HLJÓMSVEITIN BLACK FOREST/BLACK SEA HELDUR TÓNLEIKA Á GRAND ROKK ÞANN 24. APRÍL:
Nafnið Black Forest/Black Sea kemur flestum yfirleitt spánskt fyrir sjónir enda er þessi bandaríski dúett tæpast af sömu stærðargráðu og önnur bönd sem flykkjast til landsins nú á vormánuðum. Engu að síður ætti fólk endilega að gefa hljómsveitinni gaum því hún hefur fengið glimrandi dóma fyrir þær tvær breiðskífur sem hún hefur sent frá sér, m.a. hjá kröfhörðum gagnrýnendum Pitchforkmedia og The Wire. Pennarnir hjá The Wire virðast einnig hafa óendanlegt hugmyndaflug þegar kemur að því að skipta hljómsveitum niður í hólf og telja t.a.m. Black Forest/Black Sea fara fyrir hreyfingu sem þeir nefna “New Weird America”. Fólki er frjálst að leggja sína eigin merkingu á það hugtak en til að gefa gleggri mynd af tónlist þá er hún róleg, draumkennd og með sterkar vísanir á ameríska þjóðlagahefð þó lítið sé um söng. Áhrif úr austur-evrópskri tónlist eru og áberandi auk þess sem sveitin styðst af og til við naumhyggjulega raftóna.
Fólkið á bak við BF/BS eru Jeffrey Alexander (gítar, banjó) og Miriam Goldberg (selló) sem hafa einbeitt sér að þessu verkefni síðastliðið ár eða svo og gefið út eina breiðskífu, samnefnda sveitinni á vegum Last Visible Dog og aðra á vegum BlueSanct. Sú fyrri leit dagsins ljós í lok síðasta árs en sú síðari, ‘Forcefields and Constellations’ er hins vegar nýkomin út og hefur að geyma tónleikaupptökur sem og nokkur nýrri lög sem tekin voru upp í hljóðveri.
Fyrir þá sem ekki vita eru tengsl BlueSanct útgáfunnar við Ísland töluverð en meðal kunnulegra nafna sem gefið hafa út þar á bæ eru Low, Rivulets og Jessica Bailiff. Allir hafa þessir listamenn lagt leið sína hingað og nú bætist Black Forest/Black Sea í þann hóp, þó Alexander og Goldberg hafi reyndar bæði komið hingað áður.
Tónleikarnir á Grand Rokk, sem eru jafnframt þeir síðustu í fjögurra mánaða Evrópureisu, eru því fyrst og fremst tilkomnir vegna áhuga tvíeykisins á landinu og þannig sögðust þau ekki geta farið aftur heim án þess að kíkja í stutta heimsókn og slá um leið tvær flugur í einu höggi með því að spila. Það má því reikna með notalega andrúmslofti á meðan Black Forest/Black Sea töfrar fram nokkra seiðandi tóna og tilvalið fyrir þá sem vilja smá afslöppun áður en lengra er haldið á laugardagskvöldi.
Tónleikarnir eru eins og áður segir þann 24. apríl; þeir hefjast klukkan 21:00 og kostar aðeins 500 krónur inn.