Ég vil byrja á að nefna að það sem kemur fram í þessari grein er ekki á dagskrá hjá internetveitunum, heldur eru þetta einungis vangaveltur mínar.
Síðan á seinni hluta ársins 2000 hefur Síminn (fyrrum Síminn Internet) boðið upp á svokallaða leikjaáskrift, sérstaklega ætluð þeim sem spila tölvuleiki á netinu. Aukagjald leggst á internetreikning viðkomandi aðila og í staðinn hlýtur hann 20MB heimasíðupláss, fimm netföng, forgang á skráningu fyrir Skjálfta, og 1000 króna afslátt inn á fyrrnefnt mót. Hingað til hefur þessum pakka hins vegar einungis verið beint til hóps þeirra sem spila á leikjaþjónum Símans.
Á undanförnum árum hafa fjölspilunarleikir (MMORPGs, þið þekkið þetta) farið að sækja í sig veðrið, og með tilkomu nýrra leikja hefur íslenskum spilendum fjölgað allverulega. Í dag áætla ég að í það minnsta eitt þúsund íslenskir spilarar stundi einhvern fjölspilunarleik reglulega. Ein helsta ástæða fyrir aukningu spilenda er án efa útgáfa EVE Online, sem Reykvíska fyrirtækið CCP gaf út á síðastliðnu ári, og það má segja að Síminn hafi átt hlutdeild að því að leikurinn hafi fallið vel í kramið hjá íslenskum leikjaunnendum. Ástæðan er einföld: Allar uppfærslur eru innanlands; öll leikjaspilun telst innanlands. En það er einn hængur á, leikurinn er sá eini sem hlýtur slíka lúxúsmeðferð, og þar sem íslenskir netverjar eru heimsfrægir fyrir nísku sína, þá hafa færri stundað aðra leiki að miklu viti. Það sér hins vegar hver heilvita maður að þessir leikir eru ekki að ástæðulausu vinsælir utanlands, þarna koma þúsundir manna saman og etja kappi við hvorn annan, eða ganga til liðs við hvorn annan í bardögum gegn tölvustýrðum skrímslum og mannstýrðum persónum.
Bak við hvern leik liggur mikið hugvit og það er vel vitað að hver svona leikur er hrein gróðamaskína, ef einn leikur nær 50.000 áskrifendum, sem er, þótt ég segi sjálfur frá, frekar algengt meðal þeirra leikja sem koma sterkir inn á markað, þá eru þessir leikir að hala inn um 48 milljónum króna á mánuði! Litla Ísland, hins vegar, hefur ekki getað verið alveg eins duglegt við að skrá sig upp í svona leiki, mörgum finnst það vera mikið bruðl að borga áskriftargjald í hverjum mánuði, en þegar gjald fyrir niðurhal, bæði frá plástrum og almennri spilun, leggst ofan á þetta, þá erum við komnir upp í töluverðar fjárhæðir sem sumir hafa ekki ráð á (lesist: tíma ekki að greiða).
Það er því góð pæling hvort internetveiturnar hér á landi, það er, Og Vodafone og Síminn (ásamt þessum smærri), ættu ekki að sjá sér gull á borði, og bjóða upp á, mikið rétt, frítt niðurhal frá þessum leikjum, það er, frá leikjaþjónum sem og á plástrum, gegn lítilli upphæð sem svarar um 500 krónum á mánuði. Ég held að flestir geti verið sammála mér að þar sé verið að tala um ágætis díl, þegar megabyte’ið kostar 2,5 krónur, og við erum að tala um fleiri hundruð megabyte’a á mánuði með plástrum meðtöldum! Ekki bara myndi þetta auka fjölda spilenda þessarar tegundar tölvuleikja, heldur erum við að tala um nokkra rauða frá leikjaþyrstum viðskiptavinum í hverjum mánuði, og það ásamt góðu feedback’i ætti ekki að gera hlutina verri en þeir nú þegar eru!
Eins og ég nefndi áður, þetta er bara hugmynd, kannski uppi í skýjunum, en hún er framkvæmanleg með aðstoð internetveitna Íslenska netsins, og yrði kærkomin viðbót fyrir vaxandi fjölda spilenda fjölspilunarleikja.