5 Lög sem ég mun alltaf fíla..... Tónlist er að mínu mati einn mikilvægasti þátturinn í lífi mínu og ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að verða heyrnarlaus (7-9-13 *knock on wood*) eða geta af einhverri ástæðu ekki hlustað á tónlist. Smekkur manna byggist á umhverfisáhrifum eins og svo margt annað, ef pabbi þinn spilaði Led Zeppelin á fullu blasti í gamla daga þá eru helmingslíkur á því að þú annað hvort hatir eða elskir þá hljómsveit. Varðandi tónlist þá er varla hægt að segja að það sé millivegur, annað hvort fílarðu lagið eða ekki. Að segja annað, tja þá ertu bara að ljúga að sjálfum þér.

Ég var á tímabili mjög áhrifagjarn, ef einhver sagði mér að eitthvað lag væri lélegt þá trúði ég því og þegar ég heyrði lagið á endanum fannst mér það leiðinlegt. En í dag er annað uppi á teningnum. Nú hlusta ég bara á lagið og pæli sjálfur í því hvort mér finnist það gott. Skítt með það sem vinsældalistar segja og maðurinn í útvarpinu segir að sé heitt. Flestir sem vinna á FM og Radio X eru að mínu mati róbotar með engann tónlistarsmekk, gera það sem þeim er sagt að gera og segja það sem stendur í handriti fyrir framan þá.

Ég geri mikið að því að horfa á bíómyndir og í þessum myndum er stundum að finna góða tónlist. Myndin Donnie Darko er gott dæmi um þetta, ég er mikið fyrir tónlist frá níunda áratugnum. Sá áhugi hefur aðallega verið fólginn í því að mér finnst gaman að þessum tegundum tónlistar svo sem New Wave og Flash. Þó er ég ekki mjög fróður um flytjendur, en oftast er það aukaatriði. Í þessari mynd heyrði ég lagið “Head over heels” með Tears For Fears í annað skiptið frá því að ég var smákrakki( ég er fæddur 1983). Og mun þetta lag vera það fyrsta á listanum. Ætli ástæðan fyrir því að ég fíla þetta lag svo í strimla sé að atriðið sem lagið heyrist þegar Donnie stígur útúr skólarútunni og myndavélinni er fleygt á milli allra sem skipta einhverju máli í myndinni, sé bara svo gríðarlega flott að lagið prentaðist inní “digg” stöðina í heilanum.

Næst á listanum mun vera lagið Everyday should be a holiday með Dandy Warhols. Þetta lag heyrði ég einnig í kvikmynd, nánar tiltekið There´s Something about mary. En aðeins hluti lagsins heyrist og það aðallega í bakgrunni. Ég var náttúrulega fljótur að vanda á imdb.com inní soundtrack listing á TSAM og viti menn.. þar var lagið. Hreinræktað stuð lag sem alltaf er hægt að hlusta á til að koma sér í rétta gírinn.


Live á þriðja lagið á listanum, ég frétti frá Jóni bróður að nýjasti diskur Live! væri all góður þannig að ég ákvað að versla hann og ég sé ekki eftir því að hafa gert það því á honum er eitt uppáhalds lag mitt frá upphafi, ég var búinn að frétta að Tricky og Ed ætluðu að taka dúet á disknum þannig að ég beið spenntur eftir því að heyra hvaða lag það væri. Eftir að diskurinn var settur var ekki mjög löng bið eftir því að komast að því hvaða lag þetta væri, enda er það fyrsta lagið á disknum að undanskildnu Introinu, eða lagið Simple Creed. Fæ hroll í hvert skiptið sem ég heyri það.

Filter eiga fjórða lagið á listanum en lag þeirra Take A Picture heyrði ég í auglýsingunni á myndinni Pay It Forward. Mér fannst þetta flott lag svo ég fór að reyna grafa það upp á netinu og gekk vægast sagt illa þangað til ég fann síðu á netinu sem innihélt soundtrökk úr kvikmyndauglýsingum. Já blessað Internetið klikkar aldrei. Flott lag sem minnir mig alltaf á góðar stundir með félögunum um versló.

Fimmta lagið sem mér finnst að eigi heima á þessum lista er lagið mmm mmm mmm með Crash Test Dummies. Þetta lag er löngu orðið klassískt en það heyrði ég fyrst þegar ég var í sumarbústað frænda míns á þingvöllum. Ég var nú bara 10 ára gamall þegar þetta lag var gefið út en þrátt fyrir það þá vissi ég alveg að þetta væri eitthvað merkilegt. Ég bað frænda minn um að spila lagið aftur en hann vildi hlusta á diskinn í heild þannig að ég varð að bíða í eitthvað hálftíma þangað til ég fékk að heyra það aftur.. og ég get sagt ykkur það að sá hálftími var lengi að líða. :)


Alanis Morissette er númer sex á listanum með þrjú lög. Þegar ég eignaðist minn fyrsta ferðageislaspilara átti ég nú ekkert rosalega marga diska, ég var vanur að “svæpa” diskum frá bræðrum mínum og einn daginn var ég á leiðinni til Reykjavíkur og allt í einu mundi ég hvað mér leiddist að sitja í bíl. Þannig að ég ákvað að fara í ránsferð inní herbergi bræðra minna. Og fyrir tilviljun fékk ég diskinn Jagged Little Pill “lánaðan” hjá Jóni bróður. Því sé ég ekki eftir. Ég hlustaði á þennan disk örugglega þrisvar sinnum í heild sinni á leiðinni. Þessi diskur en enn þann dag í dag algjör snilld og ég hlusta oft á hann þegar ég vill taka því rólega. Lögin sem mér fannst standa uppúr voru Ironic, Not The Doctor og Right Through You.

Stone Temple Pilots diskinn Purple keypti bróðir minn útí London fyrir nokkrum árum og var það hin besta fjárfesting þar sem þessi diskur er sá heilsteyptasti frá töffurunum í STP. Lög eins og Vasoline, Interstate Love Song og Still Remains eru og munu alltaf verða í uppáhaldi hjá mér.

Ég ætla bara að enda þennan lista á svalasta lagi ever, Too Easy með Wiseguys. Tööööff!


Þessi listi er til gamans gerður og endurspeglar um leið mínar skoðanir og smekk á tónlist. Ómálefnaleg svör vinsamlegast afþökkuð.

Takk fyrir lesturinn og góðar stundir.