Fyrir allmörgum árum síðan, þá var ég eitt sinn að spranga í Vestmannaeyjum og svo illa vildi til að ég datt á bakið. Þetta varð kveikjan að mínum fyrstu kynnum að leikjatölvum. Í veikindum mínum þá ákvað pabbi minn að vera góður við mig og gefa mér leikjatölvu og gaf mér þessa frábæru leikjavél, Nintendo Entertainment System. Þetta varð mikil hressing þar sem ég hafði aldrei átt slíkt dót áður og var mikið leikið sér í eina leiknum sem fylgdi með, Super Mario Bros. Svo jólin eftir þetta, með bakið beint og óbrotið, (það brotnaði aldrei) fékk ég fullt af leikjum í jólagjöf. Þar á meðal var einn leikur sem heitir Faxanadu. Eftir að hafa sagt hvað þetta var crappy leikur, ekkert hægt að gera og vildi fá honum skipt ákvað ég að gefa honum aðeins meiri séns og ákvað að labba með kallinn í hina áttina. Þá uppgötvaði ég loksins hversu frábær leikur þetta væri. Ásamt honum pabba mínum urðum við óðir í þenna leik (þið getið fundið þennan snilldarleik á öllum góðum emulator síðum á netinu) og kláruðum hann með miklum tárum og látum á þrettándanum. Eftir þetta var ekkert sem gat stoppað pabba minn í að verða tölvuleikjafíkill dauðans. Hann varð svo yfirsig hrifinn af þessum leik að hann var alltaf í honum. Hann var farinn að klára hann á rétt rúmum 3 tímum einn og sjálfur.
Mörg ár liðu og ég fékk venjulega tölvu í fermingargjöf og fékk fullt af áhugaverðum leikjum. Enginn af þeim leikjum vöktu áhuga föður mínns, hann var ennþá staðfastur við gömlu NES vélina. ;) Mörg ár liðu í viðbót þangað til N64 kom til sögunnar. Pabbi keypti hana ásamt nýjasta Zelda tölvuleiknum sem kom út á þá tölvu. Ég verð að viðurkenna að sá leikur höfðar ekki mikið til mín, en mér til mikillar furðu tókst pabba mínum næstum að klára þann leik einn og sjálfur. Ekki slæmt af klunnalegum stórum kalli sem pabbi minn er.
Svo liðu enn nokkur ár í viðbót og ég var kominn með ágætisgræju til að spila hraðskreiða og góða leiki, Unreal Tournament, Half Life, Quake 3 o.s.Fr.v. Vinur minn var nú þegar kominn á fullt í það að spila Dark Age Of Camelot. Ég sá þennan frábæra leik hjá honum og ákvað að slá til og kaupa helvítis leikinn sjálfur. Byrjaði ég að spila hann á lélegu módemi og yfirtók símann og mamma og pabbi ekki ánægð með það. Þá fór ég með spariféð til símans og fékk mér ADSL tengingu. Rándýrt, hafði ekkert efni á því, en lét mig hafa það. LEIKINN SKYLDI SPILA! Ég meira að segja fékk mér vísa kort bara til þess að geta spilað ósköpin. Ég ákvað einn daginn að sýna leikinn fyrir pabba mínum og útskýra hvernig þetta virkaði fyrir sig og hann varð alveg dolfallinn sjálfur. Hann eyddi mörgum klukkutímum í það að horfa á og skipta sér af. Ég var orðinn pínu pirraður á þessu og ákvað að búa til kall handa honum og leyfa honum aðeins að spila.
Hann pabbi minn er ekki mikið skólaður í enskunni. Hann getur talað og lesið hana, en hann getur ekki skrifað hana. Þess vegna sagði ég blákalt framan í hann: “Þú nærð aldrei langt í þessum leik af því að þú kannt ekki að skrifá nógu góða ensku!!!” Því að þessi leikur byggist rosalega mikið á samvinnu og samskiptum við aðra leikmenn. Í dag þarf ég að éta þessi orð mín eins hrá og þau og voru sögð. :p Hann byrjaði að spila smávegis og smávegis, og oft þegar ég kom heim úr skólanum var hann límdur fyrir framan tölvuna mína að spila leikinn. Ekki leið á löngu þar til ég gat smellt saman einni lélegri tölvu fyrir hann, þar sem leikurinn skyldi bara vera spilaður. Nú var hann orðinn býsna frekur á spilunartímann, og var alltaf að spila meira og meira. Þetta olli því að ég missti algjöran áhuga á Dark Age Of Camelot og ég man eftir því þegar pabbi rauk framúr hæsta kallinum mínum í leveli.
Þetta var pínu svekkjandi þar sem ég var búinn að dæma hann sem algjöran vanvita og að hann ætti engan séns í þennan leik. Nú er pabbi minn kominn með einn 50 lvl paladín og er á leiðinni upp með nýjan kall, friar. Samskiptin við aðra leikmenn er ekki eins slæm og ég bjóst við. Hann klórar sig áfram, pikkar með 2 puttum það sem hann þarf að segja og oft á mjög slappri ensku. En honum tekst að koma á framfæri því sem hann þarf að segja. Honum þykir ekkert eins skemmtilegt en að spila DAOC þegar hann kemur þreyttur heim úr vinnunni. Þetta varð náttúrulega til þess að hann bauðst til að borga ADSL áskriftina og áskriftina á leiknum. ;) Ekki slæm bítti það.
Þessi saga er sönn! Pabbi minn er að verða 50 ára, og er þetta orðinn sjálfsagður hlutur að hann sé að spila þennan leik. Mig langaði að deila þessu með ykkur, ykkur sem eigið mjög pirraða foreldra sem skilja ykkur ekki. Þeir skilja ekki af hverju þið séuð að sóa tíma ykkar í svona vitleysu. Nú er það ég, sonurinn, 22 ára gamall, sem er orðinn pirraður á pabbanum fyrir það hversu miklum tíma hann sé að eyða í tölvuleiki. Ég hristi oft hausinn yfir tímanum sem hann eyðir í þetta, oft er hann að spila langt framá nætur um helgar. En jæja, ég gat svo sem búist við þessu þar sem hann er gamall RPG nintendo spilari. Endilega deilið ykkar skoðunum á þessari sögu, og endilega segið mér ef þið eigið við sama vandamál að stríða heima hjá ykkur ;) Ég veit það að vinur minn er ekki eins heppinn með pabba, hann blótar þessum leik í sand og ösku. :D
ENDIR
Takk fyrir mig og njótið þess að vera ung!