BANDARÍSKI TÓNLISTARMAÐURINN RIVULETS ER EINN ÞRIGGJA SEM TROÐA UPP Í HELLINUM ÞANN 16. NÓVEMBER OG ER ÞESSI GREIN SKRIFUÐ AF ÞVÍ TILEFNI
Ímynd hins dularfulla söngvaskálds, sem ferðast um með gítarinn sinn, er eins og sniðin utan um Nathan Amundson. Þessi hæfileikaríki tónlistarmaður, sem hefur fengið fjölmargar til að gapa af hrifningu, er fæddur í Denver, Colorado en flutti ungur til Alaska þar sem hann eyddi stærstum hluta bernsku sinnar. Á unglingsárunum gerði útþráin hins vegar vart við sig og segja má að síðan þá hafi hann verið á stöðugu flakki um gjörvöll Bandaríkin. Þó leið hans hafi m.a. legið til Texas, Washington, Oregon og Illinois lítur hann ávallt á Minnesota sem heimkynni Rivulet enda fékk tónlistarferill hans fyrst byr undir báða vængi þar. Á meðan dvölinni stóð komst Amundson í kynni við fjölmarga tónlistamenn með svipuð viðhorf og ber þar helst að nefna hjónin Alan Sparhawk og Mimi Parker, sem eru hjartað og sálin í hinnimikilsmetnu hljómsveit Low. Nafn hennar ber því óhjákvæmilega oft á góma þegar minnst er á Rivulets og Amundson er fyrstur til að viðurkenna að tengslin þar á milli hjálpi honum oft að fanga athygli tónlistaráhugamanna.
Að fanga athygli er eitt en að halda henni er allt annað og fáir efast um að Nathan Amundson hefur það sem til þarf. Fyrsta platan í fullri lengd, sem hét einfaldlega Rivulets, kom út árið 2002 og ári síðar fylgdi Debridement í kjölfarið. Í báðum tilfellum var upptökustjórn í höndum Alan Sparhawk auk þess sem fleiri góðir gestir lögðu hönd á plóginn, m.a. Jessica Bailiff, sem fylgdi Rivulets og Drekka til Íslands fyrir sléttum tveimur árum. Sú heimsókn var þó ekki hin fyrsta frá flakkaranum Amundson því í ársbyrjun 2001 gerði hann hér stuttan stans og lék fyrir gesti og gangandi á Geysi Kakóbar auk þess að hljóðrita nokkur lög í húsakynnum Rásar 2. Þær upptökur þóttu takast svo vel að úr varð stuttplatan ‘Thank You Reykjavik’, sem kom út á vegum BlueSanct er rekið er af Michael Anderson, öðru nafni Drekka.
Þó saga Rivulets sé ekki ýkja löng hefur Amundson verið nokkuð duglegur að senda frá sér efni og um leið flakkað á milli útgáfufyrirtækja. Það þarf reyndar vart að taka fram að breiðskífurnar komu út undir merkjum Chairkickers Union, I eigu hins títtnefnda Alan Sparhawk en útgáfur smærri platna hafa aftur á móti verið í höndum Acuarela, Tract, Silber Records og fleiri auk þess sem Rivulets er tíður gestur á alls kyns safnplötum héðan og þaðan úr óháða geiranum.
Að lokum má benda á heimasíðuna www.rivulets.net en þar má m.a. finna fjölda hljóðdæma, sem segja mun meira en öll lýsingarorð sem ég kynni að draga fram til að lýsa fegurð Rivulets.
- árni viðar
TÓNLEIKAR RIVULETS, DREKKA OG ÞÓRIR FARA, EINS OG ÁÐUR SEGIR FRAM Í HELLINUM, HÓLMASLÓÐ 2*, (TÓNLISTARÞRÓUNARMIÐSTÖÐINNI) ÞANN 16. NÓVEMBER. HÚSIÐ VERÐUR OPNAÐ KL. 20:00 OG ER AÐGANGSEYRIR AÐEINS 700 KRÓNUR (EKKERT ALDURSTAKMARK)
* HÓLMASLÓÐ ÚTI Á GRANDA OG ER STRÆTÓLEIÐ #2 MEÐ ENDASTÖÐ BEINT FYRIR UTAN.