Ég held að þetta sé ekki spurning um val, heldur skilning og tilfinningu.
Þegar tónlistamaður semur lag er hann að tjá tilfinningu. Tilfinningu sem þú annað hvort skilur eða ekki.
Eins og flestir hafa tekið eftir er meirihluti ungs fólks á íslandi í dag rokkarar (og það að megninu til þungarokkarar). Rokk í dag er stefna sem að mestu leiti er túlkun (eða útrás) á reiði. Ungt fólk finnst mér yfir höfuð frekar reitt, sem útskýrir af hverju það leitar í rokk. Hvað skapar þessa reiði er misjafnt, enda leitar fólk í mismunandi gerðir af rokki.
Fyrir ekki löngu síðan hlustuðu flestir unglingar á hiphop. Voru unglingarnir að hlusta jákvætt hiphop? Nei, gangstarap stóð hæst. Hvaða tilfinning er á bakvið gangstarap? Ég mundi segja reiði.
Persónulega finnst mér frekar augljóst af hverju unglingar eru yfir höfuð reiðir, en ég held að það hafi meira með líf- og félagsfræði að gera en eitthvað sem vert er að tala um hér.
Þegar ég var 11 ára komst ég í kynni við Guns & Roses (sem þá voru að byrja að verða frægir). Fljótlega eftir það fór ég að hlusta á Metallica, svo Slayer, Megadeth, Anthrax og á endanum kom dauðarokkið. Á sama tíma var ég reyndar að hlusta frumstig danstónlistar, því ég hafði jú líka gaman af því að dilla mér þegar vel lá á mér, en það er annað mál. Þróuninn sýnir að ég leitaði alltaf í meiri og meiri reiði, enda erfitt líf að vera unglingur (með óstöðuga hormóna).
Þegar ég svo óx úr þessum hormónarússíbana, sem unglingsaldurinn er, hætti ég að hlusta á dauðarokk. Við tók harðasta danstónlist þess tíma, innihélt sama kraft en sleppti reiðinni (boðaði frið, ást og sameiningu). Síðan þá hef ég alltaf leitað í mýkri og jákvæðari tónlist, enda ekkert reiður lengur.
Ég held að maður leiti alltaf í þá tónlist sem túlki þær tilfinningar sem maður er að upplifa hverju sinni. Svo hafa aðrar utanafkomandi aðstæður áhrif á í hvaða umbúðum þú vilt tilfinningarnar (þ.e.a.s. rafrænum, akústískum eða öðrum). Það er nefnilega hægt að finna flestar tilfinningar í allskonar mismunandi umbúðum.
Í framhaldi af þessu held ég einnig að það að hlusta eitthvað sem var í uppáhaldi áður geti fært mann á þann stað sem maður var tilfinningalega þegar hlustað er á það seinna. Svo er bara spurning hvort það hafi verið gott tímabil sem maður getur brosað yfir, hvort það hafi verið slæmt tímabil sem maður tárast yfir eða hvort maður hreinlega skammist sín fyrir að hafa verið að upplifa eitthvað.
Þetta er mín skoðun á þessu. Vona að einhver geti verið sammála.
Góðar stundir.