Dixie Chicks komu fyrst fram árið 1989. Þá voru í hljómsveitinni Emily Erwin (nú Emily Robison), Martie Erwin (nú Martie Maguire), Laura Lynch og Robin Lynn Macy. Þær spiluðu hefðbundna countrytónlist, og gáfu út þrjár sjálfstæðar plötur á árunum 1990-1993. En nú skulum við spóla nokkur ár fram í tímann, eða til…
… 1995. Þá voru systurnar tvær, Emily (banjó, dóbró og gítar) og Martie (fiðla og mandólín), tvær einar eftir í hljómsveitinni, og vantaði sárlega aðalsöngkonu. Lloyd Maines, sem hafði spilað á tveimur af plötum þeirra lét þær fá upptöku af söng dóttur sinnar, Natalie Maines, og þær voru báðar handvissar um að hún væri söngkonan sem þær vantaði. Natalie gekk til liðs við Dixie Chicks, og árið 1996 skrifuðu þær undir samning við Sony. Fyrsti geisladiskurinn þeirra, Wide Open Spaces, kom út árið 1998 og fyrir hann unnu þær tvenn Grammy verðlaun. Ári síðar kom annar geisladiskur út, en hann hét Fly. Fyrir hann fengu þær einnig tvenn Grammy verðlaun. Eftir að Fly kom út fóru þær í tónleikaferðalag um Bandaríkin.
Þessir tveir geisladiskar flokkast undir svokallað country-popp (tek samt fram að þetta er gæða country-popp, ekkert í líkingu við nýjustu plötur Shaniu Twain eða LeAnn Rimes), og með þeim eignuðust Dixie Chicks marga nýja aðdáendur sem höfðu ekki hlustað á country áður. Þessir aðdáendur þeirra fóru síðan smám saman að hlusta á meira country, og þannig er það að hluta til Dixie Chicks að þakka að country nýtur nú gríðarlegra vinsælda hjá ungu fólki hvaðanæva að úr Bandaríkjunum.
Það liðu síðan heil þrjú ár þangað til næsti geisladiskur Dixie Chicks kom út, og margir (þeirra á meðal ég) biðu hans með óþreyju. Hann kom loks út haustið 2002, og heitir Home. Þessi nýjasti geisladiskur Dixie Chicks er í rauninni ekki country-popp eins og hinir tveir, heldur er hann meira í ætt við hefðbundið country og bluegrass (grasrótartónlist). Fyrir Home unnu þær fern Grammy verðlaun, og hann var einnig tilnefndur sem besti geisladiskur ársins, og er það ákveðinn heiður þó þær hafi ekki unnið þann titill.
Í maí munu Dixie Chicks hefja annað tónleikaferðalag sitt (Top of the World Tour), en þær hafa þó nú þegar haldið tónleika í London og Munchen, og halda tónleika í Ástralíu á næstu dögum. Í allt sumar ferðast þær um Bandaríkin, og í september koma þær aftur til Evrópu, og munu þá spila í Englandi, Írlandi, Skotlandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Frakklandi og Hollandi. Þess má einnig geta að það seldist upp á nær alla tónleika þeirra í Bandaríkjunum (52 talsins) á innan við klukkustund!
Meiri upplýsingar er að fá á:
www.Sin-Wagon.com
www.dixiechicksfans.com
www.dix ie-chicks.com
~*~Stardust, well it's a funny thing