Sæll Franz,
Auðvitað hefur Tactik rétt á því að koma sínum skoðunum fram undir nafnleynd, en að mínu mati þá verður það aldrei eins áhrifaríkt eins og að koma fram undir nafni.
Á meðan á óréttlátri gjaldtöku stendur, þá verður það seint “þreytt tugga” að mótmæla því.
Svo þú áttir þig á samhengi þess sem ég kalla hártogun:
Tactik skrifar:
"Það voru ekki Stef sem settu þetta gjald á heldur var það sett á með reglugerð að frumkvæði Menntamálaráðuneytisins. Reglugerðina finnuru hér
http://www.reglugerd.is/interpro/dkm/WebGuard.nsf/lookB yNumer/1252001?OpenDocument“
Ég svara:
”Þetta er náttúrulega bara hártogun hjá þér, það var STEF sem með þrýstingi fékk það í gegn að þessi gjöld voru lögð á.“
Til útskýringar á ofangreindu:
Ráðherra gerði þetta ekki að ”eigin frumkvæði“ heldur eftir að STEF hafði óskað eftir því að hann skoðaði þessi mál og það kalla ég þrýsting.
Hafir þú upplýsingar um annað, endilega láttu okkur vita um hvar hægt er að nálgast þær.
Svo er annað mál, hvað með t.d. framleiðendur hugbúnaðar hérlendis, það er líka hægt að afrita þeirra vöru á þessa sömu geisladiska, af hverju fá þeir þá ekki hlutdeild í þessari gjaldtöku?
Þú segir einnig:
”Það er þinn réttur að sniðganga tónlist og gott að vita að þú standir við skoðanir þínar. Mundu bara að tónlistarmenn á íslandi tapa á plötuútgáfu hérna í miklum mæli og plötufyrirtæki eru tregari að veðja á unga jaðartónlistarmenn sökum áhættu í plötusölu vegna brennsluæðis sem hefur verið í uppgangi síðan 1998.“
Þakka þér fyrir, það er einmitt réttur sem ég mun nýta mér áfram, ég vona bara að sem flestir geri hið sama þar til gjaldtökunni verður hætt, ef nógu margir hætta og sala tónlistar minnkar, þá kannski átta menn sig á því að þeir eru eingöngu að skaða sjálfa sig með þessu.
Hvar stendur að tónlistarmenn eigi alltaf að hagnast á útgáfu? Þetta er nú einu sinni svo að þar sem er mikil gróðavon, þar er jafnframt mikil áhætta (og já, ég veit að Ísland er lítill markaður). Eins og með alla vöru sem seld er, þá eru fleiri tilbúnir að taka áhættuna með það sem þeir telja líklegt að skili hagnaði og tel ég persónulega ekkert að því. Einnig leyfi ég mér að efast um að ”jaðartónlistarmenn“, ungir sem aldnir, fái nokkuð úr sjóðum STEF, því þeirra úthlutun byggist, skv. því sem komið hefur fram hér að ofan, á takmörkuðum gögnum um spilun.
Tel ég þar frekar við STEF að sakast en þá sem skrifa gögn á geisladiska.
Fleira sem þú segir:
”Auðvitað hefur verðlagning áhrif en verðlagning á tónlist hefur farið lækkandi og fólk getur fengið tónlist á mjög góðum tilboðum í plötuverslunum og stórmörkuðum í dag en ekki minnkar þó brennslan við það.“
Ég minni á það að eitt af ”rökunum“ fyrir því að setja á þetta gjald var sú að sala á tónlist hefði minnkað mjög mikið. Á sama tíma kemur fram að t.d. Skífan hafi _aldrei selt jafn mikið_ af tónlist! Hvað er þá orðið um röksemdina fyrir því að tónlistarsala hafi minnkað svo mikið vegna tilkomu skrifanlegra geisladiska að það verði að setja sérstakt gjald á þá sömu diska til að vega upp á móti ”tapi tónlistarmanna“?
Bendir þetta ekki einmitt til þess að græðgi ráði ferðinni? En hvað með að rukka grunngjald fyrir allan opinberan flutning á lifandi tónlist, jafnvel þó að ekki sé um höfundarréttarverndaða tónlist að ræða?? Það er ekki eins og flytjendum sé ekki borgað fyrir þeirra vinnu!
Að verðlagning hafi lækkað er ekkert nema jákvætt og hvet ég fólk til þess að beina sínum viðskiptum frekar til þeirra sem bjóða vöruna á lægra verði, en best væri þó að sniðganga þetta þar til gjaldtöku líkur.
Loks skrifar þú:
”Það sem vantar í almenna umræðu er að það varðar við lög að brjóta höfundarrétt. Viðurlögin eru 3-6 ár hér á Íslandi (sömu og fyrir þá sem hýsa barnaklám) en ekki hefur verið reynt á það ákvæði sökum tíma og mannaflaskorts hjá Ríkislögreglustjóra. Fræðsla um þessi mál skapar kannski grundvöll fyrir lækkun eða afmán gjaldtökunnar því unga fólkið er alið upp í þeirri trú að það sé allt í lagi að hanga á DC og brenna alla uppáhaldstónlistina. kvikmyndir, tölvuleiki osfrv. FRÍTT.“
Ég hugsa að flestir geri sér grein fyrir því að þjófnaður sé lögbrot sem varði við lög en einmitt þar sem aldrei er gert neitt í málunum þá telja viðkomandi að það ”sé í lagi". Það gildir um lög að tilganglaust er að hafa þau ef þeim er ekki framfylgt! Mættu alþingismenn hafa það í huga að magn er EKKI það sama og gæði, en það er annað mál.
Góða tónlist, án _auka_gjalda,
Jóhann Ó Jökulsson