Fyrsti Íslendingurinn í heimsmeistarkepnnina Guðmundur Sigurðsson mun verða fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í heimsmeistarakeppni (Rotax Cup) í Go-kart kappakstri sem haldin verður í Langkawi í Malasíu dagana 24-27 janúar nk.

Keppendurnir verða 68 frá 29 löndum og er Guðmundur Sigurðsson eini keppandinn frá Íslandi og keppir á vegum Rotax umboðsins sem er Bílabúð Benna ehf sem gestur. Guðmundur mun keppa á Haase kart-bíl en þá hefur Bílabúð Benna selt í nokkur ár.

Haase bíll Guðmundar, en hann er nefndur eftir hönnuði sínum, Dana sem er fyrrum heimsmeistari í Go-kart, er með grind úr Chrome Molly sem er stillanleg á marga vegu til að auka grip við mismunandi aðstæður.

Keppendur frá Norðurlöndum hafa ekki náð á verðlaunapallinn í Rotax keppninni en nú verður fróðlegt og skemmtilegt að sjá hvað Guðmundur gerir.

Keppnisbrautin í Langkawi er mjög fullkomin með rúmgóðri aðstöðu fyrir hvert keppnislið. Brautin, sem er hlykkjótt, er 960 metrar að lengd. Hún er ekin réttsælis og er brautartíminn að meðaltali 50 sekúndur. Mjög strangar reglur gilda um aksturinn, keppendur og keppnislið. Allir kart-bílarnir sem keppt er á verða með eins Rotax vélar og á eins dekkjum og verður hverjum keppanda afhent vél og dekk á staðnum.

Úrslitakeppni Rotax kappakstursins, sem nefnist á ensku ,,Rotax Max Challenge Grand Finals 2001” er haldinn af austurríska fyrirtækinu Bombardier-Rotax GmbH í samvinnu við Bifreiðasambandið í Malasíu.

Keppnin hefst með undanriðlum á laugardegi (26. janúar) og verða þá eknir 15 hringir í 2 flokkum. Á sunnudeginum (27. janúar) er keppt fyrir hádegi í undanúrslitum, eknir eru 20 hringir, en síðan 25 hringir í úrslitakeppninni síðdegis.

Sjá einnig: http:www.maxchallenge-rotax.com og styðjum okkar mann.
ERIKOS