Floyd kóver. Scissor Sisters er löðrandi í gleði sem gæti kætt Ebenezer Scrooge á slæmum degi og jafnvel fengið hann til að hrista á sér skankana út og suður. En þrátt fyrir þetta yfirgnæfandi hamingjukóf má, ef vel er að gáð, sjá á þessari plötu gjörvallt tilfinningalitrófið þar sem hver tilfinningin eftir aðra skýtur upp kollinum og þær samlagast hver annarri á einhvern óútskýranlegan hátt innan um píanóglamur, einföld gítarriff og hýran trommuslátt. Scissor Sisters gera enga venjulega tónlist. Satt best að segja á ég frekar erfitt með að skilgreina það nákvæmlega hvers kyns hún er. Stundum finnst mér eins og þeir séu að reyna að votta hljómsveitum eins og 10cc virðingu, en geri bara allt betur en 10cc gerði nokkurn tíma. Það væri einfalt, og kannski ekkert svo mjög fjarri lagi, að lýsa þessu einfaldlega sem taktföstu froðupoppi. Hallærislegu Elton John/Billy Joel krossóveri í diskógalla. En hér býr bara eitthvað meira að baki. Annars myndi þessi plata ekki skora svona hátt hjá mér.

1. The Arcade Fire - Funeral

Það getur aðeins verið ein ástæða fyrir því að Funeral sé hvergi inni á topplista íslenskra gúrúa í fjölmiðlum annarra en Árna Matt. Aðrir hafa bara ekki heyrt hana. Það kemur afskaplega fátt annað til greina, einna helst að þeir séu heyrnarlausir. Funeral er nefnilega það góð plata að ef einhver með smávegis viti hefur hlustað á hana af smávegis viti þá setur hann hana inn á topp 10 listann sinn fyrir árið 2004. Svoleiðis er það bara. Það verður ólýsanlega erfitt fyrir að Arcade Fire að fylgja þessu meistaraverki sínu eftir með einhverju viðlíka áhugaverðu og ég hlakka til að sjá hvort það takist eða hvort sveitin falli í fúlan forarpytt meðalmennskunnar og hreinlega drukkni eins og allt of margir hafa gert eftir glæsileg debjút.


Næstir inn: Devandra Banhart, Mugison, Hjálmar, Modest Mouse, The Go! Team, Nick Cave, Dungen, Comets On Fire, Isis.

Nokkrar plötur lofuðu góðu á árinu en stóðu alls ekki undir væntingum. Plata Beastie Boys, To the 5 Boroughs, var slæm og rennir það styrkum stoðum undir það sem mig hefur lengi grunað. Beastie Boys eru búnir. Eiga ekkert eftir. Heim strákar. Leggja sig.
Það efast vonandi fáir um snilligáfu Tortoise manna. Þó væntanlega mun fleiri núna en fyrir réttu ári. Platan þeirra, It's All Around You, gæti kallast travestía. Tortoise lite. Diet drasl.
Polly Jean Harvey skeit upp á bak með aumkunarverðri sjálfsparódíu á hina reiðu ungu konu sem hún eitt sinn var. Uh Huh Her er óþörf og vandræðaleg plata.
Morrissey fékk satanískt oflof fyrir You Are the Quarry, í besta falli miðlungs plötu sem er þó slegin niður af þeim stalli, fast, af augljóslega þvingaðri og beinlínis óþægilegri pólitískri gervi-afstöðu.
Síðast vil ég minnast á tvær plötur sem voru ekki beint slæmar en samt engan veginn eitthvað sem maður á að þurfa að sætta sig við frá þeim talentum sem búa í svona listamönnum. Þetta eru annars vegar platan Sonic Nurse með Sonic Youth og hins vegar Interpol platan Antics. Sveitir eins og þessar eiga að gera betur en að slefa rétt yfir meðallag.

Að lokum vil ég nefna þrjár plötur sem ég hefði endilega viljað heyra áður en ég setti saman þennan lista, en hafði ekki tök á því. Þetta eru plöturnar Creature Comforts með Black Dice, Kesto með Pan Sonic og Smoke In The Shadows með Lydiu Lunch. En það er víst ómögulegt að heyra allt sem mann lystir. Því er nú verr og miður.

Feedback vel þegið.