Í gærkvöldi, fimmtudagskvöldið 10. Júlí, skellti ég mér á allmagnaða tónleika í Hafnarhúsinu.
Þar lék jazzgítarleikarinn Hafdís Bjarnadóttir með hljómsveit sinni og svo lék Egill Sæbjörnsson einn og óstuddur með gítarinn og röddina eina að vopni.
Jazzsextett Hafdísar lék nokkur lög af plötunni Nú, sem kom út um síðustu jól, tvö ný lög eftir hana og nokkrar nýjar útsetningar af lögum á plötunni.
Í sveitinni var auk hennar, trommari, bassaleikari, klarínettu- og bassaklarínettuleikari, annar gítaristi og trompetleikari. Því miður fann ég ekki pennann minn þegar Hafdís kynnti meðlimi sveitarinnar, en ég get lofað ykkur því að þeir voru allir mjög færir á sínu sviði.
Þau byrjuðu á rólegu jazzlagi í þremur fjórðu (takttegund fyrir þá sem ekki vita), lágstemmt og tilraunakennt lag, eins og reyndar flest lög Hafdísar.
Framhaldið var svipað, en var brotið upp með instrumental reggí-útsetningu á lagi sem áður var sönglag.
Lagið Sorglegi Blúsinn var svo leikið og sló trommuleikarinn í gegn í því lagi. Tilraunamennskan var í fullum gangi og lamdi hann á allt sem hægt var á trommusettinu.
Hafdís tók svo frábært gítarsóló í laginu Pokkn, sem var svolítið punkað/rokkað jazzlag.
Bassalínan í því lagi var svolítið funky, en einföld eins og hentaði lögunum best.
Sveitin endaði svo á Froskablúsnum, en margir ættu að kannast við myndbandið við það lag, sem var í spilun á Skjá Einum um tíma. Að þessu sinni tókst þeim vel upp og útsetningin og sólóin voru mun flottari og vandaðri en í sjónvarpinu. Hljómburðurinn í salnum var skemtilega öðruvísi, sem kom bara skemmtilag út. Mikil og góð uppbygging er í lögunum og var allur hljóðfæraleikur til fyrirmyndar.
Sveitin kom mér á óvartog þó sérstaklega hinn magnaði trommuleikari.
Næst tók Egill Sæbjörnsson við. Eins og sumir vita er hann afar sérstakur listamaður og byrjaði hann sitt prógram á fjórum myndböndum.
Það fyrsta var tekið upp í Skotlandi í janúar þessa árs og var hálfgert tónlistarmyndband. Þar var Egill með kassagítarinn ásamt drauginum Móra í stúdíói sem innréttað var eins og frumskógur. Þeir tóku lag saman og endaði myndbandið á mikili sýru þegar Egill gekk í burtu en Móri öskraði og öskraði í nokkrar mínútur.
Annað myndbandið var eins konar samansafn af skyssum Egils af Móra á hinum ýmsu stöðum og undir var tónlist. Þá sýndi hann myndband af verki sem hann gerði “live” einhversstaðar (er ekki viss) og var þetta mjög sérstakt, eiginlega ekki líst með orðum en ég get reynt.
Þar var Egill bakvið stærðarinnar hvítt dúk með hausinn í gegnum gat á miðjunni. Svo fóru að birtast alls kyns hreyfi myndir á dúknum og vakti þeta verk mikla kátínu áhorfenda (þú hefðir átt að mæta).
Að lokum var tónlistarmyndbandið við lagið You Are My Loving Insane sýnt, en það var í spilun í sjónvarpi fyrir nokkrum árum.
Þá var komið að tónlistarflutningi Egils. Hann flutti fyrsta lagið, sem var mjög gott, lágstemmt lag, en lenti í því óhappi að slíta streng á gítarnum í miðju lagi. En eins og Egill sagði, þá var gott að þá var annar gítar á staðnum, svo hann kláraði prógrammið sitt með rafmagnsgítari Hafdísar.
Nýju lögin hans eru öll frekar lágstemmd og róleg. Líkjast að nærri því engu leiti lögunum á Tonk Of The Lawn (sem ég hef áður gagnrýnt hér á huga), en eru engu að síður góð, ef ekki betri en þau gömlu.
Ég náði ekki niður nöfnum laganna, en get þó nefnt lagið I Pray Godless Today, sem er ótrúlega vandað og gott lag, og lagið Try To Stay Unhooked (vonandi rétt skrifað) sem mér fynnst endilega eins og ég hafi heyrt áður en er ekki viss hvar það var.
Ekki er eins mikið af tilraunamennsku í nýja efninu, eins og var á Ton Of The Lawn. Meira er um flottar/fallegar laglínur og flóknar hljómasamsetningar.
Egill stóð sig með prýði þrátt fyrir gítarvandræðin og komu lögin bara nokkuð vel út með rafmagnsgítar.
Honum var vel fagnað og greinilegt var að fólk kann að meta þessa rólegu, hugljúfu tónlist.
Egill endaði svo kvöldið á einu myndbandi í viðbót. Þar sást hann leika á trommusett, á meðan myndband af dansandi manni var sýnt á stóru tjaldi, og var þetta nokkuð áhugavert og bara ágætis myndband.
Egill hyggst hefja vinnu á nýrri plötu bráðlega, sem mun innihalda nýju lögin hans. Ég væri til í sjá þá plötu einfalda, t.d. Egill + bassi og trommur eða Egill + strengir. En það er aldrei að vita hvað þessi óvenjulegi listamaður gerir næst, við verðum bara að bíða og vona það besta.
Ég vil svo minna á tóleika næsta laugardag í Hafnarhúsinu. Þar mun hin ágæta hljómsveit Kimomo spila klukkan 15: 30 og mæli ég sterklega með að fólk láti sjá sig. Einnig mæli ég með sýningunni sem er í gangai þar á sama stað. Það er sýning í tilefni 16 ára afmæli Smekkleysu. Þar er hægt að sjá ýmislegt skemmtilegt sem tengst hefur Smekkleysu síðustu 16 ár.
Njótið vel…
…sonur úlfhildar.
…