Hér fyrir neðan ætla ég að skrifa grein sem ég las í morgunblaðinu. Þetta er ekki c/p þar sem ég skrifaði hvert einasta orð í greininni og skrifaði sumt með mínum eigin orðum. Ég ætla bara að vona að þeir sem lásu hana ekki í mogganum njóti hennar :)
Steven Paul Smith sem síðar tók að sér nafnið Elliott, fæddist þann 6. ágúst árið 1969 í Omaha í USA. Hann lést svo á heimili sínu í Los Angeles fyrir rúmu ári, þann 21. októver árið 2003 aðeins 34 ára gamall. Enn er ekki vitað hver var orsökin en í fyrstu töldu menn að hann hafi framð sjálfsmorð, en síðustu fréttir af rannsókn á andlátinu eru á þá leið að enginn veit hvað gerðist í raun og veru. Vel má vera að hann hafi verið myrtur.
Þær fréttir að Elliot Smith hefði fyrirfarið sér vöktu eðlilega talsverða athygli, en í frásögnum og vangaveltum mátti sjá að menn voru ekki svo undrandi. Slíkur dauðadagi sem hann dó rímaði við texta hans í gegnum árin, söng um vonleysi, glímu við fíkn og þunglyndi, þó að einnig hefði mátt finna í textum hans hljóðláta gleði.
Foreldrar Elliott Smith skildu þegar hann var ársgamall og ólst hann svo upp hjá móður sinni. Elliott var snemma gefinn fyrir tónlist og í heimsóknum til föður síns kynntist hann tónlist, meðal annars Hvíta albúmi Bítlanna sem hafði þau áhrif á hann að hann ákvað að verða bassaleikari þegar hann var aðeins fimm ára gamall.
Níu ára fór Elliott að læra á píanó og ári síðar samdi hann sitt fyrsta lag sem hann fékk verðlaun fyrir á tónlistarkeppni. Hann lærði þó ekki á píanó lengi, ári síðar var hann kominn með dellu fyrir blásturshljóðfærum og spilaði á klarínett í skólahljómsveitinni.
Tólf ára fékk Elliott svo sinn fyrsta gítar og eyddi næstu árum í glímu við hljóðfærið. Hann sagðist hafa lagt mikið á sig til að læra að spila þjóðlagatónlist, hann hafði ekki áhuga á gítarsólóum og hamagangi.
Bítlarnir voru í uppáhaldi hjá honum allt frá því að hann heyrði Hvíta albúmið en hann skýrði líka frá því í viðtölum að hann hafi haft mikið dálæti á Bob Dylan, en einnig kunni hann víst vel að meta flamengo-tónlist og Motown-popp. Sumir hafa borið hann saman við Nick Drake, en Elliott sagðist ekki hafa heyrt í Drake fyrr en löngu eftir að hann var byrjaður á sínum tónlistar ferli, en þakkaði þó fyrir samlíkinguna. Fyrsta platan sem hann keypti sér var þó Kiss plata og síðan AC/DC, en þegar hann heyrði í The Clash gleymdist allt annað.
Elliott Smith glímdi við fíknina megnið af ævinni og hann sagði frá því eitt sinn að hann hefði byrjað snemma í ruglinu. Aðeins tíu ára gamall fór hann á fyrsta fylliríið og fjórtán ára var hann farinn að reykja gras nokkuð reglulega.
Elliott bjó hjá móður sinni í úthverfi Dallas og sagði oft frá því hve lífið hefði verið erfitt, mikið um sukk og ofbeldi. Tónlistin var honum athvarf og fjórtán ára gamall tók hann upp sín fyrstu lög.
Samband Elliotts við stjúpföður sinn var ekki uppá marga fiska og gerði það að verkum meðal annars að sem unglingur fluttist hann til föður síns í Portland í Oregon og dvaldi þar næstu árin. Það uppgjör, að yfirgefa móður sína og flytjast í annað fylki, var honum eðlilega erfið ákvörðun og átti eftir að dúkka upp í textum hans öðru hvoru sem óuppgerð tilfinningarflækja.
Fyrsta hljómsveitin sem Elliott Smith lék með var í miðskóla í Portland. Sveitin hét Stranger than Fiction, en á þeim tíma hét hann enn Steven Smith þó að Elliott nafnið hefði fests við hann skömmu síðar. Sveitin tók upp nokkuð af lögum og gaf út á snældu og eitt laganna átti eftir að ganga aftur mikið breytt á sólóskífu Elliotts löngu síðar.
Þó að Stranger than Fiction hafi verið fyrsta hljómsveit Elliotts þá var Heatmiser fyrsta sveitin hans sem eitthvað var varið í en hana stofnaði Elliott með Neil Gust árið 1992. Fyrsta plata sveitarinnar kom út ári síðar og önnur plata 1994, en þá var orðið ljóst að Elliott Smith stefndi á sólóferil, því fyrsta sólóskífan hans, Roman Candle, kom út það ár. Hann starfaði þó með Heatmiser ár til viðbótar en sneri sér svo alfarið að eigin verkum. Smith fór síðar nokkuð hörðum orðum um hljómsveitarsamstarfið, sagðist ekki hafa verið að spila þá tónlist sem hann vildi og að lögin sem hann samdi fyrir sveitina hafi orðið óþekkjanleg þegar allir hljómsveitarmeðlimirnir voru búnir að fara höndum um þau.
Fyrstu sólóskífu Elliotts, áðurnefndri Roman Candle, var einkar vel tekið og ekki fékk önnur plata hans, sem hefur ýmist verið kölluð Elliott Smith eða Kill Rock Stars, lakari viðtökur, en sú plata kom út 1995. Textar á plötunni þóttu óvenjusterkir, en yrkisefnið ekki að sama skapi dægilegt, hugleiðingar um fíkniefnaneyslu, þunglyndi og hljóða örvæntingu.
Ekki vantaði örvæntinguna í líf Smiths, því á þessum tíma var hann farinn að drekka svo ótæpilega að hann datt út hvað eftir annað og gerði alls kyns óskunda, lenti í slagsmálum og ótal hremmingum. Á endanum var honum komið á geðsjúikrahús þar sem hann var í viku, viku sem hann lýsti síðar sem helvítisvist.
Vendipunktur á ferli Elliotts Smiths, að minnsta kosti um tíma, var þegar tónlist hans var notuð í kvikmyndinni Good Will Hunting, en þau lög og fleiri til voru á plötuinni Either/Or sem kom út 1997. Eitt laganna, “Angeles”, fékk tilnefningu til Óskarsverðlauna sem besta lag í kvikmynd það ár. Það vann reyndar ekki, en aðdáendur Smiths fengu þó að sjá hann við Óskarsverðlaunahátíðina, eins súrrealískt og það nú var.
Fjórða skífa Elliotts, XO, kom svo út sumarið 1998, og svo Figure 8 árið 2000, báðum vel tekið af gagnrýnendum en ekki eins vel af plötukaupendum. Á næstu árum þar á eftir heyrðist svo ekki ýkja mikið frá Smith, hann sagði upp plötusamningi sínum og hætti að vinna með flestum þeim tónlistarmönnum sem hann gerði XO og Figure 8 með. Hann byrjaði fljótlega að vinna að nýrri plötu einn og vildi að því fregnir herma fara nýjar leiðir í tónlistinni, hafa hana hrárri og einfaldari. Hann náði ekki að ljúka við plötuna eins og getið er, lést á sviplegan hátt fyrir rétt rúmu ári, 21. október.
Fyrrum samstarfsmenn hans luku svo við plötuna fyrir hann, sáu um hljóðblöndun og viðlíka og fékk platan nafnið From a Basement on the Hill.
Það er erfitt ef ekki ómögulegt að ýminda sér hvernig Elliott Smith hefði viljað að þessi síðasta plata sín yrði og þegar eru sprottnar deilur milli hans nánustu um hversu nálægt hugmyndum hans nýja plata sé. Það skiptir ekki máli, aðdáendur Elliotts Smith taka fagnandi hverju því sem eftir hann liggur og hafa gefið From a Basement on the Hill hina bestu dóma.
Elliott Smith
R.I.P
6. ágúst 1969 - 21. október 2003
Heimildir : Morgunblaðið