Núna er árið 2004 að renna sitt skeið á enda og þess vegna, kæru hugarar, finnst mér tilvalið að kíkja á bestu plötur ársins, enda fannst mér að minnsta kosti árið 2004 vera mjög fínt tónlistarár. Það er auðvitað erfitt að velja bestu plötuna enda er tónlistarsmekkur hvers og eins mismunandi, t.d. endurspeglar val mitt aðeins minn tónlistarsmekk og margir aðrir eru örugglega ósammála mér. Þessar hérna eru samt þær sem mér fannst bestar, samt ekki eftir neinni röð.
Madvillain - Madvillainy
Þetta er án efa besti hiphop diskur ársins. Madvillain, sem samanstendur af einum MC, MF Doom (aka King Geedorah og Victor Vaughn) og pródúsernum Madlib. Madlib er án efa einn besti pródúserinn í senunni og jazzaðir taktar hans virka mjög vel á plötunni og passa mjög við stíl MF Doom. Doom er líka upp á sitt besta hérna. Ef þú kaupir þér eina hiphop plötu á næstunni, þá er það þessi!
Tom Waits - Real Gone
Það tók mig nokkuð margar hlustanir að komast inn í þessa plötu, en síðan þá hefur hún bara hækkað og hækkað í áliti hjá mér. Tom Waits er náttúrulega snillingur þrátt fyrir að hann sé ekki fyrir alla. Hann fer eins og áður ótroðnar leiðir og er í raun að gera hluti á þessari plötu sem ekki heyrt neins staðar áður. Hann blandar saman fjölda tónlistarstefna og úr verður að mínu mati plata hans síðan Bone Machine kom út.
Sonic Youth - Sonic Nurse
Sonic Youth er mögnuð sveit. Þeir eru búnir að gefa út hvað, 17 breiðskífur, og þeir eru ennþá að gera mjög góða hluti. Þrátt fyrir þessi plata toppi ekki t.d. Daydream Nation er hún mjög góð, þrátt fyrir að vera orðin 23 ára er Sonic Youth ennþá með því besta í indie rokki.
Blonde Redhead - Misery Is A Butterfly
Önnur frábær indie plata. Rosalega falleg tónlist í anda Radiohead og annarra arty-indie hljómsveita. Þetta er fimmta plata þessarar hljómsveitar sem samanstendur af ítölsku bræðrunum Amedeo og Simone Pace, og japanskri söngkonunni Kazu Makino, og að mínu mati þeirra besta plata. Topplögin eru upphafslag plötunnar, Elephant Woman, falleg melódía sem minnir mig alltaf á Muse. Einnig eru lögin Melody, Doll Is Mine, Maddening Cloud og Equus mjög góð, en platan er samt mjög heilsteypt og rennur vel í gegn.
Mos Def - The New Danger
Þessi diskur kemst nálægt Madvillainy í að vera besta hiphop plata ársins. Þegar ég fékk hana í hendurnar bjóst ég við því, eða vonaði frekar að hún yrði lík meistarastykkinu hans, Black On Both Sides. En nei, það er ekki neitt líkt með þessum tveimur plötum og núna tel ég það bara góðan hlut. Mos Def er að fara nýjar leiðir á þessari plötu og blandar saman rokki, blues, soul og raftónlist við hiphopið. Nánast öll lögin á disknum eru mjög góð en ef ég ætti að velja eitthvað sem stendur upp úr er það Sunshine, aðallega vegna frábærs takts.
Þessar fimm plötur eru toppurinn hjá mér en einnig hefði ég getað nefnt íslensku plöturnar Medúlla með Björk og Mugison - Mugimama, is this monkey music? Svo eru náttúrulega margar sem ég á eftir að hlusta á en hefðu örugglega getað komist á þennan lista, t.d. Wilco - A Ghost Is Born, Modest Mouse - Good News For People Hwo Love Bad News, Interpol - Antics, Nick Cave - Abattoir Blues/Lyre of Orpheus, Jill Scott - Beatuifully Human: Words and Sounds 2 ásamt mörgum, mörgum fleiri.
En allavega, þetta var minn listi og komið með ykkar.