JIMI HENDRIX. Einn af mínum uppáhalds tónlistarmönnum. Það koma stundir þar sem hann er hreinlega númer 1.

Í hugum sumra er hann kannski ekki mikið meira en sögufrægur gítarleikari sem m.a. kveikti í gítarnum sínum, og drapst síðan af of stórum eiturlyfjaskammti eins og svo margir.

Sannleikurinn er hins vegar annar.
Hann var mikill frumkvöðull í tónlist og einstakur skapandi tónlistarmaður af stærðargráðu sem mun líklega ekki sjást aftur í bráð.

Ég mun koma til með að skrifa greinar um stúdíóplöturnar sem eftir hann liggja, en hér til að byrja með er ágrip af ævi Jimi Hendrix.



James Marshall Hendrix fæddist þann 27. nóvember árið 1942 í Seattle. Hann var að mestu leiti af afrískum uppruna, en einnig rann Cherokee-blóð í æðum hans.

Upphaflegt nafn hans var Johnny Allen Hendrix, en faðir hans James “Al” Hendrix breytti nafni hans í James Marshall nokkrum árum síðar, eftir skilnað foreldranna.

Jimmy ólst upp við blues- og jazztónlistina sem pabbi hans hlustaði á. Tónlistaráhuginn varð að lokum svo mikill að pabbi hans keypti handa honum ódýran kassagítar þegar hann var 11 ára gamall. Eftir það varð ekki aftur snúið.

Þegar Jimmy var á 19. ári (1961) skráði hann sig í flugherinn sem fallhlífarstökkvari. Eftir að hafa verið í þjálfun í 14 mánuði meiddist hann illa á ökkla í einu stökkinu og var leystur frá skyldum sínum í kjölfar þess.

Næstu árum eyddi hinn ungi gítarleikari “on the road” með mörgum frægustu blues og soultónlistarmönnum þess tíma, m.a. B.B. King, Solomon Burke, Sam Cooke, Little Richard, Ike & Tina Turner og the Isley Brothers. Einnig ber að nefna Curtis Knight - hann var að vísu ekki merkilegur talent en hann á eftir að koma við sögu síðar.

Þessi mótunartími var honum að sjálfsögðu mjög gott veganesti og harður skóli, en Hendrix leið fyrir það að hann mátti ekki sleppa fram af sér beislinu og gera það sem hann sjálfur vildi.

Það hlaut því að koma að því að hann segði skilið við “sideman”-hlutverkið, sem hann gerði um 1965 og hélt til New York-borgar. Hann og fylgisveinar hans gengu þá undir nafninu Jimmy James and the Blue Flames. Listafólks- og hippahverfið Greenwich Village varð hans nýi samastaður, og þarna fór hann í fyrsta sinn að syngja sjálfur (hann hafði aldrei mikið álit á röddinni sinni).

Það var síðla árs 1966 sem fyrrverandi bassaleikari the Animals, Chas Chandler, komst á snoðir um þennan stórkostlega nýja gítarleikara. Hann var nýhættur í Animals og ætlaði að reyna fyrir sér sem umboðsmaður. Það fór svo að hann fékk Hendrix til að koma með sér til London.

Þegar þangað kom var strax ráðist í það að finna gaura til að spila með honum. Chandler og Hendrix tóku slatta af trommu- og bassaleikurum í áheyrnarpróf. Hinir tveir heppnu voru trommuleikarinn Mitch Mitchell, sem hafði getið sér gott orð með jazz- og popphljómsveitum, og bassaleikarinn Noel Redding. Redding var í raun gítarleikari sem hafði orðið lítið ágengt í bransanum, og ákvað því að láta slag standa og prófa að svissa yfir á bassa. Það átti heldur betur eftir að borga sig. (Reyndar réði hárgreiðslan hans, sem passaði vel við þá Hendrix var með, að minnsta kosti jafn miklu um ráðningu hans og spilamennskan.)

Síðast en ekki síst var ákveðið að breyta rithætti nafns stjörnunnar tilvonandi, sem hét upp frá þessu Jimi. Hljómsveitarnafnið: The Jimi Hendrix Experience.

Þetta nýja power-tríó (að fyrirmynd hinnar nýstofnuðu Cream) fór svo í stúdíó og tók upp fyrsta lagið, “Hey Joe” (sem Hendrix samdi ekki eins og sumir halda kannski - það höfðu fjölmargar bandarískar hljómsveitir spilað það og tekið upp yfir árið).
B-hlið smáskífunnar var hið frumsamda “Stone Free”, ein af hans sterkari lagasmíðum.

Smáskífan sló í gegn; Chandler setti strákana í kynningarferð um m.a. Frakkland, Svíþjóð, Danmörk, Þýskaland og Holland; næsta smáskífan “Purple Haze” varð einnig geisivinsæl, og þar með voru Jimi Hendrix og félagar orðnir með vinsælustu atriðum í Evrópu.

Nú var bara eftir að taka Ameríku með trompi, og það gerðu þeir í júní 1967 á hinu fræga Monterey Pop Festival í Kaliforníu. Þetta var sögufrægur performance þar sem Jimi sýndi listir sínar með eftirminnilegum hætti, spilaði með tungunni og fyrir aftan bak, kveikti í gítarnum sínum og áreitti magnara kynferðislega.
Eftir þetta gat Ameríka ekki annað en fallið að fótum hins nýja gítargoðs.

Fyrsta breiðskífan, ARE YOU EXPERIENCED?, kom út um sama leiti og varð mjög vinsæl beggja megin Atlantshafsins.

Breiðskífa nr. 2, AXIS: BOLD AS LOVE, kom út í lok árs 1967. Hún var tekin upp í London eins og sú fyrsta, og þar byrjaði hann einnig að vinna að þriðju plötunni.

En nú kom upp ágreiningur milli Jimi og umboðsmannsins og upptökustjórans Chas Chandler. Jimi fannst hans eigin listræni metnaður ekki lengur eiga samleið með sjónarmiðum Chandlers. Hann sleit því samstarfinu og hélt til New York ásamt Mitchell og Redding.

Þar var haldið áfram upptökum á plötunni sem kom út í lok ársins 1968, ELECTRIC LADYLAND. Þessi tvöfalda plata er af flestum talin vera meistarastykki Hendrix.

Nýi umboðsmaðurinn Mike Jeffery bókaði the Jimi Hendrix Experience í endalausar og lýjandi tónleikaferðir um Norður-Ameríku og Evrópu 1968-69.

Fyrri hluta árs 1969 var Jimi kominn með nóg af að spila sömu lögin aftur og aftur, og auk þess hafði samband hans við Noel Redding heldur betur súrnað. The Jimi Hendrix Experience leystist upp vorið '69.

Í ágúst sama ár kom Jimi fram með nýrri, stærri hljómsveit á Woodstock-hátíðinni. Hann hélt hinum frábæra trommara Mitch Mitchell, og fékk til liðs við sig gamlan vin úr hernum, bassaleikarann Billy Cox, auk rytmagítarleikara og slagverksleikara.

Þessi hljómsveit varð ekki langlíf, og í nóvember 1969 var komin ný hljómsveit. Nú var kominn nýr maður á trommurnar, annar vinur úr hernum, Buddy Miles. Billy Cox var enn á bassa. Þetta band nefndi Jimi A Band Of Gypsys. Nú var hann í fyrsta sinn kominn með al-svarta hlómsveit, sem leyfði honum að leggja áherslu á sína funky hlið.

Mike Jeffery umboðsmaður var ekkert of ánægður með þá stefnu, og það er sagt að hann hafi þrýst á Jimi að leysa upp A Band Of Gypsys. Það gekk eftir, hljómsveitin lifði ekki út fyrsta mánuð hins nýja árs.

Eini ávöxtur þessa stutta samstarfs var tónleikaplatan Band Of Gypsys sem kom út snemma árið 1970. Hún varð geysivinsæl eins og allar fyrri plötur Hendrix, en þessi mjög svo funky skífa var sú fyrsta sem náði vinsældum meðal blökkumanna, sem voru á þessum tíma aðallega að hlusta á soul og funk-tónlist frekar en rokk.

Auðvitað gat enginn látið sér detta í hug að þetta ætti eftir að verða síðasta platan sem Jimi Hendrix gaf út.

Mestallt árið 1970 fór í brjálæðislega tónleikaferð um Norður-Ameríku sem og upptökur á næstu stúdíóplötunni, sem átti að heita THE FIRST RAYS OF THE NEW RISING SUN.

Þessi plata átti að verða metnaðarfyllri en fyrri verk Jimis, og hann varði miklum tíma í að fullkomna hvert einasta lag sem hann vann að. Tónleikabókanirnar töfðu verkið mjög, auk þess sem hann beið eftir að geta byrjað að taka upp í sínu eigin hljóðveri sem var verið að leggja lokahönd á, Electric Lady Studios í NYC. Í ágúst var það tilbúið og þá tók við mikil vinnutörn.

Þann 17. september 1970 var Jimi staddur í London. Eftir að hafa drukkið og dópað í partíi um kvöldið ætlaði hann að fara að sofa og gleypti slatta af svefntöflum. Næsta morgun sá kærastan hans að hann hafði kastað upp í rúminu, en gaf því engan sérstakan gaum. En þegar hann vaknaði ekki þegar hún ætlaði að vekja hann litlu seinna hringdi hún á sjúkrabíl. Eftir komuna á næsta sjúkrahús var Jimi Hendrix úrskurðaður látinn.
Undir “Cause Of Death” var skrifað:
"Inhalation of vomit
Barbiturate intoxication [svefnlyfjaeitrun]
Insufficient evidence of circumstances
Open verdict".

Vægast sagt sorgleg endalok. Aðstæðurnar sem leiddu til dauða eins dáðasta tónlistarsnillings seinni tíma eru enn sem fyrr hulin ráðgáta.

Á síðastu klukkustundum lífs síns hafði Jimi samið texta. Lokalínurnar hljóðuðu svona:

The story
of life is quicker
than the wink of an eye
The story of love
is hello and goodbye
Until we meet again




JIMI HENDRIX R.I.P.





The Soulman