Allir hlusta á tónlist. Ég held að það sé regla með fáum undantekningum. Sumir vilja þó meina að þeirra tónlist sé betri en annarra. Tónlistarhroki er rosalega hvimleitt fyrirbæri þar sem einhver sem hlustar á tónlist X telur að tónlist Y sé alveg óumdeilanlega lakari.
Fyrst ber að nefna þá sem ég hef mest orðið var við í þessu tilliti. Rokkarar virðast vera hrokafyllstu kvikindi sem hlustað hafa á tónlist. Maður sér varla grein á hip-hop- eða poppáhugamálunum án þess að einhverjir rokkarar komi með leiðinleg komment eins og “Hiphop er sori” eða “Hættið að hlusta á FM!!!”. Mjög týpísk dæmi um það.
Það virðist hafa myndast ákveðin goggunarröð í þessum efnum:
Rokkarar>Rapparar>FM-hnakkar
Hvers vegna eru FM-hnakkarnir verri en aðrir því þeir hlusta á nýpopptónlist? Tónlist er eitthvað það huglægasta fyrirbæri sem fyrirfinnst, og það er engan veginn hægt að bera saman Justin Timberlake við t.d. Nirvana. Hvers vegna? Þeir tilheyra algerlega mismunandi tónlistarstefnum. Eins og að ætla að bera saman appelsínur og epli. Báðir reyndar alveg rosalega meinstrím á sínum tíma.
Það er alveg ótrúlegt að sjá greinar á huga um einn eða annan tónlistarmann rakkaðar niður af fólki sem einhverra hluta vegna finnst það knúið til að láta alla vita af því hve illa því líkar við þennan tiltekna tónlistarmann.
Svo er það að hlusta á klassískt rokk. Sumir vilja meina annað hvort að gamalt rokk sé einfaldlega betra en það nýrra, eða þá að þeir sem hlusta mest eða mikið á klassískt rokk geri það einfaldlega vegna barnalegrar íhaldssemi. Sú er ekki raunin. Klassískt rokk spannar 40-50 ára tímabil, og því úrvalið minnst 10 sinnum meira en það sem telst nýtt rokk. Hver nennir að muna eftir lélegri tónlist frá því fyrir 15-40 árum síðan?
Tónlist af FM er ekki léleg fyrir það að hún sé spiluð á FM, hún er ekki lélegri fyrir það að hún sé yfirleitt meinstrím og oftar en ekki tónlistarmenn sem græða mikið á tónlistinni, reyndar græða rokkhljómsveitir eins og Foo Fighters, eða þess vegna Slipknot, eða þá rapparar allt frá 50 Cent til The Streets alveg helling á sinni tónlist hefði ég haldið. Ég held að þessi hroki fyrir FM tónlist af hálfu rokkara og reyndar rosalega oft rappara líka sé í raun einhverjar leifar þess að fólk haldi að það sé einhver meiri frumleiki við rokk. Leifar þess þegar rokk var raunverulega eitthvað nýtt, ekki svo að segja að það sé ekkert nýtt að gerast í rokkinu, en það er ekkert frekar en í popptónlistinni.
Ykkur má svo sem finnast sú tónlist sem þið hlustið á betri/skemmtilegri en önnur tónlist, en það er undir smekk komið og það er alveg óþarfi að terroræsera hvern einasta þráð um einhverja aðra tónlistarstefnu með órökstuddum fullyrðingum um að Y sé ömurlegt, X rúli.
Einar Axel
(\_/)