Bjartasta von okkar Íslendinga er á áttræðisaldri (ef ekki níræðis - man ekki alveg). Ég er að tala um hana Sigríði. Eflaust kannast fáir við hana en ég er viss um að þeir sem hafa hlustað á tónlist hennar eru sammála mér um að hún er snillingur. Svo mikill snillingur, að það er skömm að því að hún skuli ekki fyrir löngu vera komin á stall með Sigur Rós, MúM og Megas og Bubba, sem eitt merkasta tónskáld samtímans, því þar á hún svo sannarlega heima.

Fyrir þá sem ekki þekkja Sigríði, þá býr hún til raftónlist, með miklum moldarkeim, jaðarmold finnst mér. Hægt er að nálgast diska hennar í 12 tónum og á Borgarbókasafni Reykjavíkur, fjölda þeirra hef ég ekki á hreinu, en eitt er víst: þeir eru margir.

Eins og ég sagði finnst mér vera moldarkeimur af tónlist hennar. Það segi ég því upptökurnar eru mjög “lo-fi”, a.m.k. þær sem ég hef heyrt. Lögin eru rammíslensk, allt mjög gamaldags, bæði melódíur og hljóð. Mér heyrist hún notast við einhverskonar orgel eða hljómborð, auk trommuheila. Flest eru lögin skemmtileg, bæði dansvæn og upplífgandi.

Sá diskur sem ég hef hlustað mest á heitir “Hin daglegu störf”. Þar má meðal annars heyra Sigríði raula glaðlega í bagrunni lags númer 2, annað lag er viðtal við tveggja ára strák sem hermir eftir kisu, meðan tónlist Sigríðar er í bakgrunni. Eitt framúrstefnulegasta lagið er “Tölvupopp”, sem hljómar líkt og MúM á 44 snúningum. Þar heyrist einn brjálaðasti trommuheilataktur sem ég hef heyrt.
Skemmst er frá því að segja að þessi diskur er snilld, mér finnst Sigríður vera einn frumlegasti og ferskasti tónlistarmaður landsins, algerlega sér á parti.

Þannig að. Farið núna og kaupið diskana hennar. Hún á það skilið. Og þið sjáið ekki eftir því.