Nú þegar einungis fimm keppnir eru eftir í MotoGP á þessu tímabili, eru aðeins þrír menn sem eiga fræðilega möguleika á heimsmeistaratitlinum.
Þeir eru:
Valentino Rossi með 209 stig fyrir Gauloises Yamaha.
Sete Gibernau með 180 stig fyrir Telefonica Movistar Honda.
Max Biaggi með 158 stig fyrir Camel Honda.
Rossi stendur augljóslega langbest að vígi eins og er, og yrði það sögulegur árangur af tveimur ástæðum næði hann titlinum. Í fyrsta lagi yrði hann fyrsti ökumaðurinn til að sigra fjórum sinnum í MotoGP og í öðru lagi fyrsti ökumaðurinn sem næði titli á fyrsta ári sínu með nýju liði. Rossi gekk til liðs við Gauloises Yamaha frá Repsol Honda liðinu fyrir þetta tímabil og hefur staðið sig betur en nokkur þorði að vona.
Það er hinsvegar alveg ljóst að Honda verður að töfra ýmislegt úr hönnunarhattinum ætli þeim að takast að vinna titilinn í ár. Það sem liðið hefur verið að prófa fyrir næstu keppni sem fer fram í Japan þann 19. september er meðal annars er endurbætt útgáfa af RC211V hjólinu. Í vikunni tókst Sete að setja óopinbert met á Estoril brautinni, þar sem Rossi rassskellti hann um síðustu helgi, sem gefur til kynna að Honda hafi tekist að bæta hjólið töluvert frá síðustu keppni.
Mótspil Yamaha hefur meðal annars verið hönnun á nýju pústkerfi, þar sem í fyrsta sinn eru engir hljóðkútar eins og mótorhjólamenn hafa hingað til vanist. Við prófanir á nýja kerfinu hefur Rossi staðið sig frábærlega og má því búast við mjög hörðum slag í Japan þann 19. enda er Motegi brautin álitin “Hondabraut”.
Það verða að teljast mjög litlar líkur á því að Max Biaggi takist að stela titlinum, sérstaklega í ljósi þess að hann datt í síðustu keppni á Estoril og missti þar með af gullnu tækifæri til að minnka stigabilið í næsta mann. Honum hefur hinsvegar í flestum keppnum sumarsins tekist að vera á verðlaunapalli svo hann gæti hugsanlega náð öðru sætinu með smá heppni.
Aðrir ökumenn verða að teljast frekar ólíklegir til að komast með tærnar þar sem þessir þrír hafa hælana.
Annað spennandi sem er að gerast í næstu keppni er að til Tohru Ukawa, tilraunaökumaður Honda, mun keppa á prótótýpu af RC211V næsta árs.