Það er talað hér um að fólk á ökutækjum eigi að sýna tillitssemi sem er náttúrulega alveg sjálfsagt, hvers vegna telja hestamenn sig ekki þurfa að sýna tillitssemi líka, þeir vaða yfir allt og alla rífandi kjaft og telja sig hafa rétt á hverju sem er. Mín reynsla er sú að kurteis og tillitssamur hestamaður er undantekning, það er ætlast til að fólk með hunda þrífi upp eftir þá skítinn, hvers vegna gera hestamenn það ekki eftir sín dýr ?
Svo er alveg með ólíkindum hvað þessir íslensku hestar eru viðkvæmir og heilagir, það má ekki fluga lenda við hliðina á þessu þá tapa þeir glórunni og hlaupa stjórnlausir um allt land með skítastrauminn úr rassgatinu af taugaveiklun.
Ég er núna staddur erlendis vegna vinnu og konan vildi fara aðeins á hestbak sem er bara hið besta mál, við fundum stað fyrir þetta sem gerir út á allskonar sport.
Svæðið fyrir hestana er mjög stórt og afgirt og þarna er fólki sleppt lausu á þessum verkfærum. Mér leist nú ekki á þetta miðað við það sem maður hefur heyrt um taugaveiklun hesta á Íslandi, við aðra hliðina á hestasvæðinu er paintball völlur með tilheyrandi látum, við hina hliðina er vegur þar sem allar tegundir ökutækja æða framhjá og slá ekkert af, svo hinum megin við veginn er go-kart braut og fisflugvöllur, og allt er þetta í notkun á sama tíma.
Ég er eitthvað að horfa á þetta þegar maðurinn sem sér um þetta kemur með hestinn sem var pantaður, þetta er stærsti grasmótor sem ég hef á ævi minni séð, og fyrrverandi veðhlaupatæki, og nú taldi ég að dagar frúarinnar væru taldir þar sem að hún hefur stigið á hest 3svar áður, fyrir löngu.
Það runnu nú tvær grímur á konuna líka þegar hún sá hrossið og öll lætin þarna í kring, og ég spurði nú manninn hvort þetta væri ekkert varasamt. Hann horfði á mig í smástund og áttaði sig svo á spurningunni og tilkynnti mér það að þetta væri bara eðlilegt á þeirra slóðum, svo fór hann og náði í stiga til að frúin kæmist um borð.
Helstu vandræðin sem hún lenti í með hestinn var að þegar öskrin og skothríðin voru sem mest frá paintball vellinum, þá fékk hesturinn svo mikinn áhuga á stríðinu að hann fór upp að girðingunni til að horfa á og þurfti mikla sannfæringu til að halda áfram að hlaupa um.