Var að koma af tónleikum á Grandrokk með hljómsveitunum/artistanum Sigga Ármanni, Funerals og Botnleðju.
Voru þeir víst kallaðir Jóla-Rall 2002 og verð ég nú að segja að þeir voru bara helvíti skemmtilegir.
Siggi Ármann byrjaði kvöldið og stóð hann sig ágætlega, þó svo að það hafi verið mikill kliður í salnum. Hafði séð hann áður (á Sigurrósar tónleikunum og einhverjum tónleikum í MS) og ég veit ekki alveg hvað mér á að finnast um hann en hann minnir mig dálítið á Red house painters, á einhvern hátt. En hann er fínn kall örugglega sem spilar fína músik þó svo að hún sé ekkert allt of mikið að höfða til mín…. en það skiptir ekki öllu. Einnig á hann kannski ekkert allt of við á bar þar sem fólk er að drekka og svoleiðis. Hver veit??
Næst komu Funerals og voru þeir í einu orði - snilld. Fyllerísband af bestu gerð og það er bara einstaklega brillíant að hlusta á þetta band á sviði. Hafði ekki séð þá áður en er búinn að hlusta á diskinn og mér finnst hann svona ´alltílagi´. En eftir allt, þá er þetta band algjör snilld á sviði og finnst mér ekki vera tenging á disknum og þessu bandi á tónleikum - því miður… veit ekkert hvort það er gott eða slæmt - örugglega gott því maður vill fá það beint í æð.
Seinast komu Botnleðja á svið og spiluðu þeir bara nýtt efni af væntanlegri plötu. Þeir rokkuðu mikið og trölluðu og er þessi hljómsveit orðin öðruvísi að mínu mati (þó svo að ég sé enginn Botnleðju-fræðingur), eru orðnir rokkaðri og miklar hraða-og kaflaskiptingar eru búnar að taka þá einu skrefi lengra en þeir voru áður - en samt með Botnleðju-elementinu gamla í bland. Þeir spiluðu stutt miðað við Funerals, en voru helvíti góðir og enduðu þetta fína kvöld - fínt.
Semsagt fín músik, með fínu fólki, með fínum bjór, á fínum bar, í fínu húsi, á þessu fínu kvöldi.