Kynngi magnaðir Bítlatónleikar í Höllinni Í kvöld voru haldnir fyrri tónleikarnir af tvennum í Laugardalshöllinni, þar sem Sinfoníuhljómsveit Íslands, ásamt fjórum breskum söngvörum auk hrynsveitar (sem reyndar fór ekki mikið fyrir) flytur mörg af þekktustu og bestu lögum Bítlanna. Ég var svo heppinn að krækja í tvo af seinustu miðunum sem í boði voru á tónleikana í kvöld (12. mars).

Tónleikarnir hófust stundvíslega kl. 19:30 með skemmtilegri innkomu eins af söngvörunum bresku. Fyrsta lagið var “Magical Mystery Tour”, og var flutningurinn afar góður. Síðan leiddi eitt lag af öðru og mátti greina eilítinn söguþráð í dagskránni, enda sýningin frekar sett upp í formi söngleikjar en tónleika, með stuttum en hressandi leikþáttum milli laga.

Eftir rúmlega klukkutíma langa törn var gert hlé á sýningunni og voru gestir almennt yfir sig hrifnir af því sem komið var. Það besta var þó eftir! Eftir hlé var sannkallaður glæsibragur á sýningunni og hver maður fór hreinlega á kostum. Auk þess samanstóð dagskráin eftir hlé af öllu þekktari (og betri) lögum. Sýningin var greinilega ljómandi vel æfð og enginn sté svo mikið sem eitt feilspor (svo mikið bæri á a.m.k.). Eftir lokalagið - “Sgt. Pepper's Lonely Hard Club Band” - voru flytjendurnir að sjálfsögðu klappaðir upp og komu þá inn með frábæra u.þ.b. 10 mín. langa syrpu sem samanstóð af mörgum frábærum Bítlalögum.

Af söngvörunum fjórum þótti mér persónulega einn bera af - Dougal Irvine heitir sá (hinn yngri af karlsöngvörunum, sem voru tveir). Þau lög sem mér þóttu best flutt voru “Yesterday” og “Help”!.

Síðari tónleikarnir verða haldnir á morgun, laugardag, kl. 17 að mig minnir. Ég mæli eindregið með þessum tónleikum - hreint frábær upplifun. Ég held að það sé enn möguleiki á að kaupa miða, kannið málið á www.sinfonia.is. Þar má einnig nálgast frekari upplýsingar um tónleikanna.



Að lokum má þess til gamans geta að ég sat í sæti 43 í 11. röð, sem er nákvæmlega sama sætið og mér var úthlutað á tónleikum með Elton John sem ég fór á síðasta sumar … ansi mögnuð tilviljun það! :P